Hjarnar Bech fæddist á Tvöroyri á Suðurey í Færeyjum 10. febrúar 1931. Hann andaðist 5. mars 2009. Hann var sonur hjónanna Thominu og Magnúsar Bech sjómanns. Hjarnar var næstyngstur tíu systkina, sem öll eru nú látin. Hinn 3. júlí 1966 kvæntist Hjarnar í Tvöroyra kirkju Huldu Þorsteinsdóttur, f. 16. nóvember 1939, dóttur hjónanna Eiríku Sigurjónu Jónsdóttur og Þorsteins Nikulássonar er bjuggu þá á Kálfárvöllum í Staðarsveit en fluttu síðar í Garð á Suðurnesjum. Þau hjónin, Hulda og Hjarnar, störfuðu um margra ára skeið saman við vistheimilið í Arnarholti, þar sem þau bjuggu fyrstu búskaparár sín. Síðar um tíma á Vallá á Kjalarnesi uns þau reistu sér hús á Esjugrund 53. Hjarnar var lærður garðyrkjumaður, en þrítugur að aldri fluttist hann til Íslands til starfa á búinu sem Thor Jensen hafði látið reisa á sínum tíma í Saltvík á Kjalarnesi. Þar vann hann öll algeng bústörf en síðar réði hann sig til starfa við vistheimilið í Arnarholti. Þegar hann hætti störfum þar, gerðist hann póstur og starfaði sem slíkur til loka starfsferils síns. Árið 1976 varð hann fyrir alvarlegu slysi og var vart hugað líf. Hann náði þó bata en afleiðingar slyssins háðu honum eftir það og drógu úr starfsgetu hans. Útför Hjarnars fór fram 13. mars, í kyrrþey.
En nú hefur þessi síkáti vinur kvatt þennan heim. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi eftir stutta legu.
Á uppstigningardag í maí árið 1941 flutti sr. Sigurbjörn heitinn Einarsson, fyrrverandi biskup, ræðu þegar hann kvaddi söfnuð sinn, sem hann hafði þjónað um nokkurra ára skeið. Honum fórust þar m.a. orð á þessa leið:
Skilnaðarstundir og kveðjuaugnablik eiga alltaf sína alvöru, þau tákna
þáttaskil í lífinu og það er alltaf svo þegar þáttum skiptir í lífi vor
mannanna, að við horfum með spurulli íhygli gegn örlögum vorum, sem hin
líðandi stund afhjúpar smátt og smátt um leið og hið ókomna hverfur inn í
nútíðina og skilar sér yfir í fortíðina. Alvara slíkra augnablika á mótum
tveggja þátta er stundum trega blandin og angurværð, stundum dapurleik og
harmi, allt eftir þvi hversu djúpt þau virðast rista í farvegi lífsrásar
vorrar, en hún er alltaf mótuð af minningunum um hið liðna oghorfna, sem
er kvatt og kemur aldrei aftur og af ugg hinnar óráðnu gátu hins ókomna
og óþekkta.
Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að
það,
sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru
hans,
eins og fjallgöngumaður sér fjallið bezt af sléttunni.
(Úr Spámanninum.)
Þorsteinn Guðlaugsson