Draga saman seglin vegna verðhækkana

Oft hafa veiðimenn kvartað undan verði á laxveiðileyfum, en nú …
Oft hafa veiðimenn kvartað undan verði á laxveiðileyfum, en nú virðist þolmörkum náð og margir ætla að draga saman seglin þegar kemur að þeim silfraða. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Miklar verðhækkanir á laxveiðileyfum gera það að verkum að margir íslenskir veiðimenn ætla að minnka veiði í sumar og jafnvel yfirgefa holl sem þeir hafa verið í árum eða áratugum saman. Sporðköst gerðu óformlega könnun meðal dæmigerðra íslenskra veiðimanna. Spurningalisti var sendur á fimmtíu veiðimenn og horft til launamanna frekar en sterkefnaðra Íslendinga. Með úrtakinu var stefnt að því að fá fram stöðuna hjá launamanninum sem hefur yndi af því að veiða og leggur ýmislegt á sig til þess. 

Karlar voru í meirihluta og af fimmtíu sem fengu spurningarnar hafa 36 svarað. Myndin sem teiknast upp er skýr. Hinn klassíski veiðimaður er að kikna undan verðhækkunum ár eftir ár og það hækkunum langt umfram það sem verðbólga mælist.

Sporðaköst spurðu. Ætlar þú að veiða svipað marga daga í ár og í fyrra? Þeirri spurningu var svo fylgt eftir með spurningunni: Ef aukning eða samdráttur – hver er þá ástæðan?

Af 36 svörum ætla 17 að veiða færri daga en í fyrra og tíu segjast búast við því að veiða færri daga. Öll gefa upp ástæðuna að verðið hafi hækkað svo mikið að þau hafi ekki efni á þessu lengur. 

Átta svör hljóðuðu upp á að veiða svipað og í fyrra, jafnvel meira. Eitt svar hljóðaði upp á aukningu og svaraði viðkomandi því til; „Þetta er lífsstíll og ég bara verð.“

Það er rétt að taka fram að það er ekkert vísindalegt við þessa könnun, enda ekki hugsuð sem slík. Markmiðið var að fá fram stemninguna eða andrúmsloftið á markaðnum. Margir benda einnig á að þó svo að veiðileyfi hafi vissulega hækkað þá hafa einnig bæst við hækkanir á gistingu og fæði og þeim ám fjölgar þar sem skylda er að taka leiðsögumann. Þegar þetta allt er lagt saman eru margir sem neyðast til að draga saman seglin þegar kemur að laxveiðinni. Töluvert er um að veiðimenn ætli meira í silung en aðrir eru enn að bíta á jaxlinn og vonast til að kljúfa verðhækkanir. 

Veiðileyfasalar segja að þetta snúist um framboð og eftirspurn og flestar árnar eru sagðar nánast uppseldar. Samt er það svo að víða er hægt að fá veiðileyfi á góðum tíma í nokkrar af bestu ánum. Stund sannleikans er runnin upp. Greiðsluseðlar streyma nú til veiðimanna og þá kemur í ljós hvort bókanir standast. Sporðaköst hafa heyrt frá mörgum sem gengur erfiðlega að manna holl í ám, sem hafa undanfarin ár verið biðlistar að komast í.

Hér að neðan eru tilvitnanir frá nokkrum veiðimönnum sem sendu inn svör.

Sífellt fleiri reyna að finna veiðiáhuganum farveg með því að …
Sífellt fleiri reyna að finna veiðiáhuganum farveg með því að fara í silungsveiði. Svo eru hinir sem ætlað að bóka fleiri rástíma á golfvöllunum í sumar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég er alveg kominn að þolmörkum þessara hækkana, því mér finnst veiðimenn alltaf eiga að borga hærra verð og helst fá minna. Mínum dögum fækkar um fjórðung og fyrst og fremst vegna verðhækkana."

„Veiði líklega færri daga en í fyrra, samt ekki alveg komið í ljós. Samdrátturinn er einfaldlega vegna þess að ég hreinlega get ekki réttlætt það endalaust að borga alltaf endalausar hækkanir á leyfum. Þó ég gæti alveg klofið þessar hækkanir þá hreinlega leyfir samviska mín mér þetta ekki lengur.“

„Já. Ég ætla að veiða svipað marga daga og í fyrra. Jafnvel fleiri. Aukning er vegna aukinnar veiðidellu í fjölskyldunni. Mín veiðisvæði eru að hanga í verði miðað við verðbólgu,“ skrifar Húsvíkingur.

„Ég veiði minna og minna af laxi vegna verðs. Held að þetta hafi hækkað umfram verðbólgu.“

„Sem betur fer er ekki 30 - 50% verðbólga á Íslandi, en það er hækkanirnar sem ég er að sjá í mínum ám.“

„Stefnan er að veiða jafn marga daga a.m.k., en dreymi um að bæta við þar sem áhuginn er meiri en greiðslugetan Hins vegar er verið að færa mig um stað þar sem verðmiðinn í einstaka ár hefur farið langt fram úr því að vera boðlegt.“

Gamalreyndur veiðimaður skrifaði og sagðist neyðast til að fækka dögunum. Bætti svo við. „Þetta er ekki forsvaranlegt lengur. Að kaupa 3 daga í laxveiði á jaðartíma, kostar með öllu 700-800.000 krónur ef t.d. hjón fara saman. Víða er orðin krafa um að leiðsögumaður sé tekinn. Veiðitími er kominn niður í 8-10 tíma á dag í stað 12 tímanna. Fyrir 800.000 ferðu í 3 vikur á sólarströnd.“

„Nei. Ég ætla ekki að veiða jafn marga daga og í fyrra. Ástæðan, er verð á veiðileyfum sem virðist vera að hækka all svakalega í nokkrum ám sem ég hef verið með holl síðustu ár, fæði (sem hefur alltaf pirrað mig). Svo er verið að setja skyldu gæda á hverja stöng.“

„Nei. Því miður verður mikil breyting á því. Ástæðan er einföld. Hækkanir eru komnar út fyrir allt sem hægt er að telja eðlilegt. Er búinn að bóka 3 daga fyrir 2023. Það er ekki svo langt síðan að ég var með 20+ daga yfir sumarið.“

„Já. Sum hollin hafa hækkað verulega og 1 holl farið úr sjálfseldamennsku í fulla þjónustu og þess vegna hætti ég því og færi mig annað.“

Nú er víða komið að því að borga. Þá kemur …
Nú er víða komið að því að borga. Þá kemur betur í ljós hversu vel seldar hinu ýmsu laxveiðiár eru. Einar Falur Ingólfsson

 

Margir af þeim veiðimönnum sem svöruðu bættu því við að jafn margir dagar og í fyrra helguðust af því að þeir væru líka mikið í silungi og þar væru verð vissulega á uppleið en ekki í líkingu við það sem er að gerast laxamegin.

Veiðileyfamarkaðurinn á Íslandi, þegar kemur að laxveiði, skiptist gróflega í þrennt. Útlendingar sem gjarnan kaupa dýrasta tímann og þann sem á að vera bestur veiðilega séð. Í öðru lagi eru það fyrirtækjaholl, þar sem viðskiptavinum er boðið í veiði. Oft eru þessi holl einnig á góðum tíma. Í mörgum ám er jaðartíminn, Íslendingatíminn. Snemma og seint. Þá eru veiðileyfin ódýrari en raunar hafa þessir jaðartímar einnig farið hækkandi.

Niðurstaðan hvað varðar Íslendingatímann er að menn eru víða að draga saman seglin vegna verðhækkana. Margir horfa til þess að fara meira í silung en aðrir hafa fjárfest í golfsettum eða ætla að spila meira golf á komandi árum.

Hvað varðar hina hluta markaðarins, ætlum við að skoða þá á næstu dögum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka