Helga Hjartardóttir fæddist á Akranesi 7. febrúar 1925. Hún lést á Landspítalanum í Reykjavík 27. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Ásrún Knudsen Lárusdóttir frá Stykkishólmi, f. 15.4. 1898, d. 12.7. 1967, og Hjörtur Bjarnason, f. á Gneistavöllum á Akranesi 19.5. 1894, d. 16.6. 1977. Systkini Helgu eru Haukur, f. 24.6. 1926, d. 11.8. 2003, Héðinn, f. 20.7. 1928, og Ása, f. 24.4. 1930, d. 4.5. 1998. Hinn 8. júní 1946 giftist Helga Jóni Ólafssyni Gíslasyni húsasmíðameistara, f. í Reykjavík 15.1. 1921, d. 24.3. 1978. Börn þeirra eru: 1) Guðborg, f. 23.11. 1945, gift Þórarni Lárussyni. Börn þeirra eru: a) Jón Helgi, f. 1965, kvæntur Barbro Lundberg. Börn Sindre, Guðborg Gná og Bjarki Mar. b) Rúnar Þór, f. 1973, kvæntur Maríu Huld Pétursdóttur. Börn Ásþór Loki og Þórarinn Þeyr. c) Margrét Lára, f. 1976, maki Eiríkur Einarsson. Barn Askur Örn. d) Pétur Örn, f. 1981, kvæntur Þóru Sigurborgu Guðmannsdóttur. Börn Embla Nótt og Eygló Þóra. Dóttir Þórarins Kristín, f. 1960. Börn hennar Andri og Þorbjörg Ída. 2) Örn, f. 11.3. 1949, kvæntur Elínu Jóhönnu Elíasdóttur. Börn þeirra eru: a) Hilmar Þór, f. 1970, kvæntist Evu Láru Logadóttur, en þau skildu. Barn Ástrós Helga. Hilmar er kvæntur Jónu Hildi Bjarnadóttur. b) Helga Björk, f. 1974, í sambúð með Birgi Thorberg Ágústssyni. c) Jón Örn, f. 1978, kvæntur Helgu Björk Jónsdóttur. Börn Sigríður Elín og Kolbeinn Tjörvi. 3) Ólafur Hvanndal, f. 3.2. 1956, kvæntur Guðbjörgu Árnadóttur. Börn þeirra eru Ólafur Hvanndal, f. 1983, í sambúð með Maríu Björgu Þórhallsdóttur, Gísli Hvanndal, f. 1985, og Ómar Hvanndal, f. 1991. 4) Bjarni, f. 23.2. 1959, kvæntur Lilju Steinunni Svavarsdóttur. Börn þeirra eru: Íris Hlín, f. 1982, í sambúð með Theodóri Bjarnasyni, Svavar Jón, f. 1985, og Lilja Dögg, f. 1990. Helga ólst upp í foreldrahúsum á Akranesi fram um 17 ára aldur, þegar hún flutti til Reykjavíkur þar sem hún lauk m.a. námi við Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Þau Jón bjuggu fyrst á Bjarkargötu 10 þar til þau fluttu í eigið hús í Langagerði 92, sem þau byggðu á árunum 1952-53. Eftir andlát Jóns flutti Helga í Blikahóla 8 og árið 2003 flutti hún í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Seljahlíð og bjó þar til dauðadags. Auk þess að hugsa um heimilið af miklum myndarskap vann hún frá unga aldri við fjölmörg almenn störf af annáluðum dugnaði og samviskusemi. Liggja auk þess eftir hana ógrynni listilega gerðra handverka, einkum á sviði hannyrða og postulínsmálunar, eins og fjölskylda hennar, frændfólk og vinir hafa fengið að sjá og njóta í eigin ranni gegnum tíðina. Helga verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 12. maí, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Á yngri árum mínum hitti ég Helgu dóttir Hjartar á Breiðinni fyrst, er hún var að leik með bræðrum sínum í sandinum við Teigavör. Seinna kynntist ég henni betur þegar hún giftist æskuvini mínum Jóni Gíslasyni trésmíðameistara frá Gerði.

Helga var mikil kjarnakona, góð húsmóðir og myndarleg í alla staði.

Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja og einstaklega hjálpsöm.

Það eru liðin um.þ.b. 50 ár síðan þau hjónin lögðu leið sína austur fyrir fjall til að sækja börnin mín eftir að þau fréttu að konan mín hefði lagst á spítala.

Í dag finn ég til þakklætis til þeirra beggja fyrir alla hjálpina sem skipti okkur fjölskylduna miklu máli, góðan vinskap og tryggð alla tíð.

Ég og börnin mín vottum  fjölskyldu hennar samúðar.


Oddgeir Ottesen

Nú þegar við kveðjum ömmu Helgu hinstu kveðju koma margar minningar upp í hugann.

Efst í huga okkar er þakklæti fyrir það mikla örlæti sem hún sýndi okkur. Það var alveg sama hvenær maður kom í heimsókn, hún átti alltaf eitthvað að borða, nóg af kaffi og tíma til að spjalla. Í slíkum heimsóknum var hægt að ræða tæpitungulaust um menn og málefni líðandi stundar og aldrei lá amma á skoðunum sínum. Hún var kona sem vissi hvað henni fannst og fyrir hvað hún stóð.

Það var aldrei svo að einhver gæti mögulega farið svangur frá ömmu, hún sá til þess að maður borðaði vel af því sem hún bauð upp á og jafnvel fyllti hún sjálf á diskinn fyrir mann, ef henni þótti maður ekki hafa borðað nóg.

Notalegt andrúmsloft sem einkenndi heimili hennar er það sem við munum.

Með þessum örfáu orðum viljum við heiðra minningu góðrar ömmu sem gott var að eiga að.

Hilmar Þór, Helga Björk og Jón Örn.