Sólrún Kjartansdóttir fæddist í Reykjavík 25. september 1932. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 31. mars 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri dagblaðsins Vísis, f. 1.5. 1899, d. 3.2. 1957, Jónsson hreppstjóra á Munaðarhóli í Neshreppi á Snæfellsnesi og Ingibjörg Jóna Hall, f. 5.11. 1899, d. 6.4. 1987, Jónasdóttir Thorsteinssonar Hall, verslunarmanns á Þingeyri. Bróðir Sólrúnar er Kormákur, f. 8.12. 1925, kvæntur Hólmfríði Friðsteinsdóttur, f. 28.8. 1929, sonur þeirra Ingvi Þór, f. 30.1. 1952, kvæntur Dagrúnu Ársælsdóttur, f. 16.2. 1952. sonur þeirrra Ársæll, f. 14.11. 1981. Sonur Kormáks og Svövu Ingibjargar Þórðardóttur er Þórður, f. 27.9. 1951. Sólrún gekk í Miðbæjarskóla, varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1953. Lauk kennaraprófi 1958. Var um tíma stundakennari við Laugarnes- og Breiðagerðisskóla. Mestan hluta starfsævinnar var hún bókhaldari og gjaldkeri í Ingólfsapóteki og seinast ritari hjá barna- og unglingageðdeild og Öryrkjabandalaginu, Hátúni 10. Útför Sólrúnar var gerð í kyrrþey.


Ég kom til starfa í nýju fyrirtæki í janúarmánuði 1966 og var kynntur fyrir starfsfólkinu, sem vera átti samstarfsmenn mínir og þar á meðal konu, sem var bókari og gjaldkeri þessa heilsölufyrirtækis og um leið systurfyrirtækis þess.

Sólrún Kjartansdóttir hét hún og var mér ekki alveg ókunn, svo mikið sem ég hafði heyrt af færni hennar, sem einkaritara forstjóra stórfyrirtækis um árabil, en þar var hún goðsögn um afköst í starfi og vandvirkni.

Ég var æði hissa að hitta Sólrúnu þarna og reyndar frekar óhress með að hún skyldi þurfa að vera hvoru tveggja í senn, bókari og gjaldkeri, enda var meir en fullt starf að vera bókari beggja fyrirtækja.

Ég þarf ekki að orðlengja það frekar, en við Sólrún Kjartansdóttir áttum upp frá þessu samstarf, sem aldrei bar skugga á í meir en aldarfjórðung, traustari samstarfsmann er alls ekki hægt að hugsa sér. Hún var reyndar bæði hógvær og lítillát, stundum svolítið fáskiftin og gerði ekki oft veður út af hlutunum, tillögugóð og ágætlega einörð þætti henni við þurfa, en hugsaði um hag fyrirtækisins eins og hún ætti það ein. Það var hér eins og fyrr á vegferð Sólrúnar, að afköst hennar, hæfileiki til að tileinka sér nýja tækni og yfirburðaöryggi í meðferð allra gagna og við úrlausn verkefna var einstæður.

Vel man ég daginn, sem hjá mér bankaði á dyr dálítið hávær maður, hafði svo sem ekki fyrir að taka hattinn ofan þótt innandyra væri og tjáði sig alls ekki nógu ánægðan með tiltekið opinbert uppgjör fyrirtækisins, en við sig dyggði ekkert múður.

Manninum var tjáð að engin athugasemd væri gerð við yfirlýsingarar, en nú yrði hann leiddur fyrir bókara  fyrirtækisins og þar mætti á allt málið líta.

Líklegast kom ég um klukkutíma síðar út af eigin skrifstofu og sá þá að eftrlitsmaðurinn  var að koma út af skrifstofu bókarans og stóð nú með hattinn í hendinni hneigði sig og kvaddi, en Sólrún sýndist mér þá likjast mest ábúðarmikilli og vorkunsamlegri, en þó vinsamlegri kennslukonu að kveðja nemanda sinn. Aðspurð fannst Sólrúnu lítið til bókhaldskunnáttu mannsins koma, að ekki væri nú um að tala nýjustu tölvuvædd bókhaldskerfi.

Ég man fleiri sambærileg dæmi, en allt bar að sama brunni störf Sólrúnar Kjartansdóttur og niðurstöður þeirra urðu nær ekki vefengdar.

Sólrún var há kona og glæsileg á velli dökk á hár og bar með sér kyrrlátan þokka, barst ekki mikið á og var einfari í eigin lífi og um sumt einnig á vinnustað, þótt mig hafi oft grunað að þar hafi mest um ráðið hlédrægni og e.t.v. nokkur feimni.

Þar  kom að leiðir okkar Sólrúnar og fyrirtækisins, sem við unnum bæði við skildi. Ég hafði lengst af upplýsingar um hagi hennar og síðan erfið veikindi hennar um árabil, en við sáumst þessi árin varla nema í mýflugumynd.

Við lát Sólrúnar Kjartansdóttur nú er mér efst í huga þakklæti fyrir langt og farsælt samstarf og órofa tryggð hennar við mig og fyrirtækið meðan það samstarf varði. Henni sjálfri óska ég alls velfarnaðar á guðs vegum svo sem hún hafði sjálf sér svo sannarlega búið með störfum sínum og lífi.

Einar Birnir