Lausn fyrir Grenlæk byggir á samvinnu

Grenlækur, eða öllu heldur farvegurinn. Lækurinn er nú þurr á …
Grenlækur, eða öllu heldur farvegurinn. Lækurinn er nú þurr á um ellefu kílómetra löngum kafla. Umhverfisstofnun segir að þörf sé á samvinnu stofnanna til að finna lausn fyrir Grenlæk. Ljósmynd/Maros Zatko

„Svæðið er ekki friðlýst en það hefur verið metið að það hafi náttúruverndargildi og er á náttúruminjaskrá. Það er ekki eiginleg umsjón með svæðinu þannig að við grípum til aðgerða. Við þurfum að hafa samvinnu við aðrar stofnanir í málinu,“ upplýsti Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar þegar Sporðaköst leituðu eftir viðbrögðum UST vegna ástandsins í Grenlæk, sem fjallað hefur verið um.

Sigrún segir söguna um Grenlæk langa og samráð verði haft við Vegagerðina, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og fleiri sem málið varðar. „Hafrannsóknastofnun hefur lagt til í sinni greinaferð að gripið verði til aðgerða og það sem okkur sýnist er að hafa þurfi nokkuð víðtæka samvinnu um það."

En þetta er ekki þannig að þið stökkvið til og ráðist í aðgerðir þannig að því verði bjargað sem hægt er?

„Nei. Það þarf að ígrunda svona aðgerðir og við erum í samráði við aðrar stofnanir um það. Þegar er um að ræða friðlýst svæði horfir málið öðruvísi við. Við erum með náttúruverndarsvæði annars vegar og friðlýst svæði hins vegar.“

Sigrún segir engan vafa leika á því að Grenlækur og svæðið sé merkilegt og þörf sé á að veita því umhyggju en að sama skapi þurfi að ígrunda aðgerðir vel, verði ráðist í þær. „Það verður ekki stokkið til af hálfu Umhverfisstofnunar og gripið til skyndiaðgerða.“

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar við opnun vefsíðunnar strandhreinsun.is í fyrra. …
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar við opnun vefsíðunnar strandhreinsun.is í fyrra. Hún segir Grenlæk á náttúruminjaskrá en svæðið er ekki friðlýst. mbl.is/Hákon

Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun hefur kallað eftir því að þeir sem málið varðar taki ábyrgð á sinnuleysi í málefnum Grenlækjar. Ætlið þið að gera það?

„Við erum í samstarfi við aðrar stofnanir um málið og sinnuleysi er ekki við hæfi, auðvitað. Þess vegna þurfa stofnanir að leggja saman krafta sína til að veita þessu athygli og meta hvaða aðgerðir eru við hæfi.“

Á vef Umhverfisstofnunar er Grenlækur númer 704 á náttúruminjaskrá undir Suðurlandi og flokkað sem aðrar náttúruminjar. Þar segir: „704. Grenlækur, Skaftárhreppi, V-Skaftafellssýslu. (1) Grenlækur ásamt Tröllshyl, Arnardrangshólma og Stararflóði milli Grenlækjaróss og Þykkvabæjar. (2) Víðáttumikil flæðiengi, tjarnir, lindir og lækir. Auðugt og óvenjulegt lífríki, mikið fuglalíf.“

Vatnaáætlun var samþykkt árið 2022 og undirrituð af ráðherra umhverfis–, orku– og loftslagsmála, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Í inngangi áætlunarinnar er taldir upp sex áherslupunktar um að hreint vatn sé mikilvægt til að: Fyrsti punkturinn hljóðar svo. „Viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegu ástandi vistkerfa ferskvatns og strandsjávar.“

Þegar lög um náttúruvernd eru skoðuð má sjá í þriðja kafla laganna, 13. grein. Þar segir í fyrstu málsgrein að ráðherra fari með yfirstjórn náttúruverndarmála. Í annarri málsgrein segir svo:

„Umhverfisstofnun fer m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna, veitir leyfi og umsagnir samkvæmt ákvæðum laganna, annast umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða, ber ábyrgð á gerð [stjórnunar- og verndaráætlana] 1) fyrir friðlýst svæði, sinnir fræðslu og veitir ráðherra ráðgjöf um náttúruverndarmál. Þá annast stofnunin undirbúning friðlýsinga, metur nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun og sér um kynningu tillögu að endurskoðaðri náttúruminjaskrá og úrvinnslu umsagna vegna hennar.“

Það hefur mikið verið fundað um málefni Grenlækjar í gegnum tíðina og mest skömmu eftir að þurrkar hafa orðið og tjón blasir við. Þessi fundahöld hafa fram til þessa ekki leyst málið. Nú talar UST fyrir samvinnu stofnana um að finna leið til að bæta ástandið. Hvernig það samstarf verður til og hvað það mun leiða af sér kemur í ljós síðar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert