Ratcliffe hefur áhuga á fleiri ám

Gísli Ásgeirsson, ásamt Jim Ratcliffe og Ben Cussons stjórnarfomanni The …
Gísli Ásgeirsson, ásamt Jim Ratcliffe og Ben Cussons stjórnarfomanni The Royal Automobile Club í Englandi. Þeir voru að ljúka ellefu kílómetra hlaupi frá Vesturdal yfir að Selá þegar þessi mynd var tekin. Ljósmynd/SRI

Félag breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe sem á og leigir laxveiðiár á Norð - Austurlandi kynnti áform um milljarða uppbyggingu á aðstöðu fyrir veiðimenn á blaðamannafundi í júní í fyrra. Nú eru framkvæmdir hafnar af fullum krafti og aðrar á lokastigi undirbúnings. Raunar hefur allt verkefnið stækkað frá því að fundurinn var haldinn því í millitíðinni samdi félag Ratcliffes um leigu á Hafralónsá og þar eru uppi áform um að byggja nýtt veiðihús. Er það viðbót við fyrri kynningu á áformum félagsins.

Raunar hefur félagið, Six Rivers Project nú fengið nýtt nafn og heitir Six Rivers Iceland.

Við settumst niður með Gísla Ásgeirssyni framkvæmdastjóra Six Rivers Iceland og fengum stöðuna á hinum ýmsu þáttum þessara framkvæmda. „Við erum byrjuð á veiðihúsinu við Miðfjarðará í Bakkafirði og grunnurinn er tilbúinn. Húsið verður byggt á staðnum og við leggjum áherslu á að ráða heimamenn í framkvæmdirnar. Við erum jú í ofurlitlu kapphlaupi við tímann. Við erum að stefna að því að húsið verði tekið í notkun fyrir næsta veiðitímabil en það er bara svo mikil óvissa í heiminum í dag að við vitum ekki hvort það gengur upp.“

Feðgarnir Gísli og Óskar Hængur á rúntinum á böggí bíl …
Feðgarnir Gísli og Óskar Hængur á rúntinum á böggí bíl fyrir austan. Ljósmynd/GÁ

Nýja húsið við Miðfjarðará í Bakkafirði er áætlað 450 fermetrar og er það mikil breyting á aðstöðunni sem er nú fyrir veiðimenn. Tvær stangir eru í Miðfjarðará og hafa miklar framkvæmdir verið í ánni við að gera þar fiskgenga fossa sem áður voru hindrun fyrir laxinn. Mikið var lagt upp úr því að gera fiskveginn sem náttúrulegastan. Gamla veiðihúsið verður áfram notað og verður það aðstaða fyrir starfsfólk. „Einhverjum kann að þykja vel í lagt að vera með rúma fjögur hundruð fermetra fyrir tvær stangir, en þetta er nú einu sinni þannig að sameiginlegu rýmin þurfa að vera af vissri stærð og sófasett þurfa ákveðið pláss og sama má segja um eldhúsið. Þar þarf ákveðið pláss og þetta er niðurstaðan.“ Fjögur herbergi fyrir gesti verða í nýja húsinu við Miðfjarðará.

Hvað með staðsetningu á nýju veiðihúsi við Hofsá. Liggur hún fyrir?

„Já. Nokkurn veginn. Við erum að vinna í því að ræða við landeigendur og sækja um leyfi til kirkjunnar. Þessi staðsetning gerir það að verkum að breyta þarf deiliskipulagi og við höfum stækkað húsið frá því sem fyrst var lagt upp með. Þetta tekur allt sinn tíma,“ brosir Gísli góðlátlega.

Stöngum fækkað í Hofsá

Nýja staðsetningin er við þann magnaða veiðistað Skógarhvammshyl og hefur húsinu verið fundinn staður að norðanverðu við Hofsá, eða kirkjumegin við ána og sömu megin og veiðihúsið er í dag. „Við erum að vinna í því að sækja um lóðina og það er gert í samstarfi við landeiganda og veiðifélagið. Þetta er ekki eins og að setja niður hjólhýsi sem er svo hægt að draga í burtu. Þessi bygging mun væntanlega þjóna veiðimönnum og gestum næstu fjörutíu til fimmtíu árin og við erum líka að reyna að sjá fyrir hver þróunin verður á þeim tíma. Gamla veiðihúsið var byggt af mikilli reisn og fyrirhyggju á sínum tíma en það uppfyllir alls ekki þá eftirspurn og þær kröfur sem eru gerðar í dag. Þannig að við erum að reyna að sjá fyrir hvernig þessi þróun verður, án þess að vera með einhverjar óraunhæfar hugmyndir.“

Gísli og tíkin Vök á rjúpnagöngu fyrir austan.
Gísli og tíkin Vök á rjúpnagöngu fyrir austan. Ljósmynd/GÁ

Veitt hefur verið á sjö stangir í Hofsá. Það breytist næsta sumar og fækkar þeim um eina og verður veitt á sex og reiknar Gísli með að nýja húsið verði í kringum þúsund fermetrar, sem er svipuð stærð og veiðihúsið við Selá. Sex stangir geta þýtt allt að tólf veiðimenn. Þá er eftir að hýsa leiðsögumenn og annað starfsfólk sem sér um daglegan rekstur hússins og allar máltíðir. Gert er ráð fyrir tíu herbergjum í nýja húsinu.

Eftir að Six Rivers samdi nýlega um leigu á Hafralónsá má segja að það verkefni hafi farið fremst í forgangsröðunina og þar verður byggt nýtt veiðihús og mun það rísa á undan húsinu við Hofsá. „Það eru komnar fram hugmyndir um staðsetningu og við erum búin að vera að vinna þarfagreiningu við nokkrar staðsetningar. Þar er farið yfir kosti og galla við mögulegar staðsetningar. Vonandi gengur það allt vel fyrir sig, en við þurfum eðlilega að vinna þetta í samstarfi og samráði við veiðifélagið og landeigendur. Horft er til þess að vera með sex til átta herbergi í húsinu við Hafralónsá.

Framkvæmdir við Vesturdalsá eru vel á veg komnar en þar er verið að reisa veiðihús fyrir ána og einnig sumarhús í eigu fjölskyldu Ratcliffes. Framkvæmdirnar eru í landi Ytri – Hlíðar og þurfti að leggja í töluverða vegagerð að byggingasvæðinu sem stendur nokkuð hátt með gott útsýni yfir dalinn.

Þú ert allt í einu orðinn byggingastjóri Gísli. Ætlaðirðu ekki bara að vera í sölu á laxveiðileyfum?

„Nei. Ég er ekki byggingastjóri. Við notum í það þar til bært fólk. Ég hef einhvern veginn lent í því að vera að halda öllu gangandi og liðka fyrir ef verða flöskuhálsar. Þá er ég stundum kallaður til og reyni að þoka málum áfram,“ segir hann af hógværð.

Ratcliffe leitar að radíómerktum löxum við Ytri - Hrútá sem …
Ratcliffe leitar að radíómerktum löxum við Ytri - Hrútá sem er ein af hliðarám Selár. Hrútá er langt fyrir ofan Efri - Foss. Ljósmynd/GÁ

Gastu séð þetta ævintýri fyrir Gísli? Þú ferð í samstarf við Ratcliffe á sínum tíma og svo er allt í einu komin upp þessi staða. Er þetta ekki ofurlítið galið, ef þú hugsar til baka?

„Hvernig var þetta með froskinn og heita vatnið? Ef þú hitar vatnið nógu rólega þá fattar hann ekki að það er byrjað að sjóða. Ég er froskurinn í þessari líkingu. Þegar hlutir gerast rólega en í rökréttu framhaldi hver af öðrum og það er ekkert bull í gangi. Allar ákvarðanir, markmið og plön eru gerð með ákveðna niðurstöðu í huga, þá verður þetta ekki furðulegt. Ef þú hins vegar kippir manni út úr lífinu og stingur honum svo inn í lífið einhverjum árum síðar þá er það auðvitað skrítið.

Við erum náttúrulega að byggja á grunni sem búið var að leggja fyrir. Það voru frumherjar sem byrjuðu á að byggja laxastigann í Selá um 1970. Þetta voru frumkvöðlar úr Reykjavík sem fóru að reka starfsemi þarna. Orri Vigfússon kom svo inn í þetta félag, einhverju síðar, með sínar hugmyndir og fór að draga að fleiri útlendinga. Því næst kom Jóhannes Kristinsson inn í þetta með sinn kraft og sína sýn á uppbygginguna og loks kemur Ratcliffe inn í þetta með sínar hugmyndir.“

2/3 af tekjunum frá útlendingum

Og peninga?

„Já. Með fjárhagslegan styrk. Þetta væri ekki gert án hans. Hreyfiaflið er auðvitað peningar.“

Eru þið með viðskiptavini fyrir þetta allt saman? Þetta er orðin vara sem  tæpast er seld venjulegum íslenskum veiðimönnum.

„Það er ekkert leyndarmál að drjúgur hluti af okkar gestum í Selá, hafa verið útlendingar. Tekjulega séð hefur hlutfall erlendra veiðimanna verið tveir þriðju hlutar. Það fer ekki endilega saman við tíma. Veiðileyfin á jaðartíma eru ódýrari, eins og við vitum. Við erum ekki að segja að hér eigi bara að veiða útlendingar. Við erum hins vegar að segja að við ætlum að bjóða upp á fimm stjörnu aðstöðu og veiði. Rými og þjónustu og allan aðbúnað í kringum þetta. Það er náttúrulega á fimm stjörnu verðum. Það kostar að fara á fimm stjörnu hótel, en þú hefur val um það sem veiðimaður. Okkar markmið er ekki að ýta einhverjum út. Það bara kostar þetta. Við reynum að halda verðunum í skynsemi en rekstur á dýrum og stórum fasteignum er kostnaðarsamur. Við erum með gríðarlega öflugt rannsóknar- og uppbyggingarstarf í gangi. Við erum með starfsmenn sem eru í vinnu allt árið við að fylgjast með ánum og vatnasvæðunum. Við erum með fólk sem vinnur gagngert í því að sjá hvar við getum gert betur, án þess að vera að stunda miklar seiðasleppingar. Allt þetta snýst um að reyna að hjálpa laxinum að takast á við þá erfiðleika sem klárlega mæta honum í hafinu. Við sjáum að það hefur harnað á dalnum hjá honum í sjónum.

Í þetta fara peningarnir. Það er enginn að taka arð út úr þessu. Það er enginn að fá greidd há laun. Það er ekki verið að láta félögin greiða einhvern rugl kostnað. Við setjum einfaldlega allt í það að reyna að svara þeirri spurningu, hvernig getum við snúið þessari þróun við á sem skemmstum tíma.“

Verktakar á vegum Trésmiðjunnar Mælifells á Vopnafirði vinna við grunninn …
Verktakar á vegum Trésmiðjunnar Mælifells á Vopnafirði vinna við grunninn að nýja veiðihúsinu við Miðfjarðará í Bakkafirði. Ljósmynd/SRI

Trúir þú að það sé hægt?

„Já. Sko. Við skulum orða það þannig að ég trúi því að við getum látið gott af okkur leiða. Ég er ekki fífl. Ég veit að ég get ekki snúið við náttúrulögmálum. Við erum kannski að eiga við náttúrulögmál og þá meina ég hlýnun jarðar, eða eitthvað slíkt. Við snúum því ekki við, þessi hópur. Það er deginum ljósara. En getum við látið gott af okkur leiða? Alveg klárlega. Getum við bætt umhverfið og eflt stofna þessara áa þar sem við erum að vinna? Já, alveg klárlega.“

Hefur áhuga á að taka fleiri ár

Nú eru þið búin að breyta nafninu í Six Rivers Iceland. Kemur til greina að breyta því enn frekar? Til dæmis í Seven Rivers? Ok, ætlið þið að taka fleiri ár? Er það markmiðið?

„Þegar við lögðum af stað í verkefnið vorum við að skoða sex ár og þess vegna kom þetta nafn. Það hefur verið stofnað félag í Afríku sem er systurfélag okkar og heitir Six Rivers Africa. Það er sami eigandi en tengist okkur svo sem ekki að öðru leiti. Það félag er að vinna að uppbygginu og búa til verndarsvæði fyrir villt dýr. Þar eru svo sem engir fiskar undir og bara ein á sem er á því landsvæði, en snýr fyrst og fremst að villtum dýrum.“

Gísli. Viljið þið fleiri ár?

„Það er búið að taka um það ákvörðun að við höfum áhuga á að taka að minnsta kosti eina á, til viðbótar, undir þennan hatt.“

Og þá undir sömu formerkjum?

„Já. Hvort að það verður veit ég hreinlega ekki. Hvort að þær verða mögulega tvær veit ég heldur ekki. Ef tækifærin koma þá höfum við áhuga. En ég vil taka það fram að við erum ekki að fara að taka þátt í einhverju kapphlaupi. Við höfum áhuga og eigandinn hefur sagt það skýrt að við erum til í að koma að þar sem við höfum eitthvað fram að færa. Við erum ekki veiðileyfasalar lengur. Við erum umhverfissamtök, þar sem við erum fyrst og fremst að hugsa um framgang Atlantshafslaxins. Það að selja veiðileyfi er markmið númer tvö og það er til þess að fjármagna þau verkefni í umhverfisvernd sem við erum að vinna að. Við setjum okkur ekki á sama stað og aðrir veiðileyfasalar sem leigja ár og selja veiðileyfi. Það er bransi sem ég þekki alveg.“

Ratcliffe við jeppann sem hann lét hann og framleiða. Grenadier …
Ratcliffe við jeppann sem hann lét hann og framleiða. Grenadier jeppinn er hannaður til að vera öflugur við erfiðar aðstæður. Hér er veitt í Vesturdalsá í september í fyrra. Ljósmynd/GÁ

Gengur þetta viðskiptamódel sem þú ert að lýsa, upp?

„Eins og er, já. Áætlanir okkar sem við gerðum fyrir tveimur árum eru að standast. Það eru engin þau frávik sem skipta máli. Það þarf samt ekki miklar breytingar á heimsvísu til að allt riðlist, en það á svo sem við um allan rekstur. Ég get ekki annað sagt en að ég hafi fulla trú á að þetta módel gangi upp. En hugmyndafræðin okkar er skýr. Eigandinn hefur lagt fram fjármagn til að byggja upp aðstöðuna við þessar ár og gera hana fyrsta flokks þannig að við getum selt meira og á hærri verðum til þess að búa til tekjur fyrir framtíðina og standa undir þessum kostnaði. Við erum með alls konar plön hvað varðar uppbyggingu og rannsóknir. Við erum að skoða að ráða okkar eigin vísindamenn. Við höfum verið með doktorsnema í tvö ár sem eru að ljúka sínu verkefni, væntanlega í vetur. Allt kostar þetta töluvert mikla peninga.“

Þessi forréttindi eru hverful

Þetta er samt svo magnað. Hugsaðu nokkuð mörg ár til baka. Þú í eldhúsinu í Norðurá með Haugnum og Einari Páli að borða eftir að vera í leiðsögn með veiðimenn. Svo þetta að stýra félagi Ratcliffes.

„Eins og þú veist þá vorum með Vesturdalsá á leigu og þetta er langt síðan. Við vorum að opna ána. Þessi ferð opnaði augu mín og breytti mér. Það er teljari í Vesturdalsá og það voru gengnir ellefu laxar upp fyrir hann, þann 3ja júlí þegar við mættum. Ég man ekki hvaða ár, en þetta er langt síðan. Á þremur dögum veiddi ég og drap níu af þessum ellefu. Það bættist ekki við í gegnum teljarann og það kviknaði eitthvað ljós í kollinum á mér. Þetta var lítil týra fyrst og ég áttaði mig á því að þetta gekk ekki upp. Frá þessum tíma hefur umhverfissinninn blundað í mér. Ég hef áttað mig á því að það að ganga til veiða, hvort sem það er fiskur, rjúpa eða hreindýr, er að fá að gera þetta. Ekki það að vera að koma heim með fullan kassa af laxi eða hundrað rjúpur. Ég er ekki lengur að veiða mér til matar, í þeim skilningi. Ég er ekki lengur þar. Ég hef miklu meiri ánægju af því að vera með félögum mínum og njóta þess að vera. Því að sannaðu til. Þessi forréttindi sem við búum hérna við, verða ekki endilega í boði eftir fimmtíu eða hundrað ár.“

Gísli Ásgeirsson og Sir Jim Ratcliffe við upphaf laxveiðinnar í …
Gísli Ásgeirsson og Sir Jim Ratcliffe við upphaf laxveiðinnar í Selá sumarið 2019. Fosshylur í Selá. Einar Falur Ingólfsson

Eða jafnvel bara tuttugu ár?

„Ég veit ekki hvað er að fara að gerast í þessu en ég held að við verðum að reyna að skilja að það eru of margir sem sækja í þetta frelsi. Það er umframeftirspurn eftir frelsinu. Bara að setjast niður einn með kaffibrúsa og fá sér kaffi og kæfubrauðsneið og horfa yfir dalinn. Það eru forréttindi sem við þurfum að kunna að meta.“

En nú hefur Ratcliffe sjálfur sagt að líkast til takist ekki að bjarga laxinum. Hvað verður þá um alla þessa uppbyggingu fyrir austan?

„Ég veit það ekki. Húsin verða svo sem alltaf til staðar og þeim yrði þá fundinn nýr farvegur. Fyrir fólk að labba með ánum eða njóta náttúrunnar með einhverjum hætti. Það kemur þá bara í ljós, fari svo.“

Þið hafið innleitt umdeildar veiðireglur á ykkar svæðum. Flotlínu og jafnvel að bara megi veiða tvo laxa í sama hyl og þá verði veiðimaður að fara annað. Er þetta að vekja lukku?

„Guð minn góður“

„Eigandi félagsins lagði okkur þær grunnreglur fyrir nokkrum árum síðan að hann vildi takmarka veiðiálagið, veiðisóknina og hann vildi takmarka þær veiðiaðferðir sem væru í boði, umfram það að veiða og sleppa.“

Hvað hugsaðir þú þegar þetta var kynnt?

„Ég var hálf hræddur við þetta. Ég hugsaði með mér, Guð minn góður það verður ómögulegt að selja þetta. En við fórum af stað með þetta veganesti í Selá. Reynslan kemur hins vegar skemmtilega á óvart. Þetta er alls ekki neitt til að hræðast. Auðvitað kunna einhverjir að segja, þetta er ekki eitthvað fyrir mig. Það er bara allt í lagi. Við skiljum það. Það er það sama að þú hefur val um að kaupa vöru sem þér líkar eða líkar ekki. Við erum sannfærð. Algerlega sannfærð um að þessar reglur hafa gert dvöl okkar gesta ánægjulegri, og taktu eftir, ég er farinn að tala meira um gesti heldur en veiðimenn. Okkar gestir eru ánægðari en þeir voru áður fyrr þegar gömlu reglurnar voru við líði. Þessi hugmyndafræði sem ég nefndi áðan um magnveiði er víkjandi og við erum að upplifa, njóta og skemmta okkur. Við leggjum áherslu á hversu mikil forréttindi það eru að fá að vera þarna. Þetta er svo takmörkuð auðlind. Ef við skoðum það sem eftir er. Rússland er dottið út. Þeir sem hafa þennan áhuga. Hvert eiga þeir að fara? Það er ekki svo mikið eftir.

Reglurnar eru vissulega umdeildar. Ég skil það. Nú ætlum við að taka þessar sömu reglur upp í Hofsá næsta sumar. Nánast sömu reglur og auðvitað hefur það valdið pínu titringi. En þetta er það sem við vorum búin að segja og að við stefndum að. Okkur er uppálagt að gera þetta af stjórnendum félaganna og viðskiptavinir okkar hafa sýnt þessu mikinn skilning. Ég verð bara að segja það alveg eins og það er. Flestir okkar gesta skilja að þetta er sú leið sem rétt er að fara.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert