Tíu stórir regnbogasilungar hafa veiðst á fyrstu dögum veiðitímabilsins í Minnivallalæk. Lækurinn er þekktur fyrir fallega urriða sem oft á tíðum hafa verið ógnarstórir. Það sem flestir veiðimenn héldu að væri aprílgabb, þegar veiðimenn birtu af sér myndir með regnbogasilunga, er bara alls ekkert gabb.
Veiðiþjónustan Strengir er með Minnivallalæk á leigu og þar ræður ríkjum Þröstur Elliðason. „Ég hélt að þetta væri aprílgabb þegar ég frétti þetta og allir héldu það. En ég var fyrir austan og var að skoða þessa fiska. Það er búið að landa tíu svona fiskum og þetta eru flottir fiskar. Samt líkari sjógengnum regnboga sem er þekktur sem steelhead. En ég er að fara með sýni á Hafrannsóknastofnun til að rannsaka þetta,“ sagði Þröstur í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.
Hann birti myndband á Facebook af regnboga sem var drepinn og þar sást greinilega að allir uggar voru í fínu ásigkomulagi og ljóst að þessi fiskur sem hann var að skoða hefur ekki verið nýlega í eldi. Sama er að segja með litinn á kjötinu en það er ljóst og virtist fiskurinn vel haldinn og fallegur. Þröstur opnaði eina hrygnu og var hún stútfull af hrognum, en nú styttist einmitt í hrygningu hjá sjógengnum regnboga á hans heimaslóðum. „Þeir eru oftast að hrygna í maí skilst mér,“ sagði Þröstur.
Fyrstu fiskunum var sleppt, en sleppiskylda er á urriða í Minnivallalæk. Eftir að Þröstur frétti af þessu lét hann drepa fiska til að geta rannsakað þá.
En viltu ekki bara hafa þá í ánni? Fyrsta steelhead-áin á Íslandi. Er það ekki eitthvað?
„Nei. ég veit ekki hvaða áhrif þetta hefur og við verðum að vita hvaðan þetta kemur. Þess vegna er ég að fara með þessi sýni í Hafrannsóknastofnun. Vonandi geta þeir fundið eitthvað út úr þessu. Ef þetta hefði verið úr eldi þá ættu uggarnir að vera skemmdir. Þetta eru stórir og flottir fiskar, sextíu til sjötíu sentímetrar.“
Fyrsta sem margir hugsa er hvort eitthvað sé laust hjá þér?
Þröstur skellir upp úr. „Þetta eru svaka viðureignir. Brjálaðir fiskar á einhendu og stökkva og djöflast.“
Hvenær veiddist síðast, ef einhvern tíma, regnbogi í læknum?
„Ég þarf að kíkja á veiðibækurnar hvort það hafi gerst einhvern tíma. En mér finnst ólíklegt að þetta geti verið úr eldisstöðinni.“
Eldisstöðin Fellsmúli er á bökkum Minnivallalækjar og þar voru ræktaðir regnbogar en Þröstur segir að það hafi ekki verið undanfarin fjögur ár og miklar varnir voru í stöðinni og frárennsli hennar þannig að ekki væri mögulegt að bakteríur, hvað þá seiði, skiluðu sér í ána.
En gætu þetta ekki einmitt verið fiskar sem eru eldri en fjögurra ára?
„Þessir fiskar eru nokkurra ára gamlir. Það leynir sér ekki. En þá veltir maður fyrir sér hvar hafa þeir verið í æti og hvaðan koma þeir?“ spyr Þröstur.
Flestir regnbogarnir hafa veiðst í Stöðvarhyl sem er eins og nafnið bendir til hylurinn við eldisstöðina. Einn fékkst þó töluvert neðar eða í veiðistað sem heitir Dráttarhólshylur.
Hvað voru þessir fiskar að taka?
„Þeir voru að taka Dýrbít og fleiri straumflugur og eitthvað líka púpur. Þetta eru tökuglaðir fiskar og mun tökuglaðari en urriðinn á þessum tíma.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |