Konum í skotveiði hefur fjölgað umtalsvert á síðari árum. Er það í takt við það sem er að gerast í stangveiðinni. Bára Einarsdóttir og veiðifélagi hennar Guðrún Hafberg voru í Eistlandi í janúar og skaut hópurinn bæði villisvín og rauðhirti. „Þetta kom bara upp með stuttum fyrirvara og eftir að hafa ekki komist í nokkur ár vegna Covid, þá gripum við tækifærið. Við höfum ekki komist síðastliðin tvö ár,“ upplýsir Bára í samtali við Sporðaköst.
Þær héldu sem leið lá út í eyjuna Hiiumaa, eða Dagey, úti fyrir strönd Eistlands. Hiiumaa er næststærsta eyjan við Eistland og þar er að finna bæinn Kardla þar sem búa 3.500 manns. Eyjan er þekkt sem vinsæll ferðamannastaður, og þá ekki síst að sumarlagi og er svæðið rómað fyrir ríkulega matarhefð.
Bára hefur áður skotið á Hiiumaa og var það í ársbyrjun 2020, og þá var Hildur Harðardóttir með í för. „Við fengum heimboð frá fólki sem við höfðum kynnst og þetta er eins og ein stór veiðifjölskylda og bara yndislegt að koma þarna. Við Íslendingar njótum mikillar virðingar í Eistlandi og þeir eru sko ekki búnir að gleyma því að við vorum fyrsta þjóðin til að viðurkenna sjálfstæði þeirra árið 1991,“ upplýsir hún.
Það var ekkert verið að tvínóna við hlutina. Þær komu til eyjarinnar að kvöldi fimmtudags og klukkan sex morguninn eftir var haldið út í skóg til að veiða. „Þetta var rekstrarveiði sem er mjög spennandi. Þegar liðið var á morgun var súpustopp og þá mætti súpubíllinn með kjarnmikla og frábæra súpu. Þeir gera þetta svo flott. Það er komið með súpu í stórum pottum og þeir nota alvöru leirtau. Ekkert plast eða einnota. Þetta er svo vel gert allt hjá þeim og til mikillar fyrirmyndar að maður hrífst með. Svo er boðið upp á kaffi og alls konar eftirrétti. Jafnvel marengstertur. Eftir súpuna var haldið áfram og skipt um veiðistað og dagurinn allur var ein samfelld keyrsla á veiðinni. Alveg fram í að tók að skyggja. Fjórum sinnum yfir daginn skiptum við um staði og með því er verið að tryggja að allir fái sem bestan möguleika á að komast í góða veiði. Svo er passað upp á allt. Ef einhver er slæmur í fæti eða á í vandræðum með að labba langt þá er fundinn staður sem hentar. Það er þetta sem ég elska við þetta. Virðingin er svo mikil fyrir öllu. Veiðimönnunum, náttúrunni og ekki síst dýrunum. Maður dettur þarna inn í alveg sérheim og það er svo magnað.“
Þær fóru út á fimmtudegi og veiddu í tvo heila daga. Leikurinn var endurtekinn á laugardegi og í lok dags var dýrunum safnað sama í klúbbhúsi sem er útbúið með fullkominni aðstöðu. Bára segir að allir fái að njóta af aflanum. Allir sem tóku þátt í veiðinni og þeir sem eiga sumarhús í nágrenninu og fjölskyldumeðlimir. „Þeir gjörnýta allt sem til fellur. Gera pylsur og saga og skera í steikur og svo er fullkomin frystiaðstaða þar. Í klúbbhúsinu er svo líka samveruaðstaða og þar er borðað um kvöldið, eftir helgarveiðina. Það eru mikil ræðuhöld og allir veiðimenn standa upp og gera grein fyrir sér og sinni veiði og sama gildir um þá sem koma í borðhaldið sem gestir.“
Eftir matinn fara allir saman í sánu, en hér hlær Bára og segir að íslensku konurnar hafi ávallt sleppt þeim þætti. „Við kunnum ekki við það að fara allsberar í gufu með fullt af fólki. Það er ekki í okkar menningu.“
Sunnudagur er svo heimferðardagur.
Bára segist nota kalíber 30,06 þegar hún er í veiðinni i Eistlandi en tekur fram að hún hafi ekki ferðast með eigin vopn þegar hún fór til Hiiumaa. Þar er hægt að ganga að góðum rifflum og því þarf ekki að standa í skrifræði með tollvörðum á ferðalaginu.
Hver er spennan í þessu þegar þú ert komin á veiðistað og allt er klárt?
„Um leið og þú heyrir eitthvert hljóð í skóginum fer adrenalínið af stað. Það eru dýr á ferðinni og þú heyrir andardrátt, fótatak, greinar brotna og þetta er eiginlega bara ólýsanlegt. Við erum ekki alltaf með leiðsögumann en ef við biðjum um það þá er það sjálfsagt. Í rekstrarveiðinni er ekki alltaf leiðsögumaður með hverjum veiðimanni en þegar við förum gangandi út í skóg að leita að dýrum, eða erum í turnveiðum, þá erum við með leiðsögumenn. En ég hef alveg farið ein út í skóg að leita að dýrum. Í eitt skiptið man ég eftir að birta var farin að falla og ég var ein á ferð. Allt í einu tók ég eftir fótspori eftir bjarndýr. Ég nota skó númer 39 en farið eftir hann var mun stærra. Sporið var nýlegt og þá kom pínu öðruvísi adrenalín,“ brosir Bára.
Stífar reglur gilda um veiðarnar. Í janúar er til að mynda bannað að skjóta gyltur á villisvínaveiðum, þar sem þær eru á þessum tíma „óléttar“, ef nota má það orð. Geltirnir og yngri svín eru hins vegar án kvóta enda er tilgangurinn með veiðinni að tryggja að stofn dýranna sé ekki of stór og raski ekki því jafnvægi sem ríkir í skógum á Hiiumaa.
Er villisvín góður matur?
„Já. Þetta er svolítið gróft kjöt en þeir elda þetta gjarnan við lágan hita í langan tíma. Kjötið er lungamjúkt og mjög bragðgott þegar það er borið fram. Meðlætið er svo gulrætur og kartöflur og fleira grænmeti. Svo er allt nýtt þannig að morgunmaturinn daginn eftir var steiktar kartöflur og kjöt frá deginum áður og þá setja þeir egg út á og þetta er mjög ljúffengt. Við erum í veislu þarna frá því að við komum og þar til við förum. Þetta er gert í svo mikilli einlægni fyrir alla þátttakendur að það er ekki hægt annað en að hrífast af þessu.“
Bára er alvön skotvopnum og hefur æft skotfimi í Skotíþróttafélagi Kópavogs í fjölmörg ár og er margfaldur Íslandsmeistari, síðast 2021. Bára keppir undir merkjum Skotíþróttafélags Ísafjarðar. Hún byrjaði hins vegar ekki að stunda skotveiði með rifflum fyrr en hún kynntist Hörpu Hlín Þórðardóttur og Maríu Önnu Clausen í Veiðihorninu. „Ég held að þær hafi farið út árið 2015 til Eistlands og þegar þær komu svo í æfingaaðstöðuna okkar í Kópavogi kynntist ég þeim og þær segja mér af þessu og ég bara kolféll fyrir þeim og þeirra frásögn. Ég fór svo út með þeim næsta ár og einmitt til Eistlands.“
Bára er sennilega eins góð skytta og þær gerast. Íslandsmeistaratitlarnir hennar eru í loftskammbyssu, riffli í liggjandi stöðu á fimmtíu metrum og í þrístöðu með riffli. Slíkum frama í skotíþróttum fylgir að umgengni um skotvopnin er eins og best gerist og þá ekki síst þegar kemur að veiðinni. „Við leggjum mikið upp úr því að fara vandlega yfir öll öryggisatriði og almenna umgengni með þeim konum sem fara út með okkur til að veiða. Það hefur líka skilað sér í að þeir sem stjórna veiðinni í Eistlandi og þangað sem við höfum farið eru mjög ánægðir með okkur. Það hefur ekkert vesen fylgt okkar konum. Allar reglur og öryggi upp á tíu.“
Bára rifjar upp skemmtilegt atvik þegar hún fór í fyrstu veiðiferðina sína árið 2016. Þá var henni til halds og trausts ungur leiðsögumaður og hann vissi að hún var að koma í fyrsta skipti. „Maðurinn þekkti mig ekki neitt og ég var að vissulega að byrja í riffilskotveiði en hafði stundað fuglaveiðar hér heima. Leiðsögumaðurinn taldi mig byrjanda og það var eðlilegt. Svo leggjum við af stað og eftir að hafa labbað einhverja fimm eða sex kílómetra set ég út höndina og gef honum merki um að stoppa. Ég tók upp riffilinn og skaut þrjú rádýr á nokkrum sekúndum. Þegar ég sný mér svo við þá sé ég hann standa með báðar hendur á lofti og hugsaði með mér. Ó, nei. Ætli ég hafi bara mátt skjóta eitt? Veiðigræðgin í mér var svo mikil að ég skaut þau bara öll. Ég spurði hann svo. Fyrirgefðu. Er eitthvað að? Hann svaraði: „Nei. Ég hef bara aldrei séð þetta gert áður. Aldrei.“ Hann hélt að hann væri með byrjanda sem væri að taka sín fyrstu skot og vissi ekkert að ég væri búin að æfa skotfimi.“ Hér hlæjum við bæði.
Bára segir félagsskapinn stórt atriði í þessu. Hún veiðir ekki bara með þessum konum, þær æfa líka saman skotfimi og hún segir þetta frábæran kjarna. Harpa Hlín, María Anna, Guðrún Hafberg, Elísabet Ólafsdóttir, Hildur Harðardóttur og Elsa Blöndal Sigfúsdóttir mynda kjarnahópinn hennar. Svo eru þær líka í stangveiðinni og ljóst að veiði á þessi misserin hug hennar allan.
Hún kom heim frá Eistlandi 16. janúar og segist hafa verið byrjuð að skipuleggja næstu ferð daginn eftir. „Ég ætla aftur út að skjóta í september og svei mér þá ef ég fer ekki jafnvel líka í sumar,“ segir Bára og nýr saman höndum.
Frá 2016 hefur hún farið á hverju ári sem hefur verið „fært“ vegna Covid. Leiðin hefur fyrst og fremst legið til Eistlands, þar sem hún kann mjög vel við allt skipulag og viðmót. Skotland heimsótti hún einu sinni og veiddi þá rádýr og kastaði fyrir lax. Það var í maí 2019. En Eistland hefur verið nánast hennar heimavöllur og þar skaut hún fyrsta elginn, þá stödd syðst í landinu. Það var árið 2018. „Þetta var í rekstrarveiði og ég heyrði löngu áður en ég sá hann að stórt dýr var á leiðinni til mín. Hljóðin eru minnisstæð. Hann baulaði sínu sérkennilega bauli og fnæsti og braut greinar og rakst utan í tré og maður heyrði að hann var að nálgast. Svo gerist þetta á núll-einni og adrenalínið er á fullu. Maður fer í einhverja dáleiðslu og ég skaut hann frístandandi.“
Bára hefur alla tíð, frá því að hún man eftir sér, verið með veiðibakteríuna. Byrjaði með stöng ung að árum en hún áttar sig ekki á hvaðan hún hefur þetta. „Þetta hefur bara einhvern veginn loðað við mig. Búin að vera svolítið í sjóstönginni og verið að skjóta fugla frá því að ég tók byssuleyfið. Það voru engir miklir veiðiáhugamenn í kringum mig í uppeldinu þannig að ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Hins vegar er yngri strákurinn minn forfallinn veiðiáhugamaður. Maðurinn minn skilur þetta líka þannig að ég er í mikilli sátt með minn veiðiskap. Ég er alveg þekkt fyrir að vera dellukona og taka hlutina svolítið með trompi. Er frekar nýbyrjuð í fluguveiði en búin að skipuleggja marga túra í sumar og svo ætla ég út að veiða á stöng á næsta ári.“
En það eru dökkar hliðar á þessu sporti sem er líf og yndi Báru. „Ég hef fengið ófáar morðhótanir vegna myndbirtinga. Ég hef hins vegar ákveðið að taka það ekki inn á mig.“
Hvernig hótanir hefurðu fengið?
„Bara hreinar og klárar morðhótanir. Til dæmis manneskja sem ég kannast við án þess að hún þekki mig sendi mér hótun um að hún ætlaði að drepa mig fyrir að vera að fella dýr. Sagði að ég þyrfti að kíkja í kringum mig þegar ég færi út úr húsinu heima hjá mér. Ég hef líka fengið hótanir frá fólki sem ég þekki ekki neitt. Ég man þegar birtist mynd af okkur stelpunum í Morgunblaðinu þegar við vorum að fara í fyrstu ferðina, 2016. Þá fengum við morðhótanir og á þeirri mynd vorum við bara í veiðigöllum og með byssur. Engir dauðir fuglar eða dýr. En ég hef tekið þann pól í hæðina að grafast ekki frekar fyrir um þetta og vil helst ekki veita þessu athygli því það getur ýtt frekar undir þetta.“
Rétt er að taka fram að Bára vildi nefna þessa skuggahlið án þess að gera hana að aðalatriði. Þess vegna kemur þetta til tals síðast í þessu viðtali. Fyrirsögn á borð við: Ítrekaðar morðhótanir eftir Eistlandsferð hefði vakið mun meiri athygli og sjálfsagt orðið til að skapa mikið umtal. Það er hins vegar niðurstaða okkar Báru í þessu viðtali að veita ekki heiftúðugu fólki of mikla athygli, en engu að síður eru hótanir af þessu tagi kæranlegar til lögreglu og ekki síst þegar þær eru settar fram undir nafni og því auðvelt fyrir lögreglu að rannsaka slík mál.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |