Eftir Lilju Þorsteinsdóttur
liljath@mbl.is
Áður var hér bæði veitingastaður og gisting á eyjunni. Sú starfsemi lagðist niður og við sem dveljumst hér á sumrin óttuðumst hvað myndi gerast þegar ferðamenn hefðu ekki lengur neina aðstöðu hérna,“ segir Ingibjörg Pétursdóttir, hótelstýra í Flatey á Breiðafirði. „Við sem eigum hérna sumarhús og erum mikið í Flatey á sumrin ákváðum því hérna úti í kálgarði að ráðast í framkvæmdir og starfrækja hótel. Minjavernd tók að sér að endurbyggja samkomuhúsið en áður var búið að endurbyggja eitthvað af húsum, til dæmis Eyjólfspakkhús. Uppbyggingin hefur gengið mjög vel og þetta er þriðja sumarið sem hótelið er starfrækt.“
Ingibjörg segir herbergjum hafa fjölgað frá því hótelið var opnað og auk þess hafi aðstaðan batnað. „Þegar við opnuðum voru fimm herbergi í boði í Eyjólfspakkhúsi og veitingastaðurinn opnaður í samkomuhúsinu. Síðasta sumar bættist eitt hús við, stóra pakkhúsið. Þar eru átta herbergi til viðbótar og barinn okkar, saltkjallarinn. Þar er hægt að fá hinn landsfræga drykk flajito! Hann varð alveg óvart til og sló alveg rosalega í gegn. Það gerðist einn daginn að myntan í mojito var búin. Þá sagði barþjónninn bara: „augnablik“, skaust út í kálgarð og náði í rabarbara og skessujurt, og fann þar með hina fullkomnu blöndu. Það liggur við að við þurfum að bæta við aukastarfsmanni bara til að búa hann til því blandan er handgerð í mortéli. Rabarbari, skessujurt, romm og hrásykur.“
Húsgögnin endurnýtt
Að sögn Ingibjargar eru allir sem heimsækja eyjuna mjög áhugasamir um uppbygginguna, og þá sérstaklega Íslendingar. „Ég held að fólki finnist svolítið eins og það sé að fara til útlanda. Það tekur bátinn og nær að skipta algjörlega um gír hérna eins og gerist þegar maður fer utan. Svo spyrst þetta út og það er æðislegt hvað fólk er ánægt með framtakið. Við erum meira að segja nokkuð þétt bókuð í allt sumar og verðum með opið í september ef það er næg aðsókn.“Það er óhætt að segja að hótelið í Flatey sé ekki alveg með hefðbundnu sniði. „Herbergin bera engin númer heldur fuglanöfn, og það er mynd af fugli á herbergishurðinni. Á herbergislyklinum er svo samstæð mynd svo fólk viti hvert það á að fara. Herbergin eru líka öll mismunandi að stærð og lögun og engin tvö eins. Það er líka gaman að segja frá því að eitthvað skemmtilegt sést út um alla glugga og útsýnið yfir sjóinn er meiriháttar.
Við höfum bjargað miklu af húsgögnum héðan úr eyjunni. Kirkjubekkirnir á barnum voru í molum og það þurfti að líma þá saman og laga. Skólaborðunum úr gamla skólanum var tjaslað saman og þau eru bæði á barnum og í samkomuhúsinu. Þau eru mjög falleg, útkrössuð og með holur fyrir blýanta og penna. Margir hlutanna voru huldir þykku ryki og við sáum ekki fyrr en var búið að þvo þá hversu fallegir þeir voru. Það má eiginlega segja að hótelið sé pínulítið í áttina að safni, því gamlir hlutir eru hér um allt. Ég og Ingunn Jakobsdóttir höfum verið tvær í þessu frá upphafi og leggjum alla okkar orku í vinnuna. Við höfum gert þetta mikið sjálfar með eigin höndum og hamagangi,“ segir Ingibjörg og hlær.
„Hér er yndislegt að vera og margt sem heillar við Flatey. Eyjan er svo falleg og náttúran óspillt. Hér lifir maður í samkrulli við fugla og kindur. Ef maður fer í gönguferð þá labbar fuglinn við hliðina á manni, svo kemur kannski annar og sníkir brauð við eldhúsgluggann. Tengslin við náttúruna, fugla, dýralíf og mannlífið eru góð, svo er fólk hérna í öllum húsum. Maður er manns gaman.“