Færri að skjóta en fleiri rjúpur

Jón Víðir Hauksson á fallegum degi á rjúpnaslóð á Ströndum. …
Jón Víðir Hauksson á fallegum degi á rjúpnaslóð á Ströndum. Langt var í snjó og mikið fyrir veiðinni haft. Jón Víðir og félagi hans Jón Þór Víglundsson eru báðir í stjórn SKOTVÍS. Ljósmynd/JÞV

Fyrsta helgi rjúpnaveiðitímabilsins er nú að baki og margir veiðimenn fóru til að ná í jólamatinn. Eftir samtöl við skyttur víða að af landinu er hægt að draga nokkrar megin ályktanir. Flestir höfðu orð á því að þeir hefðu séð meira af fugli en á sama tíma í fyrra. Þá höfðu margir orð á því að svo virtist sem færri hefðu verið að skjóta. Helst má marka það að færri bílar voru á „hefðbundnum“ stöðum þar sem oft er mikil umferð.

Þá er ljóst að Covid tímabilið kom í veg fyrir hefðbundið námskeiðahald fyrir þá sem eru að sækja um byssuleyfi og því hefur nýliðun verið nánast engin þann tíma. Aðrir nefna að þeir nenni ekki að vera að fara úr bænum til að skjóta í örfáa klukkutíma eins og veiðitíminn hefur þróast, þar sem ekki er heimilt að veiða nema frá hádegi. Þá er líka ljóst að fuglaflensa hefur fælt einhverja veiðimenn frá.

Jón Þór Víglundsson og labradorinn Tjara komin upp í snjó …
Jón Þór Víglundsson og labradorinn Tjara komin upp í snjó eftir langa göngu. Þeir félagar veiddu hóflega. Ljósmynd/JVH

Athyglisvert er að skyttur sem sóttu heim rjúpnaslóðir á Vestanverðu landinu og á NA – horninu tala um að meira hafi verið af fugli en í fyrra. Það kemur heim og saman við að uppsveifla í rjúpnastofninum var staðfest í vor. Þó svo að viðkomubrestur hafi verið á NA horninu er engu að síður uppsveifla. Hún verður hins vegar ekki jafn hröð og menn höfðu vonað. Svipaða sögu er að segja af Vesturlandi en lítið hefur frést af Vestfjörðum.

Almennt höfðu menn orð á því að snjóleysi hefði gert veiðarnar erfiðari en það er þekkt að rjúpan leitar mjög hátt við slíkar aðstæður. Helst er að fuglar sem enn eru hálf dröfnóttir haldi sig neðarlega og þá einna helst ungfuglinn.

Einn veiðimaður sem spurðum um niðurstöðu helgarinnar sendi okkur svar sem segir býsna margt. Hann hefur haldið dagbók um sínar veiðar og þá ekki síst skráð hjá sér aðstæður. Ungir veiðimenn mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.

Einn af þeim sem er langt kominn með að ná …
Einn af þeim sem er langt kominn með að ná í jólamatinn er Dúi Landmark sem skrifaði bókina Gengið til rjúpna og kom út í fyrra. Hann tók þessa mynd í lok veiðidags. Ljósmynd/Dúi Landmark

„Við skráum hvar við vorum, hvernig voru snjóalög, vindátt og vindstyrkur. Var skýjað, heiðskírt, rigning eða snjókoma?  Og það er sko 100% hægt að glugga í þessi skrif og fara eftir þeim. Til að taka dæmi þá vitum við um veiðistað þar sem yfirleitt er mjög mikið af fugli þegar það er hæg sunnan eða suðaustan átt og smá suddi. Ef hann svo snýr sér í norðan um nóttina þá sjáum við ekki fjöður næsta dag. Einnig vitum við um staði sem að öllu jöfnu eru góðir í norðanátt en í vestanátt sést ekki fugl þó snjóalög séu nákvæmlega eins og daginn áður.“ 

Sú hugarfarsbreyting sem stjórnvöld hafa vonast eftir að verði meðal veiðimanna er komin fram. Það sést greinilega á til að mynda á samfélagsmiðlum og magnveiði heyrir sögunni til í það minnsta hjá þeim veiðimönnum sem Sporðaköst höfðu samband við. Það er orðið viðurkennd staðreynd að menn veiða aðeins í jólamatinn og láta svo gott heita.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka