Ólafur Jens Pétursson, tækniskólakennari í Kópavogi, fæddist í Ártúni á Hellissandi 28. desember 1933. Hann lést á Landspítalanum 4. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Pétur Maríus Guðlaugur Guðmundsson, útvegsbóndi á Hellissandi, f. á Hellissandi 3.10. 1886, d. 4.5. 1965, og Guðrún Ágústa Þórarinsdóttir, f. í Ytri-Knarrartungu í Breiðuvíkurhreppi á Snæfellsnesi 4.8. 1894, d. 14.9. 1961. Ólafur Jens var yngstur níu systkina, hin voru: a) Þórarinn Breiðfjörð Pétursson, f. 15.2. 1913, d. 12.12. 1993. b) Guðmundur Breiðfjörð Pétursson, f. 28.8. 1914, d. 13.4. 1980. c) Hallgrímur Pétursson, f. 4.12. 1916, d. 10.9. 1975. d) Ágúst J.G. Pétursson, f. 17.8. 1918, d. 19.9. 1956. e) Hjördís Pétursdóttir, f. 27. 9. 1922, d. 2.10. 2007. f) Þorsteinn Lárus Pétursson, f. 15.2. 1925, d. 19.11. 2006. g) Jóhann Adolf Pétursson, f. 3.7. 1927. h) Sveinbjörn Breiðfjörð Pétursson, f. 9.3. 1929. Ólafur Jens kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Áslaugu Elísabetu Gunnsteinsdóttur bókara hinn 5.9. 1961. Vantar fæðingardag eiginkonuForeldrar hennar voru hjónin Gunnsteinn Jónsson fiskmatsmaður, f. 5.6. 1895, d. 16.11. 1964, og Ólöf Steinþórsdóttir húsmóðir, f. 22.5. 1905, d. 28.7. 1984. Synir Ólafs Jens og Áslaugar eru: 1) Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður, f. 5. 8. 1962, maki Eygló Ingadóttir hjúkrunarfræðingur, börn þeirra: Jakob Fjólar, Sindri og Áslaug Elísabet. 2) Pétur Már Ólafsson bókaútgefandi, f. 4.9. 1965, maki Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir lögfræðingur, börn þeirra: Ólafur Jens, Sigurður Karl og Þór. Þá átti Ólafur Jens son með Karólínu Fjólu Valgeirsdóttur, f. 1.9. 1929, d. 8.8. 1954: 3) Sigurkarl Fjólar, f. 2.8. 1954, d. 20.2. 1985. Ólafur Jens fluttist á unga aldri til Reykjavíkur. Hann byggði sér hús í Kópavogi ásamt konu sinni á öndverðum sjöunda áratugnum og bjó þar allar götur síðan. Ólafur Jens lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954, prófi í uppeldis- og kennslufræði 1958, BA-prófi í sögu 1963 og íslensku 1983 frá Háskóla Íslands. Þá nam hann hugmyndasögu við Árósaháskóla 1971-72. Ólafur Jens kenndi á Drangsnesi, við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Gagnfræðaskólann í Kópavogi en réðst síðan til Tækniskóla Íslands árið 1966, var deildarstjóri frumgreinadeildar skólans frá 1973 til 2001 og stundakennari til 2003 er hann lét af störfum. Kennslugreinar hans voru hugmyndasaga, danska og íslenska. Ólafur Jens var fyrsti varabæjarfulltrúi Félags óháðra kjósenda 1962-66 í Kópavogi og sat í fræðsluráði, skólanefnd, stjórn Tónlistarskóla Kópavogs og æskulýðsráði bæjarins. Þá var hann þrívegis formaður Félags tækniskólakennara. Ólafur Jens skrifaði bókina Hugmyndasaga sem út kom 1985. Hann var alla tíð mikill áhugamaður um tónlist, söng í kórum og lék á harmóniku og orgel. Ólafs Jens verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, miðvikudaginn 15. apríl, kl. 13.

Mig langar til að minnast Ólafs Jens Péturssonar, föður æskuvinar míns.
Ég og Pétur Már, sonur hans, vorum skólafélagar frá sjö ára aldri og miklir vinir æ síðan.
Ég var tíður gestur á heimili þeirra Ólafs og Áslaugar Gunnsteinsdóttur á Álfhólsvegi 68 í Kópavogi. Á því mikla menningarheimili var ungum manni vel tekið. Ólafur var skarpgreindur, með sterka réttlætistilfinningu og geislandi kímnigáfu. Maður fann strax að hann hafði mikinn áhuga á skoðunum manns og hugmyndum, þótt sjálfsagt hafi þær ekki verið upp á marga fiska í þá daga. Það lét hann ungan mann þó aldrei finna.
Ég held að fáir hafi haft jafnmikil áhrif á skoðanir mínar á þjóðmálum og á réttlæti í samfélaginu og þessi góði maður. Þó predikaði hann aldrei heldur fóru fram umræður þar sem allir höfðu sitt til málanna að leggja. Fyrir það er ég honum ákaflega þakklátur.
Við Pétur fórum saman í eina allsherjar lestarferð um Evrópu þegar við vorum 18 ára. Ólafur Jens var geysilega áhugasamur um þessa miklu ferð og hvernig ætti eiginlega í ósköpunum að gera þessa ungu kúrista úr austurbæ Kópavogs að heimsborgurum.
Við lásum sögu og menningarrit allt sumarið og vorum verulega spenntir. Okkur var fylgt út að brottfararhliðinu á Keflavíkurflugvelli og vorum við í minningunni létt nötrandi af aðskilnaðarkvíða. Ferðin var þó frábær og kennarinn á Álfhólsveginum ánægður með afraksturinn, allar heimsborgirnar og listasöfnin.
Ég lenti í erfiðleikum snemma á tvítugsaldrinum. Sem og áður kom ég þá reglulega á heimili Ólafs og Áslaugar. Ég fann sterkt fyrir mikilli væntumþykju þeirra í minn garð og von og síðar gleði þegar allt fór vel.

Ég þakka Ólafi Jens Péturssyni fyrir allt hið góða sem hann gaf mér.
Megi hann hvíla í friði.


Elsku Áslaugu, Pétri, Gunnsteini og þeirra fjölskyldum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.


Ferdinand Jónsson.

Við stofnun  Karlakórs Kópavogs á haustdögum 2002  var mættur Ólafur Jens Pétursson og telst hann því til stofnfélaga kórsins. Hann var ötull í öllu kórstarfinu, mikill tónlistarmaður og firnagóður bassi og var burðarás í  2. bassa.  Alltaf var hann boðinn og búinn að  veita félögum sínum  aðstoð þegar þeir þurftu á að halda.
Ólafur var mikill nákvæmnismaður, hvort sem varðaði lög, höfund lags eða ljóðs, útsetjara og fleira. Hann kom ævinlega með athugasemdir ef hann taldi ekki rétt farið með og ekki minnist ég þess að hann hafi nokkru sinni farið með rangt mál í sínum athugasemdum. Við sem sáum um dagskrárgerð fyrir kórinn sáum fljótlega að þarna færi maður sem gott væri að eiga að og sendum við honum því dagskrár kórsins til yfirlestrar fyrir prentun.
Ólafur var víðlesinn og fróður. Oft var hann að gauka að okkur yngri mönnum kórsins ýmsum fróðleik. Mér er minnisstætt er við vorum með tónleika í Kópavogskirkju en á dagskránni var lag eftir Jill Gallina, Ode to peace ( Óður til friðar ), og fyrir mér lá að kynna dagskrána. Rétt fyrir inngöngu læðir Ólafur því í eyra mér að þennan dag sé haldið upp á 60 ára stríðslok um alla Evrópu sem ég nýtti mér að sjálfsögðu í kynningunni.
Það var kórnum sérlega mikill heiður er Gunnsteinn Ólafsson kom að máli við kórinn og sagðist eiga lag sem hann vildi að kórinn flytti í sjötugsafmæli Ólafs. Texta vantaði en Magnús Steinarsson, félagi í kórnum, gerði texta og lagið Frelsi söngsins var frumflutt í sjötugsafmæli Ólafs, honum til heiðurs.
Ólafur og Áslaug tóku mikinn þátt í félagsstarfi kórsins meðan Ólafur hafði heilsu til. Hann var mikill söngmaður í kórveislum og greinilegt að dansinn var honum ekki minna gleðiefni en söngurinn. Eitt sinn vorum við með veislu og sungum ýmis lög, meðal annars Der var brændevin i flasken. Flestir kunnu fyrstu fjögur erindin og töldu lagið búið en þá stóð Ólafur upp og sagði alls 14 erindi í laginu og  stóð síðan einn á miðju gólfi og söng þau öll.
Það var okkur kórfélögum mikið áfall er við fréttum af veikindum Ólafs en alltaf áttum við von á honum aftur í kórinn.  Sá tími kom er hann hresstist tímabundið og þá var hann mættur á æfingar.  Allan þann tíma sem hann barðist við veikindi sín hafði hann fullan áhuga á kórstarfinu og fylgdist með hvað við værum að gera og óskaði eftir nótum og textum.
Kæra Áslaug, Gunnsteinn, Pétur Már og aðrir aðstandendur það er mikill missir af Ólafi.  Við sendum ykkur öllum samúðarkveðjur.
F.h.  Karlakórs Kópavogs,

Þór Þráinsson, formaður.

Tækniskóli Íslands tók til starfa árið 1964.  Var skólanum ætlað það hlutverk að framhaldsmennta iðnaðrarmenn sem tæknifræðinga, nýja stétt milli iðnaðarmanna og langskólagenginna verkfræðinga.

Upphafsár skólans voru erfið, illa gekk að ráða í stöður yfirstjórnar skólans og hann á hrakhólum hvað húsnæði varðaði.  En upp birti hvað mannahald áhrærði, því brátt komu að skólanum hæfileikamenn, til viðbótar þeim sem fyrir voru, sem lögðu hug og hönd að uppbyggingu skólans.

Einn þessa nýju manna var Ólafur Jens Pétursson sem hér er kvaddur.

Með Ólafi kom fersleiki og kraftur inn í skólann, en hann sjálfur bjartur og geislandi.  Hans hlutverk var að kenna íslensku,dönsku og menningarsögu.

Ekki beint uppáhaldsfög harðsvíraðra iðnaðarmanna af 68' kynslóð sem komnir voru til þess að nema það sem hægt var að vigta og mæla, hverjir sumir höfðu staðið í kirkjubyggingum og sagt fyrir verkum.

En þar hittu piltar fyrir ofjarl sinni.  Því dugnaði Ólafs, kraftur og útsjónasemi við kennsluna var viðbrugðið og hreif hann nemendur með sér fullur andagiftar og orðkynngis.

Hann vissi sem er að tækniþekking ein og sér er ekki til farsældar þegar á starfsvöll er komið ef þekking á sögu Mannsandans og þekking til tjáningar liggur öll utangarðs.

Ekki var um um auðugan garð að gresja um kennsluefni í menningarsögu á

upphafsárum skólans.  Úr þessu bætti Ólafur,  því hann samdi sjálfur menningarsögu sem notuð var við kennslu í skólanum og var gefin út á bók.

Kennslustundir Ólafs voru eins og vin í endalausum stærðfræði-, eðlisfræði- og efnafræðitímum og mynduðu það jafnvægi sem þarf svo vitglóra haldist.

Það ríkti þó engin logmolla því Ólafur var á fullu og krafðist fullrar þátttöku nemenda, umræðu og skilvirkni.

Orðið kennari útleggst: Maður sem kennir, starfar að uppfræðslu.

Ólafur féll ekki undir þessa skilgreiningu.  Hann var lærifaðir, hann hafði áhrif á þroska nemenda sinna og miðlaði þekkingu þannig að þroska veitti.

Miðlun þekkingar er ekki einungis bundin fyrsta viðtakanda heldur flyst hún áfram.  Rótarskotin geta verið mörg og ekki auðgreind.

Óeigingjarnt æfistarf Ólafs Jens Péturssonar fólst í þekkingarmiðlun við Tækniskóla Íslands.  Langt verður liðið á 21. öld áður en öll uppskera hans er  komin í hlöðu.  Hafi hann þökk fyrir veganestið!

Fjölskyldu Ólafs færi ég samúðarkveðjur byggingartæknifræðinga TÍ 1973.

Magnús Sædal.

Skjótt er af að segja. Óli Jens er einn minnisstæðasti félagi úr menntaskóla. Og jafnframt meðal þeirra sem einkar hlýr hugur var borinn til þótt samskiptin væru ekki ýkja tíð seinustu hálfa öldina.

Ekki helgaðist þetta viðhorf samt af einskærri aðdáun eða samhyggju. Sumum var jafnvel uppsigað við Óla. Hann fór sínar eigin götur og gat verið stífur á meiningunni þótt glaðbeittur væri. Hann var til dæmis einn fárra meðal menntskælinga sem opinberlega var í Æskulýðsfylkingunni -  sambandi ungra sósíalista. Við flestir sem hjartað sló í til vinstri þóttumst víst of frjálshuga til að vilja njörva okkur þannig niður. Hann var líka lengst af virkur í bindindishreyfingu skólanna sem yfirleitt þótti ekki mjög sniðugt. Hann drakk ekki einu sinni kaffi með okkur á veitingahúsi, heldur te! Og af því hvað Óli gat verið mikill prinsipmaður gerðum við því skóna að hann mundi varla fást til að syngja með okkur texta eins og: blærinn er svo mildur og ilmsætt loftsins vín heldur mundi hann heimta að sungið væri: og ilmsætt loftsins te. Já, Óli hafði góða bassarödd og söng um tíma með okkur Valdimar Örnólfssyni og Jóhanni Guðmundssyni (síðar lækni) í því sem við í stærilæti okkar nefndum MR-kvartettinn. Aldrei náði sá hópur reyndar viðlíka viðtökum og MA-kvartettinn tveim áratugum fyrr. Samt hefur RÚV látið búa til disk með tíu lögum sem varðveist hafa, og þar má heyra einsöng Óla í lagi úr austurrískri söngvamynd sem gekk einn veturinn við miklar vinsældir og þótti tilbreyting frá ameríska sullinu. Hann söng líka hlutverk Marðar Valgarðssonar í óperuskaupi sem sett var upp seinasta veturinn og til þess fékk hann til túlkunar Dansinn um gullkálfinn úr Faust eftir Gounod.

Þetta eru ekki annað en sundurlausar glefsur sem rifjast upp á kveðjustund og brátt munu gleymast með öllu. Ofar öðru stendur að hann var traustur maður í vináttu og hvort sem menn voru sammála Óla hverju sinni eða ekki þurfti enginn að efast um að hann hafði gott hjartalag.

Árni Björnsson.

Á kveðjustund viljum við þakka ógleymanlegar samverustundir í tæp 40 ár, þar sem einlæg vinátta myndaðist, þegar við bjuggum samtímis í Árósum í Danmörku. Hópurinn hefur haldið saman öll þessi ár, en nú er skarð fyrir skildi því Ólafur var góður og tryggur félagi og ávallt hrókur alls fagnaðar og munum við ætíð minnast hans þannig.

Við vottum Ásu, Gunnsteini, Pétri og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

.

Dóra, Kristján, Hulda, Pétur, Inga, Snæbjörn, Olga, Siggi, Svava, Pétur.

Alltaf skal það vera svo að andlát þeirra sem maður þekkir vel, vina og vandamanna, slær fast. Það hlýtur að vera vegna þess hve lítið við þekkjum lífið, tilveruna og dauðann. Í hinum þrönga skilningi vitum við ekkert um hvað við tekur eftir dauðann; í þeim efnum verður hver og einn að hafa það sem hann trúir. Andstætt þessu minnist ég þess úr Grænlendinga sögu að þar er sagt að Þorsteinn sonur Eiríks rauða hafi getað komið þeim skilaboðum ímæltum orðum til eftirlifandi konu sinnar ágætrar að hann væri kominn til góðra bústaða.

Einhvern veginn var því svo til hagað að fundum okkar Ólafs Jens Péturssonar bar fyrst saman haustið 1958 í barnaskóla hér í Kópavogi sem þá hét Kópavogsskóli en þar er nú Menntaskólinn í Kópavogi til húsa. Við vorum báðir nýfluttir í bæinn og ráðnir til kennslu við unglingadeildir sem þarna voru starfræktar, 1. og 2. bekkur, en þær þróðust brátt í fjögurra vetra gagnfræðaskóla. Þarna vorum við samkennarar í nokkur ár og urðum nágrannar meðan báðir lifðu eftir að við byggðum okkur hús við Álfhólsveg. Þegar Tækniskóla Íslands var stofnaður þarfnaðist hann kennara í nýrri námsgrein sem var hugmyndasöga og bauðst Ólafi sú staða. Áður en hann tók við starfinu fór hann einn vetur í framhaldsnámtil Danmörku í nefndri hugmyndasögusem átti að vera ein af kennslugreinum hans þar en auk mannkynssögu var hann háskólamenntaður kennari í dönsku, B.A. Einnig mun hann hafa kennt íslensku en hann var mjög góður íslenskumaður. Hann tók strax ástfóstri við hugmyndasöguna, sá enda í hendi sér að slík bylting í sögukennslu átti skylt erindi inn í framhaldsskóla landsins sem fóru stækkandi ogfjölgaði um þessar mundir.

Ólafur lagði strax mikla rækt við þessa nýju kennslugrein með því að viða að sér vel völdu efni sem fræðin vörðuðu bæði erlendu og innlendu og miðla því til nemenda sinna. Það gerði hann þeð því að setja saman fjölrit sem hann notaði í kennslunni. Þetta veit ég frá fyrstu hendi af því að ég var um nokkurra ára skeið prófdómari í þessari grein hjá Ólafi og Bjarna Kristjánssyni rektor við T.Í.Og hann átti eftir að vinna stórvirki á þessu sviði. Árið 1985 hafði hann skrifað og gaf hann út tilraunaútgáfu kennslubókar í hugmyndasögu fyrir framhasldsskóla og fjórum árum síðar kom verkið fullskapað: 1. útgáfa Máls og menningar af Hugmyndasögu Ólafs Jens Péturssonar. Þessi bók er mjög vel skrifuð og merkileg að því leyti að þar er íslenskri hugmyndasaögu gerð góð skil, má í því sambandi nefna vísindakenningar dr. Helga Pjeturss í jarðfræði og dulspeki og kenningum Jónasar Jónssonar varðandi samvinnumál og búauðgi.

Eftir rúmlega hálfrar aldar samstarf og nágrenni á ég þeim hjónum Áslaugu Elísabetu Gunnsteinsdóttur og Ólafi Jens Péturssyni margt að þakka og minningar frá ánægjulegum samverustundum eru legió". Þetta geta verið minningar frá erfiðum byggingarárum og síðan ýmsum öðrum samskiptum en þau voru mikil milli heimilanna, t.d. um jól en þá áttu bæði hjónin afmæli. Þá voru móttökur mjög góðar eins og reyndar alltaf og söngur og hljóðfærasláttur í fyrirrúmi því Ólafur hafði yndi af söng eins og allt hans fólk og lék á hljóðfæri. Ég og sambýliskona mín, Jóna Bjarkan, færum Áslaugu Elísabetu, sonum, tengdadætrum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur Hansen.

Þegar ég heyrði af andláti Ólafs Jens Péturssonar þá rifjuðust upp æskuárin í Kópavoginum. Ólafur Jens og Ása bjuggu við hliðina á foreldrum mínum í Álfhólsveginum. Margt var líkt með þessum fjölskyldum. Báðar fjölskyldurnar voru frumbyggjar í Kópavogi. Þær keyptu sér lóðir við Álfhólsveginn og báðar byggðu þær þar sín hús á árunum upp úr 1960 og hafa búið þar síðan. Báðir voru fjölskyldufeðurnir háskólamenn sem höfðu lífsviðurværi sitt af kennslu. Við vorum fjórir bræðurnir, þeir voru tveir. Þessar fjölskyldur höfðu frá fyrstu árunum á Álfhólsveginum mikið samneyti sín á milli og milli fjölskyldumeðlima myndaðist ævilöng vinátta.  Hjá þeim Ólafi Jens og Ásu áttu við bræður okkar annað heimili.

Þegar við fluttumst að heiman og stofnuðum okkar eigin heimili þá rofnuðu þessi bönd ekki heldur styrktust og efldust. Ólafur Jens og Ása voru alltaf eins og ein af fjölskyldunni og hafa síðustu fimmtíu árin samfagnað á okkar bestu gleðistundum og samhryggst á okkar sorgarstundum.

Það er sárt að sjá á eftir fjölskylduvini.

Margar eru minningarnar ljúfar frá árunum á Álfhólsveginum. Jólaboðin þar sem alltaf var dansað í kringum jólatréð sem skreitt var logandi kertum við píanóundirleik Ólafs Jens. Þá var sungið dátt. Tónlist, menning, bókmenntir og listir, þar var Ólafur Jens eins og ég þekkti hann. Þessi mál hafði hann ánægju af að ræða.

Hugur okkar er hjá Ásu, sonum og fjölskyldum. Megi algóður guð veita þeim styrk í þessari raun.

Friðrik Hansen Guðmundsson og fjölskylda.