„Við vegum salt á bjargbrúninni“

Veðrátta hefur spilað stórt hlutverk í vorveiðinni á Bretlandseyjum. Hér …
Veðrátta hefur spilað stórt hlutverk í vorveiðinni á Bretlandseyjum. Hér er Árni Baldursson að kasta fyrir lax í Dee í Skotlandi. Hann náði fyrsta laxinum eftir tvær og hálfa viku. Ljósmynd/Árni Baldursson

Nú ber svo við að hin lifandi goðsögn í alþjóðlega veiðiheiminum, Árni Baldursson velur ódýrari kost fyrir sína óstjórnlegu veiðiþörf, en Ísland. Hann ætlar fyrst og fremst að veiða í Noregi og í Skotlandi. Hann viðurkennir að kostnaðurinn spili þar stórt hlutverk. „Ef ég ætla að kaupa þau veiðileyfi sem ég þarf kostar það mig tugi milljóna á sumri á Íslandi,“ segir Árni. Hann hefur stórar áhyggjur af því að veiðileyfamarkaðurinn stefni í hrun. „Við erum komin fram á bjargbrúnina og vegum salt þar."

Árni er nú að ljúka þriggja vikna vorveiðitúr um Bretlandseyjar. Fyrstu vikuna veiddi hann hina þekktuDee í Skotlandi og þar mætti honum alvöru íslenskur vetur. Niður í átta gráðu frost á nóttinni og snjókoma og áin mjög vatnslítil. Árni núllaði þar. Sá ekki fisk. Næstu viku tók hann á Írlandi íCareysville í ánniBlackWater sem er eitt af bestu svæðunum í ánni. „Það hafði ekki rignt á Írlandi allan febrúar. Um leið og ég lenti fór að rigna og það var bara skýfall dögum saman. Áin fór í mikinn vöxt og var óveiðanleg allan þennan tíma. Ég kastaði ekki eitt kast. Sat bara á bakkanum og horfði á óveiðandi stórfljótið í sjö daga. Þetta snýst svo mikið um heppni. Í fyrra fékk þetta sama holl 35 laxa."

Svona leit Dee út í byrjun mánaðarins þegar Árni og …
Svona leit Dee út í byrjun mánaðarins þegar Árni og félagar veiddu þar. Þeir sáu ekki fisk alla vikuna. Frost fór niður í átta gráður og snjóaði af og til. Ljósmynd/Árni Baldursson

Eftir að hafa rignt niður á Írlandi lá leið Árna aftur í Dee og hann er staddur þar. „Jú. Ég fékk fisk strax á mánudaginn. Fyrsta springerinn eða vorlax. Hann var ekki stór en pattaralegur og fínn og lúsugur. Svo setti ég í einn stóran bara fljótlega á eftir og missti hann eftir nokkra baráttu. Svo kom skellur. Það fór að rigna hressilega en útlitið núna fyrir næstu daga er ágætt og maður gæti átt hérna góða næstu daga. Þá vonandi nær maður sér upp aftur. Þetta eru miklar þjáningar og svo koma smá gluggar á milli," hlær Árni.

Hann segir að menn sem fari í vorveiðina á þessu svæðum verði að vera meðvitaðir um það að þetta sé ótrúlegt happdrætti. Hann hefur stundað vorveiði í Dee árum sama og lent í því að fá ekki fisk og það oftar en einu sinni. Besta vikan gaf hins vegar 22 laxa eitt árið.

„Maður er náttúrulega að fara mjög snemma af stað og stundum er maður heppinn og stundum óheppinn. Þetta er búin að vera þrautaganga þetta árið. Ég hitti í gær einn best veiðimanninn hér á svæðinu og hann er búinn að veiða samfellt í sautján daga og hefur ekki fengið högg. Ég held að í ár fari saman erfiðar aðstæður og lítið af fiski. En fyrir mig persónulega er þetta líka miklu meira en bara veiðin. Maður er að hitta svo mikið af fólki og góða vini og stemmingin er algerlega frábær. Ég er líka svo fljótur að jafna mig í þessum aðstæðum. Maður kemur heim bugaður að kvöldi en sprettur upp eins og fjöður morguninn eftir. Maður veit að þetta getur gerst bara allt í einu. Hins vegar er það þannig að þetta er erfiðasta ferðin í þessa vorveiði í þrjá áratugi. Það er alveg búið að rassskella mig.“

Þriggja vikna vorveiðiferð er ekki bara til að njóta lífsins. …
Þriggja vikna vorveiðiferð er ekki bara til að njóta lífsins. Árni er líka að hitta viðskiptavini. Ljósmynd/Árni Baldursson

Það breytir ekki þeirri stöðu að Árni mun halda áfram að fara til Skotlands á vorin. „Hvergi í heiminum geturðu veitt nýgenginn lax á þessum tíma, nema á Írlandi og Skotlandi og þetta eru forréttindi að fá að gera þetta.“

Árni áréttar, svo öllu sé til haga haldið að þriggja vikna ferð til Skotlands á þessum tíma er líka viðskiptalegs eðlis. Þar hittir hann mikið því fólki sem hann er að selja veiðileyfi víða um heim. „Ég er ekki bara að leika mér, en þetta er skemmtileg vinna,“ segir Árni og kætin leynir sér ekki.

Hvað tók hann hjá þér fyrsti vorlaxinn?

Árni hlær. „Það var German Snælda. Svo missti ég annan bara strax á eftir og það er það eina sem hefur gerst hjá mér í tvær og hálfa viku. Nú á ég þrjá daga eftir og þarf að halda vel á spilunum. Samt geng ég alveg keikur til leiks á hverjum morgni.“

Er það rétt að þú ætlir ekki að veiða neitt á Íslandi í sumar?

„Já. Ég verð mest í Noregi í sumar og ætla að veiða þar í þekktustu ánum þeirra. Fer í Gaula,Stjördal, Styr, Lærdal og jafnvel íVefsna. Ég ákvað að ég ætlaði að vera einn og hálfan mánuð í Noregi og sett einn póst áFacebook og bað um hjálp við að komast í bestu árnar. Það voru heldur betur viðbrögð. Eftir viku var ég búinn að skipuleggja einn og hálfan mánuð í flottustu ánum þeirra á besta tíma.“

Black Water á Írlandi. Svona leit hún út þegar Árni …
Black Water á Írlandi. Svona leit hún út þegar Árni mætti á svæðið. Hann horfði á hana breytast í stórfljót á fyrsta degi og kastaði aldrei fyrir fisk. Hún var einfaldlega óveiðandi. Ljósmynd/Árni Baldursson

En hvernig á að túlka það þegar þú ætlar ekki að veiða heima á Íslandi?

„Það myndi kosta mig tugi milljóna að eyða sumrinu heima. Ég er þannig gerður að ég þarf að veiða á hverjum einasta degi. Ef ég er að veiða heima fyrir hundrað til tvö hundruð og fimmtíu þúsund á dag þá er það fljótt að verða alvöru upphæðir. Fæði og gisting heima er jafnvel fimmtíu þúsund á dag. Ég er núna á dýrasta svæðinu í Dee og þeir hafa verið að lækka verðið. Fyrir nokkrum árum kostaði dagurinn hér 360 pund en þeir hafa verið að lækka þetta ár frá ári. Nú kostar dagurinn 135 pund með leiðsögumanni. Fyrir fullt fæði og gistingu á sveitahóteli er ég að borga sautján til tuttugu þúsund fyrir sólarhringinn. Fer svolítið eftir því hvað ég borða.

Sama er uppi á teningnum þegar kemur að Noregi. Það er reyndar dýrara en í Skotlandi því að ég er að reyna að komast á góð svæði, en þetta kostar bara brot af því sem þetta myndi kosta heima.“

Leiðsögumaður Árna heldur hér á fyrsta laxinum sem Árni landaði …
Leiðsögumaður Árna heldur hér á fyrsta laxinum sem Árni landaði í Dee á þýska Snældu. Fljótlega missti hann svo stórlax en annað hefur ekki gerst í ferðinni. Nú er útlitið betra. Ljósmynd/Árni Baldursson

135 pund eru um 23 þúsund íslenskar krónur. En auðvitað eru þetta vorveiðileyfi og mun ódýrari en á besta tíma yfir sumarið. Það breytir því ekki að þessi verðlækkun í gegnum árin tekur mið af minnkandi veiði. Óvíst er að vor veiðileyfi í sjóbirting á Íslandi fást fyrir þetta verð.

Erum við að lenda í vitleysu með verðlagið hérna á Íslandi í veiðinni?

„Ég er með skrítna tilfinningu fyrir þessu. Ég fæ alveg kuldabólur þegar ég hugsa um hvað það er orðið dýrt að veiða lax heima á Íslandi. Ef þú ert ástríðufullur veiðimaður og vilt veiða mikið þá gengur þetta ekki orðið upp. Ég get svo sem ekki verið að gagnrýna þetta og veit fullvel að landeigendur vilja fá sem allra mest fyrir sín gæði. En mér finnst við vera komin fram á bjargbrúnina og hreinlega vega salt þar.“

Maður heyrir þessa umræðu hjá flestum veiðimönnum.

„Já. Þetta er orðið helvíti dýrt og allt í kringum þetta. Við erum svo sem ekki að bjóða upp á neitt meira en einn lax á stöng á dag í besta falli. Svo eru menn kannski að borga milljón fyrir þriggja daga veiðiferð á besta tíma. Veiðin er vissulega minni í Noregi og þar telstu heppinn ef þú færð einn lax á dag og jafnvel minna. En við erum að tala um fimmtán til þrjátíu plús punda laxa þannig að það heldur manni vel við efnið. Ég er á góðu svæði í ánniGaulu í sumar þar sem þú getur vænst þess að fá fjóra risalaxa á viku. Þar er ég að borga tíu þúsund norskar krónur eða í kringum 140 þúsund íslenskar fyrir vikuna. Svo borgum við annað eins fyrir leigu á huggulegu veiðihúsi þar sem við eldum sjálfir. Við erum tveir þannig að við skiptum þeim kostnaði á milli okkar. Þannig að sá viku veiðitúr kostar hvorn okkar um 210 þúsund fyrir vikuna.“

Með vinum, félögum og viðskiptavinum. Árni notar tækifærið og hittir …
Með vinum, félögum og viðskiptavinum. Árni notar tækifærið og hittir sitt fólk í þessum veiðiferðum til Skotlands síðla vetrar eða snemma vors. Ljósmynd/Árni Baldursson

Árni segir að þetta svæði sem hann er að tala um í Gaula sé vissulega erfitt og hafa þurfi fyrir hlutunum en vonin um mjög stóra laxa er góð. Hann veiddi þetta svæði í fyrra og fékk á fyrsta hálftímanum lax sem reyndist hvorki meira né minna en 37 pund. Hann var búinn að landa honum eftir fyrsta klukkutímann.

„Já. Ég verð mest erlendis í sumar. Í ágúst verður það svo Labrador og Kanada og enda svo sumarið fram október í Skotlandi."

Við eigum eftir að sakna þín hér.

„Já. Ég veit það. Afi verður ekkert að veiða heima í ár. Það fer voða vel um mann hérna til dæmis í Skotlandi. Verðin ekki eru þannig að þú þurfir að spretta upp á morgnana og veiða til tíu um kvöldið. Þú ert bara við ána og veiðir þegar þú nennir og ef þú ert latur þá þarftu ekki að veiða. Peningarnir eru ekki sú kvöð að þú verðir stöðugt að vera að eða setji mann á hausinn.“

Rétt er að taka fram í lokin að fyrirkomulag veiða í Skotlandi er með töluvert öðrum hætti en á Íslandi. Þar selja margir landeigendur fyrir sínu landi og stangafjöldi oft á tíðum mun meiri en á Íslandi, þar sem ár eru einungis með örfáar stangir miðað við það sem þekkist í flestum öðrum löndum. Rétt er að taka þetta inn í jöfnuna þegar verð eru borin saman. Það er hins vegar athyglisvert að sjá að verðið hefur lækkað þetta mikið á svæðinu sem Árni er að veiða í Dee. Sú verðlagning er eins og áður segir til komin vegna minnkandi veiði. Verðlagning á laxveiði á Íslandi hefur ekki tekið mið af minnkandi veiði undanfarin ár.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert