Völundur Þorsteinn Hermóðsson frá Álftanesi í Aðaldal er látinn. Hann lést á sjúkrahúsinu á Akureyri að kvöldi 26. nóvember. Völli, eins og hann var alltaf kallaður, var fæddur árið 1940 og var 82ja ára þegar hann lést. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjú uppkomin börn. Eftirlifandi eiginkona hans er Halla Lovísa Loftsdóttir og börn þeirra eru Steinunn Birna, Völundur Snær og Viðar. Þá lætur Völli eftir sig hundruð ef ekki þúsundir veiðifélaga sem nutu hans leiðsagnar og aðstoðar við Laxá í Aðaldal en hann hóf að leiðsegja veiðimönnum við Laxá aðeins tólf ára gamall. Hans ferill á þessu sviði spannar því hvorki fleiri né færri en sjötíu ár.
Óhætt er að segja að Völli hafi verið náttúruperla. Oftast er þetta orð notað um fallega staði eins og til dæmis Æðarfossa eða Hólmavaðsstíflu en í tilviki Völla stendur hann undir orðinu. Frændgarður hans hefur minnst Völla á Facebook-síðum sínum. Þar hafa Árni Pétur Hilmarsson bróðursonur hans kvatt goðsögnina sem Völli var óneitanlega. Jón Þór Ólason formaður SVFR hefur einnig stungið niður penna til að minnast hans. Útför Völla verður gerð frá Neskirkju í Aðaldal þann 10. desember.
Hér að neðan fylgja minningarorð Árna Péturs um frænda sinn og læriföður. Sporðaköst votta ættingjum og vinum samúð í ljósi þess að mikill maður er genginn.
„Minning um Völund föðurbróður minn. Sumir eru svo stórir í lífi einstaklings að þeir verða einhvern veginn órjúfanlegur partur af tilverunni. Þetta þýðir ekki endilega dagleg samskipti eða samgang heldur einfaldlega að þú veist alltaf af þessum einstaklingi sem er alltaf í þínu liði og ber hag þinn fyrir brjósti og styður þig með ráð og dáð.
Völundur Hermóðsson var einn af þessum mönnum í mínu lífi. Við Völundur höfum verið samherjar og samstarfsmenn í veiðileiðsögn í þrjátíu ár. Völli, að öðrum ólöstuðum, er besti veiðileiðsögumaður sem ég hef kynnst, hann hefur verð lærifaðir minn í leiðsögn frá því að ég byrjaði að fylgja veiðimönnum sautján ára gamall.
Hann var gríðarlega flinkur veiðimaður og gat oft galdrað upp lax þegar við yngri mennirnir komum tómhentir heim. Hann kenndi mér mörg brögð í veiði sem hægt er að grípa til þegar tregveiði er og hefur það skilað mér mörgum löxum við leiðsögn í gegnum tíðina. Fyrst og fremst var hann þó svo mannlegur. Hann var alltaf að passa upp á okkur yngri mennina þegar við vorum óöruggir í okkar störfum og til hans var alltaf hægt að leita. Eitt það mikilvægasta sem hann hefur kennt mér er einmitt þessi mannlegi þáttur, að viðskiptavinirnir finni að okkur heimamönnum er virkilega umhugað um þá, að þeir fái veiði og þjónustu og að allir samfagni þegar einhver fær fallega veiði. Aðalmálið eru þó sögurnar, að þekkja nærumhverfi sitt, sögu svæðisins, halda uppi spennustigi, geta fyllt veiðimenn af sögum og fengið veiðimenn til að staldra við og njóta stundarinnar þegar lítið veiðist.
Við Völundur höfum eytt þúsundum klukkustunda á bökkum Laxár og í guida-herberginu í Veiðiheimilinu í Árnesi. Í baksýnisspeglinum er þetta með bestu stundum ævi minnar og fyrir það er ég þakklátur.
Völundur var á undan sinni samtíð á margan hátt. Honum var mjög umhugað um umhverfið og aðgang veiðimanna að ánni. Fyrir hans áeggjan og með hans aðstoð þá lögðum við sláttufæra göngustíga víða niður að ánni og með bökkunum. Til þess að bæta upplifun veiðimanna settum upp stiga, bryggjur, borð og skýli svo eitthvað sé nefnt. Áin rann í gegnum höfuðið á honum og hjarta hans sló í takt við ána.
Eftir að heilsa Völundar fór að versna og hann treysti sér ekki lengur til að fylgja veiðimönnum tók hann börn okkar Hermóðs bróður míns að sér, tók þau í þjálfun í leiðsögn, kenndi þeim staðhætti við Laxá og virðingu við náttúruna líkt og hann kenndi okkur bræðrum á sínum tíma. Fyrir það verð ég þér ævarandi þakklátur minn kæri.
Eftir að Völundur gerðist það lélegur til gangs að hann átti erfitt með að leiðsegja þá tók hann börnin okkar Hermóðs bróður í guida-þjálfun og guidaði með þeim, eða einfaldlega guidaði kúnna sem vildu njóta félagsskapar hans og sérþekkingar þó hann gæti ekki lengur staðið í ánni eða háfað fisk.
Völundur vildi helst alltaf vera við ána og hefur hann glatt margan veiðimanninn með því að sitja á pallinum fyrir utan veiðihúsið þegar menn komu frá veiðum eða hitta þá niðri við á. Margur veiðimaðurinn hefur glaðst við að sjá grænan Cherokee birtast í rólegheitaakstri á veiðivegunum meðfram Laxá, þá gátu menn treyst á að stutt var í góðar sögur og góð ráð. Völundur hefur haft það hlutverk hin síðari ár að hugsa um veiðihúsið, að bátarnir séu málaðir og margt annað. Það að eiga að mann sem iðnaðarmaður getur ekki sagt nei við er ómetanlegt.
Völundur var fræðimaður góður, hann var víðlesinn og hafði mjög gaman af tölfræði, sérstaklega um ána. Ef mig vantaði tölulegar upplýsingar um eitthvað var alltaf hægt að hringja í Völla og ef hann var ekki viss, þá var svarið komið daginn eftir. Ég veit t.d. að aðstoð Völla og fróðleikur var Bubba Morthens ómetanlegur þegar hann skrifaði bókina sína um Laxá í Aðaldal.
Við Völundur störfuðum ekki bara saman við ána heldur var hann alltaf að hugsa um mig eftir að faðir minn dó. Þegar ég fór aftur í skóla og átti fjárhagslega erfitt þá var Völli að bjarga mér um vinnu í jóla- og páskafríum. Við unnum saman hjá Nóntindi í nokkur ár, m.a. við að leggja hitaveitu við Húsavik og í Jökulsárslóni í Suðursveit við að grjótklæða affallið frá lóninu.
Völundur varð hálfgerður afi fyrir börnin mín og ómetanlegur partur af mínu lífi. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kveðja Völla inni á sjúkrahúsi á Akureyri áður en hann skildi við. Ég er þakklátur fyrir vinskap hans og allt sem hann hefur kennt mér í gegnum tíðina. Tíminn er einhvern veginn alltaf svo fljótur frá okkur og maður gefur sér ekki þann tíma í samveru sem maður ætti að gefa þeim sem manni þykir vænt um. Ég hef eftirsjá af svo mörgum samræðum sem við áttum eftir að eiga, svo mörgu sem ég átti eftir að spyrja hann út í en það tækifæri er farið og kemur ekki aftur. Takk fyrir allt og allt elsku frændi. Munum að vera góð við hvort annað, við vitum aldrei hvaða tíma við eigum með ástvinum.“
Árni Pétur Hilmarsson
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |