Plantað í tilraunareit Gömlu Gróðrarstöðvarinnar við Akureyri 1908-1909. Tilgangurinn var að fá úr því skorið hvort trjáplöntur gætu vaxið sæmilega í óvöldu landi án nokkurrar umhirðu.
Plantað í tilraunareit Gömlu Gróðrarstöðvarinnar við Akureyri 1908-1909. Tilgangurinn var að fá úr því skorið hvort trjáplöntur gætu vaxið sæmilega í óvöldu landi án nokkurrar umhirðu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hallgrímur Indriðason telur að skort hafi á samræmt skipulag milli útivistarskóga og þéttbýlis. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við hann um skógrækt á útivistarsvæðum og lýðheilsu.

Upphafsmenn skógræktarinnar þeir Ryder og Prytz ætluðu með skógræktinni um aldamótin 1900 að stuðla að ræktun eldiviðarskóga. Hugmyndir voru uppi um að koma upp skógarreitum við sem flest býli á landsbyggðinni til að leysa eldiviðarskortinn og draga úr notkun sauðataðs. Hins vegar má segja að frá árinu 1907 og fram undir 1950 hafi skógræktin fyrst og fremst verið varnarstarf gegn eyðingu skóga og uppblæstri lands," segir Hallgrímur Indriðason skipulagsráðunautur Skógræktar ríkisins.

Voru þá strax gerðar tilraunir?

"Já. Þá fóru fram veigamiklar tilraunir og prófanir á tegundum og kvæmum sem síðar urðu undirstaða framfara og árangurs í skógrækt. Skipulagt tilraunastarf í skógrækt hófst svo síðar í Gróðrarstöðinni við Akureyri hjá Ræktunarfélagi Norðurlands sem var stofnað árið 1903.

Tilgangurinn var að fá úr því skorið hvort trjáplöntur gætu vaxið og dafnað sæmilega í óvöldu landi án nokkurrar umhirðu, fyrr en að því kæmi að þyrfti að grisja.

Fyrstu skógræktarfélögin voru stofnuð um og eftir 1930 og varð skógrækt þar með orðin áhugamál almennings sem stefndi að því að klæða landið skógi.

Það var ekki fyrr en um 1965 að skógræktaráætlun um nytjaskóga á bújörðum er fyrst sett fram, svokölluð Fljótsdalsáætlun, en meginmarkmið með henni var að framleiða timbur. Með Fljótsdalsáætluninni var gert ráð fyrir því að ríkið styrkti bændur til skógræktar á eigin jörðum.

Útivistarskógar

Nokkru síðar fóru skógræktarmenn hér á landi að tala um mikilvægi útivistarskóga og gildi þeirra fyrir þéttbýli. Gera má ráð fyrir að áhrifa hafi gætt frá hinum Norðurlöndunum þar sem útivist var almennt stunduð og fólk gerði sér grein fyrir mikilvægi hennar fyrir heilsu og lífsgæði. Skógræktarfélögin hér á landi höfðu frumkvæði að skógrækt í og við þéttbýli, þau gerðu ráð fyrir því að skógurinn gæti skapað umgjörð og verið hvatning til hollrar útivistar."

Fóru Íslendingar í skógarferðir?

"Íslensku skógarnir höfðu löngum verið vettvangur ferðahópa og fólks í leit að útivist og ævintýrum. Skömmu eftir að Vaglaskógur var friðaður árið 1907 varð hann vinsæll ferðaáfangi Akureyringa. Árið 1914 gekkst Ungmennafélag Akureyrar til dæmis fyrir hópferð í Vaglaskóg. Eftir erfiða göngu yfir Vaðlaheiðina segir svo í greinargerð um ferðina:

"Það er erfitt að gera sér ljósa grein fyrir hvaða tilfinningar eru ríkastar hjá okkur þegar við komum inn í skóginn og lítum trjágreinarnar yfir höfðum vorum, sem vefjast saman og mynda allavega lagaða laufskála, sem veita okkur þægilegan svala í sólarhitanum og sjá allan þann fjölskrúðuga gróður sem lifði þarna og dafnaði í skjóli trjánna, verndaður af þeim fyrir veðurátroðningi og ýmsu öðru. Við fundum skógarilminn fylla loftið og önduðum honum að okkur. Þessi blettur var svo ólíkur öllum þeim sem við áður höfðum séð. Hann stakk svo mjög í stúf við kulda landsins og klæðleysi."

Vinsældir útivistar í íslenskum skógum hafa vaxið með árunum og virðast eiga margar hliðstæður við það sem gerist í nágrannalöndum okkar enda þótt aðgengi að íslensku skógum virðist í fljótu bragði takmarkaðra.

Fyrstu skógræktarsvæðin

Fyrstu skógræktarsvæðin sem kölluð voru útivistarskógar voru Heiðmörk við Reykjavík sem var friðuð 1950 og Kjarnaskógur við Akureyri sem var friðaður 1952. Þessi skógræktarlönd voru í eigu sveitarfélaganna en um þau voru gerðir sérstakir samningar við skógræktarfélög á svæðunum. Bæði þessi svæði voru upphaflega í góðri fjarlægð frá þéttbýli. Það verður að teljast framsýni hjá sveitarstjórnarmönnum að svæðin skyldu verða starfsvettvangur skógræktarfélaganna. Þau hófu nýja landnýtingu, svæðin voru friðuð fyrir beit og ágangi búfjár og skógurinn fékk tækifæri til þess að vaxa og dafna án teljandi árekstra vegna annarra framkvæmda.

Rkækun útivistarskóga

Ræktun útivistarskóganna fór þó í upphafi fram með nokkuð tilviljanakenndum hætti. Ekki voru gerðar sérstakar ræktunaráætlanir en ræktunarskilyrðin látin ráða vali trjátegunda og til ræktunarstarfsins var kvatt til áhugafólk, starfsmannafélög og landnemahópar sem sáu að mestu um gróðursetningar. Þegar árangurinn er skoðaður virðist vel hafa tekist til að flestu leyti. Skógræktarsvæðin hafa til að bera þann fjölbreytileik í tegundavali sem gerir útivistarsvæðin aðlaðandi.

Strax og skógurinn í Kjarna og í Heiðmörk óx og dafnaði urðu svæðin eftirsótt til dagferða og útivistar. Starfsemi útivistarsvæðanna þróaðist nokkuð hratt á tímabilinu 1970-1980. Miklu var plantað og skógræktarfélögin þurftu ekki lengur að treysta á sjálfboðaliða við plöntunina. Segja má að á þessu árabili hafi innra skipulag svæðanna orðið til. Það mótaðist fyrst og fremst af landslagi og staðháttum.

Innra og ytra skipulag útivistarsvæða

Veigamikill þáttur hins innra skipulags er lagning stíga og vega, og staðsetning ýmiskonar aðstöðu innan svæðisins. Gott innra skipulag útivistarskóga ber þeim sem annast reksturinn gott vitni.

Það sem mótar innra skipulag:

Notkun trjátegunda, landslag og staðhættir, gönguleiðir og vegir, snyrtingar, merkingar, útigögn, svo sem bekkir, borð og ruslatunnur og loks leiksvæði

Ytra skipulag útivistarsvæða lýtur öðrum lögmálum. Það ákvarðast af því hvernig landnýting í nánasta umhverfi útivistarskóganna hefur þróast og hvernig sameiginlegir skipulagsþættir tengjast.

Það sem skiptir máli fyrir ytra skipulag er umferðatengingar, akstursleiðir, bílastæði, veitukerfi, landnotkun næst svæðunum, gönguleiðatengingar, reiðleiðir og deiliskipulag í sveitarfélaginu."

Skipulagsleg staða útivistarskóga

Hvað viltu segja um skipulag útivistarsvæða?

"Í upphafi var staða útivistarskóganna í skipulagi þéttbýlisins veik. Skógræktin hafði fengið að þróast á svæðum sem ekki voru nothæf til bygginga eða annarra framkvæmda. Þessi svæði voru ekki í nokkrum tengslum við bæjarskipulagið, þau mörkuðust oft af skörpum girðingarlínum ræktunarlanda og afréttar. Í aðalskipulagi sveitarfélaga er landi deilt í landnýtingarflokka, sem eru stefnumótandi fyrir nýtingu lands til langs tíma. Þannig eru afmörkuð lönd fyrir íbúðarsvæði, iðnaðarsvæði, landbúnaðarsvæði o.fl. Skógræktarlöndin í nágrenni þéttbýlis voru gjarna flokkuð sem "óbyggð svæði til annarra nota" eða "óbyggð svæði til sérstakra nota" ef gerð var grein fyrir landnýtingu á annað borð.

Landbúnaðarlöndin á þéttbýlisstöðunum hafa nú að mestu horfið undir byggingarsvæði. Eftir standa skarpar línur útivistarskóga á ytri byggðamörkum og byggingasvæða.

Vegna veikrar skipulagsstöðu útivistarsvæðanna í skipulagi þéttbýlisins myndast oft einskonar misgengi milli innra og ytra skipulags sem áður var lýst. Við núverandi aðstæður þar sem ekkert lögformlegt skipulag er til um útivistarsvæði og tengsl þeirra við vaxandi byggð, geta myndast átakalínur og óvissa. Göngustígar, hjólabrautir og akstursleiðir tengjast á undarlegan hátt við innra skipulag útivistarsvæðisins, ef um tengingar á annað borð er að ræða. Veitukerfi veitustofnana sveitarfélagsins fer án þess að tekið sé tillit til aðstæðna umræðulaust yfir útivistarsvæðin og mun í framtíðinni spilla ásýnd og nýtingu svæðanna. Formlegt deiliskipulag útivistarsvæðanna gæti komið í veg fyrir slíkar uppákomur."

Byggingasvæði ógna útivistarsvæðum

Hvernig er hægt að afstýra árekstrum milli útivistarsvæða og byggingasvæða?

"Skógræktarfélögin sem í upphafi hófu skógrækt á ytri byggðamörkum, fjarri öllu áreiti frá þéttbýli, verða nú áþreifanlega vör við nálgun þéttbýlisins. Oft á tíðum þarf ekki nema einfalda aðalskipulagsbreytingu til þess að múrarnir falli og byggðin fari að þróast inn á svæði sem áður voru ætluð til útivistar og skógræktar. Á nokkrum stöðum bæði á Akureyri, í Reykjavík og Kópavogi, sveiflast nú byggingakranar yfir trjátoppunum. Skarpar línur útivistarskóganna sem á sínum tíma mynduðust vegna þess að hagstæðast var að girða í beinum línum standa nú andspænis steyptum veggjum íbúðarhúsa. Góð lausn væri að draga útivistarsvæðin inn í byggðina og skapa þannig inngang á útivistarsvæðin. Útivistarskógarnir hafa veigamiklu hlutverki að gegna í skipulagi þéttbýlisstaða. Þeirra hlutverk er að tryggja almenningi aðgengi að skjólgóðum útivistarsvæðum allan ársins hring. Þeir eiga að stuðla að auknum lífsgæðum og vera stolt hvers þéttbýlis."