Tvisvar á ári er haldin vel sótt keppni í sjóbirtingsveiði í Danmörku. Keppnin fer fram við strendur Fjóns og að hluta til á strandlengju Jótlands. Veitt er frá ströndinni og hafa tveir Íslendingar sem Sporðaköst vita um stundað þessa keppni og tekið þátt níu sinnum. Þetta eru þeir frændur Viktor Burkni Pálsson og Sigurður Már Bjarnason. Sá síðarnefndi er búsettur í Óðinsvéum og notar Burkni tækifærið og heimsækir fjölskylduna um leið og tekið er þátt í keppninni.
Reglurnar eru í sjálfu sér einfaldar. Allir geta tekið þátt en þurfa að kaupa sér einskonar ríkisleyfi til mega veiða við strendur Danmerkur. Það ársleyfi kostar um 3.500 krónur minnir Burkna. Þátttökugjaldið í keppnina sjálfa er svo um níu þúsund íslenskar krónur og er það greitt við skráningu í veiðibúðinniGo-fishing.
Burkni sem tók þátt í haustkeppninni sem fram fór í október segir að þetta sé virkilega skemmtilegt en alveg krefjandi. Byrjað er að veiða um miðjan dag á föstudegi og stendur keppnin til hádegis á sunnudegi. Þá eru fiskar vigtaðir og keppt er um þyngsta fiskinn.
„Þetta var í níunda skiptið sem við frændur tóku þátt saman. Við höfum báðir komist hæst í níunda sæti og verið mjög sáttir við það en keppendafjöldi er oft að hlaupa á fimm til sex hundruð manns. Þetta er mjög vinsæl keppni og veiðifólk kemur víða að úr Evrópu til að taka þátt,“ sagði Burkni í samtali við Sporðaköst.
Það er oft mikil stemmning í aðdraganda keppninnar þegar veiðimenn eru að skrá sig og þá er gjarnan tekinn einn bjór eða Viskí snafs og ólíkt því sem gerist á Íslandi mega veiðibúðir í Danmörku selja áfengi, enda Danir „ligeglad“ eins og við vitum.
„Reglurnar eru einfaldar. Það má veiða á allar græjur. Beitu og spúna og flugur. Bæði má nota flugustöng og kaststöng. Það eina sem er í raun bannað er að trolla á báti. Veiðin fer fram frá ströndinni, eða á bátum. Það er búið að kortleggja svæðið mjög vel, enda er það mjög stórt og hægt er að kaupa bók í veiðibúðinni þar sem bent er á tugi af góðum veiðisvæðum og staðirnir útskýrðir mjög vel. Er betra að veiða þá að vori eða hausti og hvort flóð eða fjara eru líklegri.“
Burkni hlær þegar hann er spurður hvort þetta sé skemmtilegt. „Ég elska að veiða og já þetta er mjög skemmtilegt. Allir keppendur geta skráð fisk með því að taka mynd af honum og senda inn. Það er hins vegar skilyrði að myndin sé tekin yfir vatni eða í háf. Ekki má senda inn myndir af fiski sem liggur á landi eða grjóti. Svo er dregið úr innsendum myndum og veitt verðlaun. Hins vegar keppnisfiskar sem fólk vill skrá þarf að mæta með í búðina. Það gera veiðimenn sem fengið hafa stóra fiska. Þar er fylgst með því þegar veiðimaður gerir að fiski svo allt sé nú löglegt og ekki búið að þyngja fiskinn með blýi eða slíku,“ upplýsir hann.
Stærstu fiskarnir sem þeir frændur hafa fengið í keppninni hafa slagað hátt í þrjú kíló. „Minn stærsti var 2,8 kíló og mig minnir að Sigurður hafi fengið fisk sem vigtaði 2,9 kíló. Sigurvegarar hafa oft verið að fá fiska sem vigta í kringum fimm kílóin. Hins vegar í ár var þyngsti sjóbirtingurinn í keppninni um sjö kíló. Það eru stærri fiskar á sveimi eða alveg upp í tíu kíló en þeir veiðast ekki oft.“
Eins og fyrr segir er keppnin haldin bæði að vori og hausti. Í október sem leið gekk vel hjá þeim félögum. „Ég hef aldrei veitt jafn vel og í ár. Ég var með einhverja átján sjóbirtinga og sá stærsti var rétt tæp tvö kíló. Tíunda sætið í ár var með fisk sem var um 2,2 kíló þannig að ég var ekki langt frá því sæti,“ segir Burkni spurður um gengi í síðustu keppni.
Veitt eru verðlaun fyrir tíu fyrstu sætin og er þau vegleg. Þegar Burkni hafnaði í níunda sæti í apríl 2019, fékk hann Bauer fluguveiðihjól af vönduðustu gerð. Fyrstu verðlaun eru gjafakort með ferðaskrifstofunni Get Away tours sem sérhæfir sig í veiðiferðum um heim allan. Gjafakortið er upp á hálfa milljón íslenskra króna þannig að til nokkurs er að vinna.
Einnig er keppt í unglingaflokki og vegleg verðlaun líka þar í boði.
En eiga þeir félagar Burkni og Sigurður einhvern uppáhalds stað sem hægt væri að benda íslenskum veiðimönnum á sem vilja leggja land undir fót og taka þátt í keppninni eða bara veiða við ströndina, einir og sér?
„Já. Við förum oft út í Eplaeyju eða Æbelö sem er rétt fyrir utan Fjón. Þetta er mögnuð eyja og þar er mikið dýralíf. Dádýr og einstakt sauðfjárkyn sem hvergi er að finna nema á eyjunni. Fuglalífið þarna er líka með ólíkindum og magnað að veiða í þessari paradís. En þetta er töluvert mikið labb. Um tuttugu kílómetrar þegar allt er talið og við vöðum út í eyjuna og þá er sjór í ökkla eða upp fyrir hné eftir því hvernig stendur á flóði. Það er auðvelt að finna hana á korti ef menn vilja fara þangað og kasta. Þarna er alltaf fiskur og fáir sem leggja leið sína þangað.“
Nú þegar er farið að auglýsa næstu keppni á heimasíðunni Go-fishing.dk. Að þessu sinni mun hún fara fram dagana 14. til 16. apríl. Fyrir áhugasama er hægt að benda á að allar upplýsingar er að finna á heimasíðunni sem nefnd er hér að ofan.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |