Adrenalínið flæddi á Seychelleseyjum

María og Óli með GT, eða Giant Trevally. Hann kallar …
María og Óli með GT, eða Giant Trevally. Hann kallar þetta konung fiskanna og víst er að fáir sportfiskar jafnast á við þennan þegar kemur að spretthörku og átökum. Ljósmynd/ÓV

Það er hægt að stunda stangveiði allt árið þó svo að íslenska veiðisumarið sé stutt. Margir leita í heitari lönd eða þar sem árstíðir eru á öðrum tíma en á norðurhveli. Svo er það sjóstöngin sem hægt er að stunda allt árið. Veiðihjónin Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen hafa verið iðin við að kanna miðin á Seychelleseyjum. Við náðum sambandi við þau hjónin í lok ferðar.

„Já. Við María erum á leið heim frá kóralrifinu Farquhar sem er eitt þeirra bestu af veiðisvæðunum á Seychelles í Indlandshafinu, austur af Afríku. Undanfarin nokkur ár höfum við kannað öll helstu veiðisvæði Seychelleseyja, svo sem Alphonse, Farquhar, Providence og Cosmoledo. Það sem togar mest í okkur þarna er konungur fiskanna, Giant Trevally eða GT eins og hann er oftast nefndur,“ upplýsir Ólafur.

María Anna Clausen lyftir GT upp úr krystaltærum sjónum við …
María Anna Clausen lyftir GT upp úr krystaltærum sjónum við Farquhar kóralrifið. Þau hafa nú prófað flest veiðisvæði á Seychelleseyjum. Ljósmynd/ÓV

Hvernig hefur gengið?

„Við veiddum nokkuð vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það er búið að vera nokkuð hvasst, sem gerir veiðimönnum erfitt fyrir að koma stórum flugum af nokkurri nákvæmni upp í vindinn. Þrátt fyrir að það væri lítið af GT á rifinu núna gerðum við fína veiði eins og stundum áður. Við veiddum góðan slatta af flottum GT frá rúmum 70 sentímetrum upp í tæpa hundrað og talsvert af minni fiskum.“

Var þetta hópur frá Íslandi, eða blandað?

„Veiðimennirnir sem veiddu nú voru frá Noregi, Svíþjóð, Englandi, Írlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Þýskalandi auk okkar Maríu. Veitt er á allt að 12 stangir við Farquhar. Farið er út snemma á morgnana á litlum bátum; tveir veiðimenn á hverjum báti ásamt leiðsögumanni. Við erum á sjó allan daginn, fáum með okkur nestisbox og komum ekki í land fyrr en langt er liðið á dag. Þegar lagt er í hann á morgnana hefur maður með sér vatnsheldan bakpoka, nokkrar flugustangir og flugustangir til vara. Reyndar verður maður að hafa eiginlega tvennt af öllu, auka gleraugu, auka húfu, auka fluglínu, gott úrval af flugum og sterka tauma allt uppí 120 pund. Ef eitthvað kemur fyrir yfir daginn er maður úr leik gleraugnalaus, húfulaus, stangarlaus eða flugulaus.

Þetta eru miklir fiskar og og þeim er stundum líkt …
Þetta eru miklir fiskar og og þeim er stundum líkt við lest á fullri ferð. Óli var heppinn að slasa sig ekki þegar flugulínan vafðist um fótinn á honum. Snarræði þeirra og leiðsögumannsins bjargaði málum. Ljósmynd/ÓV


Stærsti fiskurinn okkar nú var 97 sentímetrar sem er um 16 til 17 kíló eða 32 – 34 pund. Tökurnar eru ofsafengnar. Fiskarnir snúa sér á sekúndubroti og synda á allt að sextíu  kílómetra hraða. Mikil læti og mikið adrenalín fylgir þessari veiði. Við lentum í mörgum ævintýrum í baráttu við þessa ótrúlega sterku fiska. Sú eftirminnilegasta er líklega þegar ég stóð frammi í stefni bátsins okkar og var rétt nýbúinn að setja í einn af stærri gerðinni og það kom í ljós að flugulínan mín var vafinn utan um vinstri fótinn. Við vorum náttúrulega viss um að fiskurinn væri farinn af en einhvernvegin tókst okkur Maríu ásamt leiðsögumanni okkar að leysa flækjuna svo ekki þyrfti að taka fótinn af,“ hlær hann og heldur svo áfram.

„Um leið og fiskurinn var laus var hann rokinn einhverja 150 metra og festi línuna aftur í kóröllum. Við æddum á eftir honum á bátnum og vorum aftur viss um að fiskurinn væri farinn en þegar okkur tókst að losa línuna úr kórölunum tók hann aftur 100 metra roku. Þegar loksins tókst að ná þessum magnaða fiski upp að bátnum og háfa hann datt flugan úr kjafti hans og var krókurinn nánast orðinn uppréttur en flugur hnýttar fyrir þessa fiska eru aðeins hnýttar á króka af sterkustu gerð. Þess má geta að agnhald allra króka er klemmt aftur svo þeir skaði ekki fisk þegar sleppt er. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að aldrei komi slaki á línu svo ekki losni úr fiski.“

Bleika flugan sem sá stóri tók. Sú efri er illa …
Bleika flugan sem sá stóri tók. Sú efri er illa farin eftir átökin. Það er ekki mikið hald eftir í króknum og hann nánast orðinn uppréttur. Þetta er Gamakatsu krókar sem eru með þeim sterkari. Sú neðri er ónotuð til samanburðar. Ljósmynd/ÓV



En það getur verið stórhættulegt að lína vefjist um handlegg eða fót?

Að fá línuna utan um fótinn eða um hönd getur verið mjög varhugavert. Kjarni flugulínunnar er um sextíu pund og átökin mikil. Menn geta því slasað sig nokkuð alvarlega þegar svona slys koma upp. Við vorum hins vegar heppin og áttuðum okkur á því sem var að gerast nokkuð fljótt svo þetta fór ekki illa.“

Tvennt af öllu. Farið er af stað að morgni og …
Tvennt af öllu. Farið er af stað að morgni og komið í land að kvöldi. Þú ert úr leik þann daginn ef eitthvað glatast og ekki eru græjur til vara. Ljósmynd/ÓV

 

Hvað með meðafla? Hvaða aðra fiska voru þið að setja í þarna?

Fána fiska við Seychelles og þá einkum Farquhar er mjög fjölbreytt. Við erum helst að sækjast í Giant Trevally sem ég kalla konung fiskanna. Annar eftirsóknarverður fiskur þarna er Bumphead Parrotfish. Því miður veiddist enginn slíkur í þessari viku. En við veiddum talsvert af öðrum svo sem ýmsar tegundir af Grouper, Snapper, svo og Bonefish. Þá veiddist einn seglfiskur og nokkrir Triggerfish.

Veiðimenn og starfsfólk á Farquhar. Hópurinn tókst á við krefjandi …
Veiðimenn og starfsfólk á Farquhar. Hópurinn tókst á við krefjandi aðstæður en veiddi engu að síður vel. Ljósmynd/ÓV

Verðið á svona veiði. Er það sambærilegt við verð sem við þekkjum hér heima?

Veiðileyfin þarna eru nokkurn vegin á pari við laxveiðileyfi í betri ám heima. Umgjörðin og öll starfsemin þarna er mun meiri fyrir hvern veiðimann á þessum fjarlægu stöðum en hjá okkur. Það eru margir starfsmenn á hvern veiðimann. Hægt er að fara í fluguveiði í sjó fyrir mun minni upphæðir. Til dæmis Christmas Island sem eru að opna aftur nú eftir tveggja ára Covid lokun. Þar leggur dagurinn sig á rúmar 70.000 krónur með fæði og leiðsögumanni. Svona ferðir þurfa því ekki að kosta mjög mikið. Þessir tveir staðir sem ég nefni hér eru Giant Trevally staðir fyrst og fremst en svo er einnig fjöldi staða í Karíbahafinu þar sem hægt er að komast í fjölbreytta veiði á mjög viðráðanlegu verði og án mikilla ferðalaga,“ svaraði Ólafur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert