Krókódíll og ljón til sýnis á Stokkseyri

Páll Reynisson safnstjóri Veiðisafnsins með krókódílinn sem nú er staddur …
Páll Reynisson safnstjóri Veiðisafnsins með krókódílinn sem nú er staddur á Stokkseyri, uppstoppaður. Þennan skaut hann í Suður - Afríku. Ljósmynd/Veiðisafnið

Einn af vorboðum veiðiáhugafólks er Byssusýning Veiðisafnsins á Stokkseyri. Sýning er að þessu sinni haldin um helgina, dagana 18. og 19. mars. Sýningin er að vanda fjölbreytt og mikið úrval uppstoppaðra dýra gerir hana að veislu fyrir augað.

Páll Reynisson er safnstjóri og upphafsmaður þessa alls. Formlega opnaði safnið 8. maí árið 2004 og á því tuttugu ára afmæli á næsta ári. Sýningar af þessum toga hafa verið haldnar flest árin frá stofnun safnsins.

Veiðisafnið heldur sína árlegu byssusýningu um helgina. Safnið er hið …
Veiðisafnið heldur sína árlegu byssusýningu um helgina. Safnið er hið glæsilegasta og hlaðið framandi munum. Ljósmynd/Veiðisafnið

Sýningin í ár verður í samvinnu við Veiðihornið í Síðumúla og SKOTGRUND – Skotfélag Snæfellsnes. Páll safnstjóri hefur lagt sig eftir því að bjóða skotfélögum á landsbyggðinni að taka þátt og kynna starfsemi sína og sögu. Þannig hafa félögin Markviss á Blönduósi og Ósmann á Sauðárkróki, svo einhver séu nefnd, en í ár það SKOTGRUND sem er samstarfsaðilinn.

Mikil saga er sögð á Veiðisafninu á Stokkseyri og er hún samtvinnuð iðnsögu Íslands og búháttum á síðustu öld. Páll safnstjóri hefur lagt sig eftir því að rekja sögu þeirra sem smíðuðu byssur á Íslandi. Þannig hefur Páll náð að kortleggja og finna allar byssur sem Jón Björnsson frá Dalvík smíðaði. Þær eru 120 talsins haglabyssurnar sem hann smíðaði. Hann kallaði þær Drífu og voru allar 12 gauge. Langur biðlisti var eftir byssum frá Jóni þegar hann lést árið 1993.

Sömuleiðis er rakin saga byssusmíða Jóns Þorsteinssonar frá Ólafsfirði sem smíðaði fjölmargar byssur og allt upp í 4 gauge en þær voru mikið notaðar til selveiða.

Fjölmargar byssur eru til sýnis og margar úr einkasöfnum eins …
Fjölmargar byssur eru til sýnis og margar úr einkasöfnum eins og þessar sem voru í eigu Sigurðar Ásgeirssonar eða Sigga tófu. Ljósmynd/Veiðisafnið

Fjölmörg uppstoppuð dýr er að finna meðal sýningarmuna og meðal annars eru þar ljón, sebrahestur, strútur og krókódíll í fullri stærð og segir Páll að það komi oft sýningagestum á óvart hver hin raunverulega stærð þessara dýra er.

Fjölmargir hafa lagt safninu til góða hluti í gegnum tíðina og segir Páll það afar mikilvægt að njóta velvildar veiðiáhugafólks. Þannig er honum einkar hlýtt til gjafa sem hafa borist frá gömlu reynsluboltunum. Hann nefnir Sigurfinn Jónsson frá Sauðárkróki sérstaklega en hann gaf forláta hluti til safnsins árið 2016.

Það er óhætt að mæla með sýningunni fyrir börn, ekki síður en fullorðna þar sem dýrin vekja verðskuldaðan áhuga og fræðsla um veiði á ekki að vera feimnismál. Sem dæmi má nefna að endurgerður frampartur af stórum nashyrningi prýðir safnið. Sá nashyrningum var skotinn af Páli sjálfum á sínum tíma. „Þetta var björgunarveiði. Ég skaut hann með deyfipílu. Hornið var svo sagað af honum og öll mál tekin. Þetta er gert til að forða dýrunum frá veiðiþjófum sem skjóta nashyrningana og hirða bara hornið og selja það á svörtum markaði. Þessi nashyrningur er eflaust enn að borða gras í Afríku þó að hornið vanti,“ upplýsir Páll í samtali við Sporðaköst.

Safnstjórinn er hvergi hættur að veiða þó að sé kominn á sjötugsaldur. „Ég sótti um hreindýr en fékk ekki núna. Það er í sjálfu sér í lagi því ég fer austur og passa bílinn fyrir Ragnar Örn Birgisson veiðimann og með okkur verður Björn Ingvarsson leiðsögumaður. Það er mikilvægt starf að passa bílinn,“ hlær Páll.

Sigurfinnur Jónsson (Finni) og Páll Reynisson, safnstjóri Veiðisafnsins, við gjöfina …
Sigurfinnur Jónsson (Finni) og Páll Reynisson, safnstjóri Veiðisafnsins, við gjöfina sem Finni færði safninu. Ljósmynd/mbl.is

Í fréttatilkynningu frá Veiðisafninu í tilefni sýningarinnar sem opnar á morgun segir;

„Ólafur og félagar í VEIÐIHORNINU sýna úrval skotvopna og búnað til skotveiða ásamt sjónaukum og aukabúnaði, til sýnis og sölu. Kynntir verða rifflar frá Remington, Howa og Benelli, haglabyssur frá Fair, Remington, Stoeger, Benelli og Franchi, einnig sjónaukar frá Leoupold, Crimson Trace og Nikko Stirling ásamt hljóðdeyfum frá Stalon, endurhleðsluvörum frá Barnes, Remington, Frankford, Alliant og fl.

Félagsmenn úr SKOTGRUND - Skotfélag Snæfellsnes verða með fjölbreitt úrval skotvopna til sýnis ásamt kynningu á starfsemi skotfélagsins. Kennir þar margra grasa og verður úrval skotvopna verður til sýnis, haglabyssur, rifflar, skammbyssur, herrifflar ásamt ýmsu tengdu skotveiðum m.a úr einkasöfnum.

Einnig verða til sýnis skotvopn og munir frá Veiðisafninu og einkaaðilum, má þar nefna skotvopn frá Sigurði Ásgeirssyni, Einari frá Þverá, Sveini Einarssyni fyrrverandi veiðistjóra, Sigmari B. Haukssyni, Braga frá Þverá og Drífu-haglabyssur frá Jóni Björnssyni heitnum frá Dalvík og byssur smíðaðar af Jóni Þorsteinsyni frá Ólafsfirði svo eitthvað sé nefnt."

Sem fyrr segir verður sýningin haldin laugardaginn 18. og sunnudaginn 19. mars og er opin frá klukkan 11 – 18 í húsakynnum Veiðisafnsins, Eyrarbraut 49 Stokkseyri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert