„Ég sakna Íslands og kem aftur í sumar“

Marina Gibson tekst á við fyrsta lax ársins úr bát …
Marina Gibson tekst á við fyrsta lax ársins úr bát á ánni Tweed. Fiskurinn tók fluguna Posh Tosh og reyndist vera fullkomið eintak. Ljósmynd/Marina Gibson

Vorveiðin á laxi á Bretlandseyjum er að glæðast. Ef marka má fjölda mynda sem birtast á samfélagsmiðlum er víða góður gangur. Marina Gibson er einn af þeim veiðimönnum sem hafa gert sig gildandi á samfélagsmiðlum þegar kemur að veiði. Hún er íslensku veiðiáhugafólki að góðu kunn. Marina og móðir hennar Joanna voru gestir í Sporðakastaþætti sem sýndur var á Stöð 2 vorið 2020. Þar veiddu þær mæðgur Miðfjarðará með viðkomu í Víðidalsá. Hér að neðan má sjá brot úr þættinum, þar sem Marina kastar fyrir lax í Túnhyl í Vesturá í Miðfirði og nýtur aðstoðar Rafns Alfreðssonar. Enn neðar er svo annað myndskeið úr sama þætti þar sem Marina mætir í Svarthamar í Austurá í Miðfirði.

Marina er búin að landa sínum fyrsta laxi árið 2023. Það gerði hún um mánaðamótin þegar hún átti dag í ánni Tweed á landamærum Skotlands og Englands. „Ég var að veiða Upper North Wark svæðið sem er þriggja stanga svæði og mjög gott á vorin þegar er frekar mikið vatn. Svæðið hefur ekki gefið mikið síðustu tvö ár vegna þess hversu lítið vatn var. En nú hafa skilyrðin verið góð og veiðin hefur farið mun betur af stað en síðustu tvö ár,“ sagði Marina í samtali við Sporðaköst.

Upper North Wark er á neðsta hluta Tweed en áin og liggur á löngum köflum á landamærum landanna tveggja. Enda þýðir orðið Tweed landamæri á gelísku.

Veitt er tvær til þrjár stangir á svæðinu eftir aðstæðum. Nú var eins og fyrr segir gott vatn og þá er svæðinu skipt í þrennt. Tvær stangir veiða af bátum og ein úr landi. Marina var að veiða af bát með hinum unga Jamie leiðsögumanni, en hann er aðeins átján ára og frekar nýlega byrjaður að leiðsegja veiðimönnum. „Þetta var fullkomið. Við vorum að veiða okkur niður svæðið og vorum að spjalla í rólegheitum. Þegar fiskurinn tók var ég nýbúin að snúa mér við til að tala við Jamie og sneri baki í stöngina. Þá fékk ég þetta hæga tog. Þetta var mjög róleg taka og ég lyfti ekki stönginni strax.

Silfurbjartur, stór og gallalaus. Vorlax eins og þeir gerast bestir. …
Silfurbjartur, stór og gallalaus. Vorlax eins og þeir gerast bestir. Marina fékk þennan í ánni Tweed. Gæti verið í kringum 17 pund. Ekki staðfest þó. Ljósmynd/Marina

Ég var hissa og spurði Jamie hvort þeir væru enn að veiða niðurgöngulaxa. Hann sagði að þeir ættu allir að vera farnir. Svo lyfti ég stönginni rólega og þá var eins laxinn vaknaði. Hann tók þessa líka miklu roku og við sáum á honum sporðinn. Jamie kallaði upp. „Sástu þennan sporð“ með sínum skoska hreim. Og já ég hafði séð hann. Eftir tíu mínútur náðum við honum í háfinn og vá hvað þetta var flottur fiskur.“ Marina segir að lax sé sinn uppáhalds fiskur og að byrja tímabilið svona snemma var alveg frábært. Flugan sem Marina fékk laxinn á var Posh Tosh sem er afbrigði af flugunni Tosh sem sagt er að hafi verið hönnuð á sínum tíma af Iain Wilson fyrir einmitt ána Tweed. Afbrigðið sem Marina notaði var meira út í grænt í staðinn fyrir gult. 

 „Ég var rosalega ánægð með þetta. Þetta er fyrsti laxinn minn á Posh Tosh og mig hefur alltaf langað til að fá fisk á þessa flugu.“

Orðið Posh vitnar til yfirstéttar eða frægra. Marina er einmitt kominn í þann flokk á samfélagmiðlum, þar sem hún hefur ferðast síðustu ár um allan heima og veitt hinar ólíklegustu og framandi tegundir. Allt frá frumskógum til sjávareyja hinu megin á hnettinum. „Gaman að þú nefnir það því framsetning á efni á samfélagsmiðlum er bara mjög lítill hluti af vinnunni minni. Ég er í fullu starfi við að kenna veiðimönnum og í leiðsögn. Samfélagsmiðlahlutinn er í raun bara ég að deila því sem ég geri í mínu lífi. Ég er ekki að reyna að verða áhrifavaldur eða eitthvað slíkt en ég elska að ferðast og veiða.“

Uppáhald Marinu er laxveiði. Það er fiskurinn sem hún myndi vilja veiða alla daga. „Ég sakna Íslands og langar að koma þangað oftar og veiða meira. Ég er reyndar að koma í sumar og verð svona auka leiðsögumaður í viku í Eystri – Rangá. Ég er mjög spennt fyrir því og það er mun auðveldara að vera leiðsögumaður í þar sem er lax, heldur en að aðstoða veiðimenn í á þar sem er ekki lax, eða allavega mjög lítið af honum,“ hlær Marina og vísar þar til nokkurra svæða í Englandi.

Með stoltum leiðsögumanni sem er að stíga sín fyrstu skref …
Með stoltum leiðsögumanni sem er að stíga sín fyrstu skref á Tweed. Marina saknar Íslands en gleðst yfir því að vera að koma í sumar. Ljósmynd/Marina

En aftur að laxinum í Tweed. Eins og myndirnar bera með sér er þetta ótrúlega fallegt eintak af tveggja ára laxi. En hvað var hann stór?

„Já þetta var svo fallegur fiskur. Hann var eiginlega fullkominn. Við ætluðum að vigta hann í háfnum en sú vigt var biluð. Ég hef ekki viljað giska á þyngdina en hef borið hann saman við lax sem ég veiddi í Eystri – Rangá og var sautján pund. En þegar maður hefur ekki nákvæma tölu þá er maður ekki að giska á stærð eða þyngd á samfélagsmiðlum. Það er bara ávísun á rifrildi," segir hún. En viðurkennir að fiskurinn er líklegast eitthvað nálægt þeirri stærð.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert