Veiðimenn telja vetrarhörkur jákvæðar

Gæti orðið ár Suðurlands, segir Ásgeir. Þessi 97 sentímetra hængur …
Gæti orðið ár Suðurlands, segir Ásgeir. Þessi 97 sentímetra hængur veiddist í Vatnsá. Ljósmynd/Ásgeir Arnar

Hörku vetur eins og hefur verið á landinu síðasta mánuð leggst vel í veiðimenn. Bæði eykur það líkur á góðum vatnsbúskap á nýju veiðisumri og lagðar ár veita meira skjól fyrir seiði. Við höldum áfram með væntingar og vonir veiðimanna fyrir komandi sumar. Sumir jafnvel setja sig í völvu stellingar og er það áhugavert.

Gæti orðið ár Suðurlands

Ásgeir Arnar Ásmundsson leigutaki Skógár og umsjónarmaður með Vatnsá og Heiðarvatni ríður á vaðið.

„Árið 2023 gæti orðið ár sunnlenskra svæða ogSV hlutinn verður einnig góður. Það sem styður þetta helst er hve kalt var síðasta sumar um land allt og mögulega skiluðu sér ekki öll seiði til sjávar sem í venjulegu ári hefðu farið til sjávar. Norður og Austurlandið er því eitt stórt spurningamerki en að sama skapi held ég að árnar á Suðurlandi sýni mikil batamerki í stórlaxinum. Sogið, Stóra – laxá, Rangárnar og sérstaklega eystri ásamt einhverjum minni ám verða öflugar í byrjun með vel haldinn stórlax. Síðan kemur smá bið eftir smálaxinum en hann gæti orðið yfir meðaltali í fjölda þó meðalþyngdin gæti orðið undir. Oft hefur verið talað um fylgni með Bretlandi og okkur og jú það fer að opna þar þannig að við getum farið að láta okkur hlakka til, styttist í fyrstu rauntölur þar og þá nákvæmari spár.“

Ólafur Vigfússon er bjartsýnn fyrir næsta sumri, eins og alltaf. …
Ólafur Vigfússon er bjartsýnn fyrir næsta sumri, eins og alltaf. Hér er hann með Giant Trevally sem hann nefndi Scarface enda greinilega lent í ýmsu. Ljósmynd/Veiðihornið

Frostið veit á gott

Næstur er það Ólafur Vigfússon í Veiðihorninu. Hann talar um fiskana fimm. 

„Bleikjan
Nánast hrun hefur orðið í veiði bæði á staðbundinni bleikju og sjógenginni síðustu árin.  Líklega má skýra það með hlýnun síðustu árin.  Ég er ekki bjartsýnn á að sjá viðsnúning á næsta tímabili og stilli því væntingum í hóf.
En ef marka má breytt veðurfar líkt og við sáum síðasta sumar og þennan vetur erum við e.t.v. á leið inn í kuldaskeið.  Gangi það eftir mun bleikjan snúa til baka. Það ætla ég að vona því fátt er skemmtilegra en að lenda í góðri bleikjuveiði. 

Urriðinn
Ég hef góða tilfinningu fyrir staðbundnum urriða, einkanlega á hálendinu og í Laxá fyrir norðan.  Ef til vill þurfum við þó að halda væntingum í hófi þegar kemur að Þingvallavatni þar sem stóra fisknum fræga virðist vera að fækka tímabundið en ég kaupi skýringar þeirra sem best þekkja til, að við séum að sjá einhverskonar kynslóðaskipti þar.

Sjóbirtingurinn

Ég á von á því að sjóbirtingsveiði muni batna enn.  Mín skoðun er sú að veiða/sleppa fyrirkomulagið skili sér í aukinni veiði og stærri fiskum þegar kemur að sjóbirtingi en skili afskaplega litlu eitt og sér í laxveiði.

Breyttar veiðivenjur síðustu ára munu því skila betri sjóbirtingsveiði næsta vor og haust og það er sannarlega tilhlökkunarefni því fátt jafnast á við stórfenglegar sjóbirtingstökur. 

Atlantshafslaxinn
Nú frysti duglega um allt land vel fyrir jól sem er gott því frosin jörð geymir vatn sem vonandi endist langt fram eftir sumri hvort sem rignir eður ei.  Við ættum því að minnsta kosti að fá gott vatn í árnar sumarið 2023.  Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir laxveiðinni 2023.  En þess má geta að ég hef haft góða tilfinningu fyrir „næsta sumri“ í 40 ár.  Ég hef ekkert fyrir mér í þessu frekar en nokkur annar. Er bara með vonina og bjartsýnina í farteskinu.  Það er svo margt sem við getum gert og gerum í ánum sjálfum, það er svo margt sem við vitum um árnar og lífsferil laxins þar en stóri þátturinn, hafið geymir svo margar breytur sem eru okkur ókunnar. Næsta sumar verður gott. 

Kyrrahafslaxinn
Oddatöluárið mun skila dúndrandi veiði á þessum nýbúa ef að líkum lætur þó það gleðji  fæsta veiðimenn. 
Ég held við séum of vanmáttug til að snúa þessari þróun við og því munum við sjá meira af hnúðlaxi í ánum næstu árin.
Við skulum vera undir það búin og gera gott úr því.

Að þessu sögðu verður næsta sumar býsna gott eins og „næstu sumur“  hafa verið svo lengi sem elstu menn muna. Sumarið kemur þrátt fyrir allt og við förum öll á veiðislóð innan fárra vikna.

Njótum þeirra forréttinda sem við höfum: Að geta verið í góðum félagsskap okkar bestu vina úti í óspilltri íslenskri náttúru og veiða.

Gleðilegt og fengsælt nýtt veiðiár vinir.“

Alexander á sínum eftirlætis veiðislóðum, í Eldvatni. Þessi birtingur er …
Alexander á sínum eftirlætis veiðislóðum, í Eldvatni. Þessi birtingur er veiddur í Eyjarofi. Þrátt fyrir erfitt sumar 2022 er Alexander bjartsýnn fyrir nýju veiðitímabili. Ljósmynd/AS

Mun sprengja allar tölur

Alexander Stefánsson er einn af þessum veiðimönnum sem er með ólæknandi veiðiþrá. Hann veiðir mikið í Eldvatni og er á svipuðum nótum og flestir veiðimenn á þessum árstíma.

„Árið sem leið var ekki að gera sig fyrir mig í veiðinni, hvorki í laxi né sjóbirtingi. Þrátt fyrir vonleysið sem ríkti í síðustu veiðiferð sem átti það sameiginlegt með hinum ferðunum að gefa nánast engan fisk þá er ég orðinn fullur bjartsýnar um að næsta ár verði árið sem sprengir allar tölur.

Ég er sannfærður um að allur þessi snjór sem er kominn, sérstaklega á Suðurlandi muni hjálpa til við gott magn af vatni í ám. Það var klárlega það sem vantaði í minni uppáhalds á, Eldvatninu en það var lítill snjór í fyrra á því svæði og rigndi lítið allt árið. Það virtist ekki vanta Sjóbirtinginn í ána sem þýðir að mikið vatn mun klárlega hjálpa til við góða veiði. Varðandi heimtur á laxi þá hef ég ekki kunnáttu í að spá fyrir um slíkt en eins og alltaf hjá mér þá er bjartsýnin í botni þegar fyrstu tölur koma í hús, sama hversu góðar eða slæmar þær eru.“

Kristján Páll Rafnsson leigutaki og veiðimaður með fallegan birting sem …
Kristján Páll Rafnsson leigutaki og veiðimaður með fallegan birting sem veiddist í Tungufljóti. Ljósmynd/Aðsend

Þeir verða stórir í vor

Við erum áfram á Suðurlandi. Kristján Páll Rafnsson rekur Fish Partner sem leigir orðið mörg sjóbirtingssvæði.

„Ég hef mikla trú á að sjóbirtingsveiðin eigi eftir að verða skemmtileg fyrir austan í vor. Miklir og stórir fiskar liggja nú í vetrardvala í ánum og verður spennandi að sjá hversu stóra fiska menn eiga eftir að slíta upp í vor.
Svo er það urriðinn í þingvallavatni á sama tíma, menn hafa verið með ýmsar getgátur um stofninn undanfarið. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig það fer og hef fulla trú á að það verði margir höfðingjar í yfirstærðarflokki sem komi á land.
Í framhaldinu verður spennandi að sjá hvernig bleikjuveiðin í vatninu verður en veiðin í sunnanverðu vatninu var með besta móti í sumar en aftur á móti var veiðin í norðanverðu vatninu léleg. Það er annar stofn þar sem er kuðungableikja en sílableikjan er ráðandi að sunnanverðu.
Ég ætla ekki að spá lengra fram í tímann.“
Ólafur Tómas Guðbjartsson ætlar að reima á sig gönguskóna fyrir …
Ólafur Tómas Guðbjartsson ætlar að reima á sig gönguskóna fyrir komandi veiðitímabil og grjóthalda kjafti. Ljósmynd/Aðsend

Gönguskórnir teknir fram

Óli urriði eða Ólafur Tómas Guðbjartsson sér næsta tímabil svona:
„Fílingurinn fyrir tímabilinu 2023 er góður. Hann er það reyndar alltaf fyrir öll tímabil, verandi silungsveiðimaður. Vonandi að vorið verði bara gott og sumarið standi veðurfarslega lengur yfir en í 4 – 5 daga. Gjaldeyrisdýrkunin verður þó líklega til þess að ég þurfi að reima enn fastar á mig gönguskó og leita að nýjum svæðum sem ekki er enn búið að markaðssetja fyrir útlendinginn. Þeim fer fækkandi, en þá er bara að leita lengra og grjóthalda síðan kjafti um þau, eins og gert var í gamla daga. En árið 2023 verður frábært.“
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert