Sagan af tilurð Hairy Mary

Flugan Hairy Mary. Sérlega góð síðsumars fluga. Ein af þeim …
Flugan Hairy Mary. Sérlega góð síðsumars fluga. Ein af þeim sem stendur af sér alla tískustrauma. Ljósmynd/Veiðihornið

Ein af klassísku laxaflugunum er Hairy Mary. Fluga sem flestir veiðimenn eiga eða ættu að eiga. Á bak við margar flugur eru skemmtilegar sögur. Sumar flugur státa reyndar af mörgum sögum og skiptir ekki endilega máli hvaða saga er réttust. Fluga dagsins í jóladagatali Veiðihornsins, 24 flugur til jóla, er einmitt Hairy Mary.

Gömul ensk saga er oft tengd við tilurð Hairy Mary. Hvort að hún er sönn skiptir ekki öllu máli. Hún segir frá fyrirmenninu Sir Horace Winstrople og er hann sagður hafa hannað fluguna. Réttara væri kannski að segja að ábyrgð hans á hönnun hennar sé töluverð. Sir Horace hafði afskaplega gaman af því að veiða en aðrir hlutir áttu ekki síður athygli hans þegar hann var í veiðitúrum sínum. Karlinum þótti sopinn góður og var hann kvensamur að auki. Eitt árið gerðist það svo að hann fékk sér full mikið neðan í því og leiddi það til þess að hann fór óvarlega í samskiptum sínu við hina ungu hárprúðu Mary O´Brian sem bjó í þorpinu við ána sem karlinn veiddi. Mary var brúnhærð og með mikið og fallegt hár, svo eftir var tekið.

Næsta vor var Sir Horace mættur á nýjan leik til að eltast við fyrstu vorlaxana. Hin unga Mary var á sama tíma ólétt svo eftir var tekið. Leiðsögumaður Sir Horace var hinn útsjónasami Flanagan. Hann nefndi þetta við fyrirmennið á kurteislegan hátt með því að hafa orð á því hversu erfitt væri að horfa upp á aumingja Mary svona ólétta, blásnauða og enga leið til að sjá fyrir barninu. Sir Horace lét sér fátt um finnast og svaraði engu. Flanagan ákvað að láta ekki þar við sitja. Hann kom því svo fyrir að dregið var á með neti í uppáhalds veiðistað Sir Horace á hverjum morgni. Raunar var það gert við alla veiðistaði langt niður með ánni.

Tók nú algerlega fyrir alla veiði og Sir Horace sé ekki fisk næstu daga. Þetta fór mjög í skapið á veiðimanninum. Flanagan skyldi vel líðan Sir Horace og sagðist vera með nýja flugu sem hann ábyrgðist að myndi gefa honum lax innan þriggja daga. Í flugunni var efni sem ekki væri hægt að upplýsa um en Sir Horace yrði að samþykkja fyrirfram verðið á flugunni ef hún myndi reynast vel. Verðið var ekki gefið upp á þeim tímapunkti en Sir Horace féllst á skilmálana.

Samdægurs var netaveiðinni hætt. Daginn eftir gaf nýja flugan hvorki meira né minna en fjóra stórlaxa, alla nýgengna og silfurgljáandi. Veiðimaðurinn hafði svo sannarlega tekið gleði sína á nýjan leik. Flanagan leiðsögumaður minnti nú Sir Horace á samninginn. Ekki stóð á viðbrögðum hans og reiddi hann þegar fram eina gíneu sem var gjaldmiðill þess tíma. Flanagan hristi höfuðið og sagði honum að uppsett verð væri 500 hundruð gíneur. „Fimm hundruð,“ gall í Sir Horace, „Fyrir flugu? Ertu orðinn geðveikur Flanagan?“ Leiðsögumaðurinn leit á hann og sagði. „Þetta er engin venjuleg fluga. Þetta er Hairy Mary og það er sagt að hvorki fiskar né menn standist fegurð hennar. Það væri skynsamlegast fyrir alla málsaðila að þú greiddir uppsett verð, eins og samið var um í byrjun.“

Dagatal Veiðihornsins, sem færri fengu en vildu. 24 flugur til …
Dagatal Veiðihornsins, sem færri fengu en vildu. 24 flugur til jóla. Og svarið við stóru spurningunni er já. Jólasveinninn er til. Ljósmynd/Veiðihornið

Um Hairy Mary skrifar Veiðihornið.

Hönnuður: Er sagður vera John Reidpath .

Hairy Mary var hönnuð um miðja síðustu öld á Bretlandseyjum.  Hairy Mary er ein af þessum gömlu góðu flugum sem standa af sér allar tískuflugur sem koma og fara. Frábær fluga sem veiðir alltaf vel en er sérlega góð síðsumars fluga. Hairy Mary fer alltaf best að vera hnýtt á svarta tví- eða þríkrækju. Bjartir krókar fara þessari gjöfulu flugu illa.

Hér að neðan er uppskriftin að Hairy Mary:

Krókur - Ahrex HR490B.

Tvinni - Svartur UNI 8/0.

Broddur - Ávalt UNI gull tinsel.

Stél - Hausfjöður af gullfasana.

Vöf - Ávalt UNI gull tinsel.

Búkur - Svart UNI flos.

Skegg - Fanir af blálitaðri hanafjöður.

Vængur - Hár af brúnlituðu íkornaskotti.

Haus - Svartur.

Í uppskriftinni sem Veiðihornið birtir er allt innihald flugunnar birt. Vængurinn er brúnn íkorni. Hvað var svo notað í væng á upprunalegu flugunni er eitthvað sem aldrei verður staðfest.

Dagatalið 24 flugur til jóla sló svo sannarlega í gegn og seldist upp nánast á fyrsta degi. Ný útgáfa fyrir næstu jól er þegar í bígerð.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert