Uggandi yfir í sjúklega bjartsýni

Helga Kristín Tryggvadóttir býsna kát með lax úr Hofsá. Þennan …
Helga Kristín Tryggvadóttir býsna kát með lax úr Hofsá. Þennan fékk hún í Netahyl. Hún á von á góðu sumri og sérstaklega í Hofsá. Ljósmynd/Six Rivers

Það eru ekki nema níutíu dagar í að næsta stangveiðitímabil hefjist. Sporðaköst hafa gert upp veiðisumarið 2022, meðal annars með þremur þáttum sem voru sýndir fyrr í vetur. Nú horfum við til hækkandi sólar og nýs árs. Við fengum nokkra valinkunna veiðimenn til að horfa til framtíðar og deila með okkur væntingum og jafnvel spá um næsta sumar. Fyrst ríður á vaðið Helga Kristín Tryggvadóttir sölustjóri hjá Six Rivers Iceland sem rekur Vopnafjarðarárnar og fleiri á Norðausturlandi.

Hnúðlax verði í lágmarki

Ég kýs að vera ávallt bjartsýn og spái mjög góðu sumri. Mikið af tveggja ára fiski og ég hef sterka tilfinningu fyrir því að Hofsáin eigi eftir að vera sérstaklega góð í sumar. Það eru miklar væntingar fyrir Hafralónsánni, með breyttu fyrirkomulagi og leiðsögumannaskyldu. Þá grunar mig að hún eigi eftir að koma töluvert á óvart. Ég veit allavega fyrir víst að það eiga eftir að skapast mikið af góðum minningum næsta sumar, hvar á landinu sem fólk er að veiða og að umræðan verði heilt yfir jákvæð. Von mín er sú að hnúðlaxinn haldi sér í lágmarki og steli ekki senunni næsta sumar. Annars er ég viss um að fólk haldi almennt í gleðina, njóti augnabliksins og nái tengingunni við náttúruna sem skiptir öllu máli í veiðinni.“

Jón Gunnar Benjamínsson með stórbleikju úr Eyjafjarðará.
Jón Gunnar Benjamínsson með stórbleikju úr Eyjafjarðará. Mynd af www.veida.is

Uggandi yfir stöðunni

Næstur í röðinni er Jón Gunnar Benjamínsson sem meðal annars er öflugur í bleikjuveiðinni í Eyjafjarðará.

„Við „bleikjubændur“ erum auðvitað uggandi yfir stöðunni en bleikjunni virðist fækka ár frá ári. Ekki bætir úr skák sú rányrkja, leyfi ég mér að segja, sem stunduð er á Pollinum af trillukörlum bæjarins og það vel fyrir innan 250 metra lágmarks fjarlægðar frá ósum Eyjafjarðarár, sem lögin kveða á um. Þetta mun samt ekki verða látið óáreitt mikið lengur. Ef tekst að koma einhverjum böndum á trilluveiðar á bleikju á Pollinum er aldrei að vita hvað næstu 2 – 3 ár bera í skauti sér og ég ætla leyfa mér að vera vongóður um að bleikjan nái sér þá eitthvað á strik.“

Harpa Hlín Þórðardóttir með 93 sm hæng sem hún veiddi …
Harpa Hlín Þórðardóttir með 93 sm hæng sem hún veiddi í Urriðafossi í Þjórsá á opnunardegi í sumar. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

 

Ytri – Rangá fer í sex þúsund

Harpa Hlín Þórðardóttir hjá Iceland Outfitters var svo sannarlega jákvæð.

Ég er mjög bjartsýn fyrir laxveiðinni í Ytri – Rangá og Urriðafossi og hef enga ástæðu til annars. Það var mikið af smálaxi þar í sumar og má þá búast við slatta af stórlaxi næsta sumar. Ef ég á að skjóta á aflatölur (án ábyrgðar), segi ég 6.000 í Ytri og 1.000 í Urriðafossi. Gleðilegt nýtt veiðiár.“

Haraldur Eiríksson er ágætlega bjartsýnn fyrir komandi sumri. Hér er …
Haraldur Eiríksson er ágætlega bjartsýnn fyrir komandi sumri. Hér er hann með fallegan lax úr Hundastapa úr Stóru - Laxá frá því í sumar. Ljósmynd/HE

 

Húnavatnssýslur spurningamerkið

Haraldur Eiríksson er leigutaki Laxár í Kjós og Hítarár. Svona horfir hann til nýjar ársins, 2023.

Ég er nú ágætlega bjartsýnn á laxgengd komandi sumar.

Vesturlandið þarf að fá sína smálaxa sem er forsenda þess að veiðitölur séu góðar á því landsvæði. Hins vegar hafa undanfarin ár sýnt að þeim er ekki hægt að treysta, og það er af sem áður var að hægt var nánast að gera ráð fyrir stórum göngum upp úr Jónsmessu og fram yfir miðjan júlí.

Ef allt er eðlilegt á Vopnafjörðurinn að fá stórlax eftir góðar göngur smálaxa í sumar.

Í mínum huga er spurningamerkið Húnavatnssýslurnar, því þar vantaði smálax í sumar og horfur fyrir stórlaxaveiði næsta sumar kannski ekki góðar af því gefnu að enn sé til staðar tenging milli smálaxagengdar og stórlaxagengdar árið eftir. Þetta svæði hefur sýnt miklar og óútreiknanlegar sveiflur undanfarinn áratug, hvað sem veldur.

Ef maður gerist sjálfhverfur þá hafa undanfarin þrjú ár í Kjósinni verið í meðalveiði síðastliðinna áratuga, og vonandi höfum við náð jafnvægi á laxastofn og göngur. Markmiðið er að áin nái að fóstra sinn stofn sjálf, og sem dæmi lokuðum við ánni enn eitt haustið í því ástandi að hún var smekkfull af laxi. Mér telst til að þrátt fyrir víðan kvóta þá hafi sleppihlutfall verið vel yfir 80% í sumar sem leið, og er það að stærstum hluta gestum okkar að þakka. Þetta sýnir að ekki þarf að þvinga of þröngar veiðireglur ofan í fólk, heldur búa til þannig andrúmsloft að fólk vilji ganga vel um og sýna umhverfi og náttúrunni virðingu af sjálfsdáðum.“

Þorsteinn J. Vilhjálmsson með stórlax úr Vatnsdalsá.
Þorsteinn J. Vilhjálmsson með stórlax úr Vatnsdalsá. Einar Falur Ingólfsson

Sjúklega bjartsýnn

Við ljúkum þessum fyrri hluta með því að breyta til og fá einn bjartsýna. Þorsteinn J. Vilhjálmsson fjölmiðlamaður ætlar að gefa þann tón.

Ég skrúfa alltaf væntingarnar í botn fyrir komandi sumar, er sjúklega bjartsýnn einsog stjórnmálamaður á kosningavori. Gæði veiðinnar er aðalmálið, ekki endilega fjöldi fiska, heldur líka allt hitt; aðdragandinn að tökunni, flugan, hvernig hann tók eða tók ekki. Þannig er minnisstæðasti fiskur síðasta sumars falleg hrygna sem ég veiddi í Bjarnasteini í Vatnsdal. Ég landaði henni hratt og hún var svo snögg að synda í burtu, að ég náði ekki mynd, sem betur fer. Góðar minningar endast miklu betur en ljósmyndir.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert