Mögnuð veiðiferð í frumskóga Kólumbíu

Þrír íslenskir veiðimenn köstuðu fyrir Peacock Bass djúpt inni í frumskógum Kólumbíu á meðan að svæsnasta kuldakastið gekk yfir Ísland, í byrjun mars. Veiðistaðurinn var áin Mataven nálægt landamærunum við Venesúela. Svæðið er mjög afskekkt og ferðamenn eru varaðir við að ferðast um þessar slóðir. Gunnar Baldur Norðdahl, Tommi Za og Tomasz Mróz settu það ekki fyrir sig og bókuðu sig í ferð með ferðaskrifstofunni Where Wise Men Fish. Tíu veiðimenn voru í ferðinni og það frá ýmsum löndum.

Með allt í keng á Matavenánni. Þarna er Gunnar að …
Með allt í keng á Matavenánni. Þarna er Gunnar að slást við 22 punda Peacock Bass sem er sannkallaður risafiskur. Ljósmynd/Gunnar Norðdahl

Myndbandið sem fylgir með fréttinni er unnið af Justin Stuart sem á og rekur Where Wise Men Fish. Myndbandið er úr ferð þeirra félaga, Tommanna og Gunnars. Fyrir þá sem vilja meiri upplýsingar um ferðir sem þessa má smella hér. 

Flogið var til London og þaðan beint til Bogota höfuðborgar Kólumbíu. Ferðalagið til að komast á veiðisvæðið endaði svo á sex klukkutíma bátsferð inn í frumskóginn þar sem tjaldbúðir biðu þeirra félaga í Austurhluta landsins.

Svo lentu menn líka í moki. Hér eru Tommi og …
Svo lentu menn líka í moki. Hér eru Tommi og Tomasz með nokkra í smærri kantinum. Ljósmynd/Tommi Za

„Maður sér að mörg sendiráð merkja þetta svæði rauðum lit, þannig að það á að vera varasamt. Það eina hættulega sem ég lenti í á öllu ferðalaginu var þegar ég kom til baka í Leifsstöð. Ég mundi ekki hvar ég hafði lagt bílnum og var lengi að finna hann. Þá mátti engi muna að ég yrði hreinlega úti vegna kulda,“ hlær Gunnar í samtali við Sporðaköst.

Hann segir að þetta hafi allt gengið eins og í sögu og þeir bara mætt yndislegu viðmóti heimamanna. „Við gistum eina nóttina í litum bæ þar sem búa um fimm þúsund manns. Þetta var inni í frumskóginum áður en við fórum í bátsferðina og við fórum þarna út að borða og skoðuðum mannlífið og við ekkert nema góð samskipti við heimamenn. Í mínum huga er þetta svipað og ef ameríska sendiráðið lýsti því yfir að fólk ætti alls ekki að fara í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi til.“

Tommi þurfti að kafa eftir þessum fiski. Hann náði að …
Tommi þurfti að kafa eftir þessum fiski. Hann náði að kafa undir trjágrein og þá voru góð ráð dýr. Missa hann eða fara á eftir honum. Tommi valdi seinni kostinn og náði honum. Ljósmynd/Tommi Za

Markmiðið var að veiða Peacock Bass en áin geymir margar tegundir og þær allar framandi íslenskum veiðimönnum. „Já. Maður veit aldrei hvað maður fær í næsta kasti í frumskóginum.“

Svæðið er veitt með einhendum fyrir línu átta til tíu. Bæði er veitt í yfirborðinu á flotlínur og einnig er mikið um að notaðar séu sökklínur eða sökktaumar. „Minni fiskarnir halda sig meira í námunda við yfirborðið nálægt landi og eru þar að fela sig undir greinum. Stærri fiskurinn liggur oft dýpra og helgar sér svæði. Þeir þurfa ekki að hræðast neitt nema kannski flugur frá veiðimönnum.“

Tomasz Mroz með gullfallegt eintak af Peacock Bass.
Tomasz Mroz með gullfallegt eintak af Peacock Bass. Ljósmynd/Tommi Za

Hvað telst vera góður Peacock Bass?

„Það er í kringum tuttugu pundin. Þetta er ekki ósvipað og með laxinn okkar. Fiskurinn er á bilinu þrjú pund og upp tuttugu og eitthvað pund. Þetta eru ótrúlega sterkir fiskar en maður spilar þá ekki á hjólinu. Þú bara verður að halda þeim. Maður má ekki leyfa þeim að fara og koma eins og við gerum með laxinn. Ef hann fer af stað frá þér þá er næsta víst að hann fer undir greinar og þú missir hann. Þú verður bara að negla hann og heldur svo línunni. Þarna notuðum við sextíu punda taum og heimamenn mæla ekki með neinu öðru. Enda þú slítur ekkert auðveldlega ef þú festir fluguna til dæmis í trjádrumbi.“ Gunnar segir að það hafi verið magnað að fylgjast með indíánunum sem voru leiðsögumenn hjá þeim. Ef fluga slitnaði í botni settu þeir á sig sundgleraugu og köfuðu eftir henni. Það var ekkert skilið eftir. Sama átti við ef fluga festist í trjágreinum þá klifruðu þeir eftir þeim. Þær voru alltaf sóttar.

„Við skildum ekkert eftir sem minnti á manninn. Flugurnar eru úr gerviefnum og þær voru alltaf sóttar. Við skyldum við þetta eins og áður en við komum og við gátum ekki séð nein merki um mannaferðir þar sem við vorum. Svæðið er í eigu heimamanna og fimm ættbálkar eiga land að svæðinu og hafa af því atvinnu að taka á móti veiðimönnum í tvo til þrjá mánuði á ári. Minnsti ættbálkurinn er ekki nema 27 manns og þau búa í frumskóginum án rafmagns eða nokkurs sem við köllum þægindi. Þau lifa bara á frumskóginum. Heimamenn stjórnuðu bátunum, enda eru það þeir sem rata um svæðið og þekkja það. Svo sáu þeir líka um okkur í tjaldbúðunum."

Í fullum herklæðum. Augnablikið þegar Tommi strekkir í honum.
Í fullum herklæðum. Augnablikið þegar Tommi strekkir í honum. Ljósmynd/Tommi Za

Hvernig gekk að gera sig skiljanlegan?

„Heimamenn tala enga ensku en með okkur voru tveir leiðsögumenn sem vinna fyrir félagið og þeir tala ensku og spænsku og voru túlkar. Auðvitað er svo alltaf hægt að bjarga sér með allt og það gekk ótrúlega vel. En það eru ekki margir sem við hittum í Kólumbíu sem töluðu ensku. Við bara bentum og svo var hlegið og þetta komst einhvern veginn til skila.“

En stóra spurningin fyrir marga. Hvað með allar pöddurnar?

„Það er nóg af þeim. Þess vegna erum við svona klæddir. Sokkarnir fara utan yfir síðbuxurnar. Við vorum í síðerma peysum með hettu og hanska og húfu og buff. Maður þarf að verja sig því annars áttu á hættu að vera étinn.“

Hvernig kvikindi eru þetta?

„Þetta eru ekkert hættulegar flugur. Ekki moskítóflugur eða þess háttar. Það er eitthvað með vatnið á svæðinu að moskítóflugan er ekki þarna. Þetta eru bara svipaðar flugur og eru uppi á Arnarvatnsheiði. Sama draslið sýndist mér. Þær stinga og þig klæjar.“

Stærsti fiskurinn í ferðinni. 22 punda sleggja. Gunnar Norðdahl var …
Stærsti fiskurinn í ferðinni. 22 punda sleggja. Gunnar Norðdahl var kampakátur með þennan. Ljósmynd/Gunnar Norðdahl

Amazon og þéttir frumskógar geyma mikið af smádýrum sem hinn norræni maður þekkir ekki og jafnvel hræðist. En á ánni sjálfri segir Gunnar að það hafi fyrst og fremst verið mýið eða slíkar flugur sem þurfti að klæða af sér. Vissulega komust þeir félagar í kynni við önnur og meira framandi dýr. Einn ferðafélaginn var til dæmis stunginn af sporðdreka og það í brjóstið. „Hann varð svolítið skelkaður en svo var þetta allt í lagi. Hann var aðeins með marblett eftir þetta en alveg jafn góður fljótlega eftir að hann jafnaði sig.“

Hópurinn sem var víða að úr heiminum gerði heilt yfir góða veiði. Okkar maður Gunnar Norðdahl varð þeirrar ánægju aðnjótandi að setja í og landa 22 punda Peacock Bass og var það stærsti fiskurinn sem veiddist. 

Frumskógaveiðar og hvers kyns ævintýraferðir fyrir veiðimenn eru að verða vinsælli. Þessar ferðir eru síst dýrari en að kasta fyrir lax í íslenskum veiðiám. Segja má að áhuginn meðal veiðimanna og þá alls ekki einskorðað við Ísland, hafi vaxið á veiði af þessu tagi. Það gerist á sama tíma og laxveiði hefur farið þverrandi í Skotlandi og í Noregi. Rússlandi lokað og Ísland orðið í verðflokki sem færri og færri ráða við.

„Fyrir okkur var þessi þrettán daga ferð að kosta rúma fimm þúsund dollara. Það er í kringum sjö hundruð þúsund krónur. Þá er eftir flugið til Kólumbíu. En eftir að þangað er komið er allt innifalið. Öll ferðalög og matur og slíkt í búðunum. Í kringum okkar hóp voru að vinna þrjátíu til fjörutíu manns. Flugið frá Íslandi og til Bogota kostaði um hundrað og fimmtíu þúsund. Þetta er mun ódýrara en að fara til Afríku að veiða því þar bætist við safarí gjald og þær ferðir eru að kosta um tíu þúsund dollara.“

Gunnar var ekki að fara sinn fyrsta frumskógartúr. Hann hefur áður veitt í Amason, þá Brasilíu megin að veiða Arapaima sem er einn af stærstu fiskum sem lifa í fersku vatni. „Það var fínt að byrja á þeirri ferð. Þetta var mun frumstæðara og afskekktara og ég fíla svona aðstæður í botn. Ég veit ekkert skemmtilegra en að vakna upp hálf fimm um morguninn og það er anaconda fyrir framan tjaldið hjá manni. Ég ræð mér ekki fyrir kæti þegar ég svo svona dýr. Þetta er til í alvörunni og ekki bara í þáttunum hjá David Attenborough. Ég fer alveg varlega en ég er ekki hræddur við það sem þú þarft ekki að óttast.“

Tjöldin sem þeir gistu í djúpt inni í frumskógi Kólumbíu, …
Tjöldin sem þeir gistu í djúpt inni í frumskógi Kólumbíu, skammt frá landamærunum við Venesúela. Ljósmynd/Gunnar Norðdahl

Ætlarðu fleiri svona veiðiferðir?

„Ég er byrjaður að skipuleggja næstu ferð. Það er alveg pottþétt. Þetta er eins og með aðra veiðitúra. Þetta er ferðalagið, veiðin, félagsskapurinn og náttúran. En það er ágætt að nefna það að frumskógaveiði er ekki endilega mokveiði. Margir halda að þegar þeir fara til útlanda þá séu þeir að fara í mokveiði. Það er misskilningur. Þetta er örugglega eins með útlendinga sem er að koma til Íslands. Halda að þeir séu að fara að moka upp laxi. Ástæðan fyrir því að veiði er svona vinsæl er að hún er alltaf svo erfið. Alltaf. Ef þetta væri auðvelt og bara mok þá væri ekkert varið í þetta. Eins í ferðinni okkar núna það var erfitt að ná þessum stóru fiskum og það liðu alveg dagar án þess að við settum í slíka. Maður lenti alveg í því að koma í tjaldbúðirnar búinn að missa allt sjálfstraust og ég fæ örugglega aldrei fisk. Svo fer dagurinn á augabragði úr því að vera ömurlegasti dagur lífs þíns í að verða stórkostlegur. Það gerist bara á broti úr sekúndu að allt breytist. Það eru þessar geðsveiflur sem gera okkur að veiðimönnum. Eða það finnst mér,“ hlær Gunnar.

Hann var með hausverk á meðan þeir dvöldu í höfuðborginni Bogota og fékk blóðnasir. Hann var ekki að skilja þetta fyrr en eftir á. Borgin stendur í tvö þúsund og sex hundruð metra hæð yfir sjávarmáli. „Ég bý og starfa á Suðurlandi og er ekki vanur því að vera í þessari hæð.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert