Eygló Guðrún fæddist 25. október 1988 á HSS. Hún lést 7. apríl 2009 á skammtímavistuninni Heiðarholti í Garði. Foreldrar hennar eru hjónin Kristján Nielsen, f. 14.6. 1966, og Sigurborg Sólveig Andrésdóttir, f. 16.3. 1967, í Reykjavik. Kristján er sonur Eyglóar Kristjánsdóttur, f. 13.8. 1945, og Prebens Willy Nilsen, f. 27.3. 1942, Sigurborg er dóttir hjónanna Andrésar Péturs Eyjólfssonar, f. 15.1. 1942, á Eskifirði og Rakelar Guðrúnar Aldísar Benjamínsdóttur, f. 26.1. 1947, d. 9.5. 2006. Eygló á 3 systkini 1) Andrés Daníel Kristjánsson, f. 22.5. 1986. Sambýliskona Hjördís Lilja Bjarnadóttir, f. 26.9. 1986, börn þeirra Alexander Freyr, f. 11.5. 2006, Gabríel Þór, f. 27. 4. 2008. Hjördís átti dóttur fyrir, Júlíu Rós Leifsdóttir, f. 30.5. 2003. 2) Ástrós Sóley Kristjánsdóttir, f. 29.10. 1997. 3) Benjamín Smári Kristjánsson, f. 28.4. 2001. Útför Eyglóar fer fram frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag og hefst athöfnin kl. 14.

Mig langar að minnast Eyglóar Guðrúnar frænku minnar, með örfáum orðum.

Um tveggja ára aldur veiktist og þarf stuðning frá þeim tíma. Ég fékk það tækifæri til að annast hana nokkra morgna í viku, þessi tími var mjög þroskandi og gefandi. Ég sá á þessum tíma hvað allt var eðlilegt og kærleiksríkt í kringum Eygló, það tóku allir á heimilinu þátt í því að allt gengi sem best. Systkinin sofandi hjá stóru systir og vöknuðu við það að við vorum aðstoða Eygló. Þetta þótti þeim sem sem eðlilegast. Oft vildi Eygló kúra lengur eins og unglingum sæmir. Eftir baðið fékk hún þó alltaf smá beauty blund. Þetta gekk allt svo vel og þægilega fyrir sig. Eygló fór að sinna sínu daglega lífi og ég mínum.

Í minningunni er eins og það hafi alltaf verið vor í lofti, þegar ég var að koma til þín. Full af gleði, ást og hamingju.

Elsku Eygló Guðrún, ég mun minnast þín með bros í hjarta og megir þú hvíla í friði.

Þín frænka,

Kristín Nielsen.

Elsku Eygló Guðrún mín.

Ég er svo þákklát fyrir þann tíma sem við áttum saman.

Eftir veikindin þín sl. sumar þótti mér svo vænt um að þú varst orðin nógu hress til að koma í sumarbústaðinn minn, þegar réttirnar voru. Þær eru margar minningar um þig Eygló mín sem ég mun geyma í hjarta mínu.


Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)

Ég kveð þig með söknuði, elsku ömmustelpan mín.

Þín amma,

Eygló.

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)

Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson.)

Elsku Bogga, Stjáni og fjölskylda við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur. Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Fh. Börn og starfsfólk Ragnarssels, Sæunn Guðrún Guðjónsdóttir.