Skaut sextán tófur á einni nóttu

Birgir tók mynd af veiðinni þegar bjart var orðið. Hann …
Birgir tók mynd af veiðinni þegar bjart var orðið. Hann hefur skotið tófur á þessum slóðum í fjóra áratugi en ekki fyrr náð jafn mörgum dýrum á einni nóttu. Ljósmynd/Birgir Hauksson

Birgir Hauksson refaskytta skaut hvorki fleiri né færri en sextán tófur úr skothýsi sínu í Borgarfirði aðfaranótt sunnudags. Hann hefur stundað þetta svæði í hartnær fjóra áratugi en þetta er mesta veiði hans á einni nóttu fram að þessu.

Frá því milli jóla og nýárs hefur Birgir skotið yfir fjörutíu tófur en þetta var fyrsta ferðin í þetta skothús. Hann er ráðinn sem refaskytta, bæði af Borgarbyggð og Skorradalshreppi, þannig að hann fer víða um svæðið.

„Ég hefði sennilega náð enn fleirum ef ég hefði komið degi fyrr. Þá voru kjöraðstæður, töluverður vindur og lágrenningur. Nóttina sem ég veiddi var algert logn og frostið fór niður í tuttugu gráður. Þegar þannig háttar til er refurinn var um sig. Hann treystir náttúrlega fyrst og fremst á nefið og því næst heyrnina,“ upplýsti Birgir í samtali við Sporðaköst.

Hann segist þó nokkrum sinnum hafa náð tíu tófum á einni nóttu og rekur minni til þess að hafa einu sinni skotið þrettán dýr. En þetta sé það mesta á einni nóttu. „Mér finnst góð veiði ef maður nær fimm eða fleiri dýrum. Einu sinni hef ég skotið ellefu, einu sinni tólf og eina nóttina náði ég þrettán en nokkuð oft hafa legið átta til tíu.“

Birgir er með myndavélar við skothúsin og sér þegar tófan …
Birgir er með myndavélar við skothúsin og sér þegar tófan er farin að ganga í ætið. Þá er rétti tíminn til að fara. Hér má sjá þrjár tófur og þrjá ólíka liti. Ljósmynd/Birgir

Hann telur að flest af þessum dýrum hafi verið verið ung dýr sem hafi komið úr grenjum í fyrra. „Þau eru mest háð því að komast í svona. Gamlir rebbar komast betur af. Tíðin hefur náttúrlega verið erfið fyrir hana. Allt pikkfrosið og þá komast þær síður í agn.“

Birgir telur að hægt sé að stjórna refaveiðum mun betur en gert er. Sjálfur segist hann hafa ímugust á grenjavinnslu. Þar sé um að ræða miðaldaaðferðir sem séu í ætt við dýraníð. Hann segir alveg hægt að halda stofninum niðri með veiði á öðrum árstímum. 

Varstu ekki gjörsamlega að krókna við þessar aðstæður?

„Nei. Fjarri því. Ég er með rafmagn í skothúsinu og er því með fínan hita. Það var frekar að mér væri allt of heitt. En þetta var vissulega köld nótt og frostið fór í tuttugu gráður. Það var mikið sjónarspil að norðurljósunum og það var alveg logn.“

Er svona mikil fjölgun í tófustofninum?

„Það er kannski svipað og undanfarin ár en það hefur verið mikil fjölgun síðustu ár á þessu svæði.“ Birgir telur sig vita hvers vegna það sé. Hann segir að innarlega í Skorradal hafi menn dregið út hross í heilu og hálfu undanfarna vetur með það að markmiði að skjóta ref. Hann segir að veiðin hafi verið lítil sem engin á því svæði. „Þær hafa getað gengið í þetta allan veturinn og fram á vor og grenja sig svo í öllum mögulegum holum í skóginum. Töluvert af þeirri tófu sem ég hef verið að skjóta undanfarnar vikur kemur úr þessari fóðurstöð. Þetta er bein afleiðing af þessari framkvæmd sem er algerlega misheppnuð. Hreppsnefndin hefur reyndar bannað þetta formlega, að utanaðkomandi aðilar setji út hræ fyrir tófu. Ég held hins vegar að það hafi ekki verið tekið mark á því og enn sé verið að stunda þetta.“

Birgir í sínu náttúrulega umhverfi með glæsilegan hreindýrstarf.
Birgir í sínu náttúrulega umhverfi með glæsilegan hreindýrstarf. ljósmynd/Birgir

Birgir telur að rekja megi hluta af uppgangi tófunnar síðustu tvo áratugi til sambærilegra atvika og viðgengist hafi í Skorradalnum. Það sé ekkert einsdæmi. Menn hafi verið að setja út hræ til að stunda refaveiði en hafi svo ekki komist til að veiða þegar á reyndi eða ekki sinnt þessu sem skyldi. Þá sitji eftir að þetta séu bara fóðurstöðvar fyrir dýrin.

Hvaða áhrif hefur þessi mikli tófugangur á dýralíf á svæðinu?

Hann segir auðveldast að meta áhrifin þegar horft er til grágæsar. „Grágæsin er nánast horfin sem varpfugl á stórum svæðum í Borgarfirði, þar sem hún verpti áður. Þetta stafar fyrst og fremst af mun meiri tófu en áður. Eflaust hefur öðrum fuglum fækkað líka en það er mest áberandi þegar stór fugl eins og grágæs leggur niður varp og fer.“ Hann bendir líka á Skorradal og Andakílinn. „Við Skorradalsvatn urpu þetta tæplega hundrað pör þannig að fimm til sjö hundruð gæsir voru á vatninu á sumrin. Nú er hún alveg horfin og þannig hefur það verið í nokkur ár. Sama er að segja með Ramsar-friðsvæðið í Andakíl. Grágæsin verpti þar í töluvert stórum hópum áður en nú er hún horfin. Fyrir þrjátíu árum var yfirleitt ekki nema eitt tófugreni á þessu svæði og þá langoftast staðsett í Hestfjalli sem er miðsvæðis. Í dag eru þarna tófugreni um allt og þá helst í kjarrinu og einnig niður um allan Andakíl og alveg niður í Hvanneyrarland.“

Birgir notar bæði haglabyssu og Blaser-riffil, 6XC kalíber við veiðina.

Magnað augnablik frá 2020. Haförn hrekur refinn á brott frá …
Magnað augnablik frá 2020. Haförn hrekur refinn á brott frá ætinu. Skottið er svo sannarlega á milli lappanna á honum. Ljósmynd/Birgir

Hann er með myndavél í nágrenni skothúsanna þannig að hann sér býsna vel þegar rebbi er farinn að ganga í ætið. Með fylgir ein skemmtileg þegar haförn lenti skyndilega við ætið og rebba brá mjög í brún. Þarna var hvasst og sennilega hefur örninn lent honum að óvörum. Birgir kallar þessa mynd, hlaupið í burtu með skottið á milli lappanna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka