Guðbjörg Þorsteinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 10. apríl 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum þriðjudaginn 20. október sl. Foreldrar hennar voru Kristín Jónsdóttir frá Eskiholti í Mýrahreppi, f. 24.5. 1891, d. 16.6. 1981, og Þorsteinn Þorsteinsson frá Vatnsdal í Fljótshlíð, f. 16.6. 1893, d. 14.9. 1937. Systkini Guðbjargar voru: Þórarinn, f. 1923, d. 1984, og Þorsteinn, f. 1927, d. 2008. Guðbjörg giftist 27. febrúar 1954 Kristjóni Ingibert Krisjánssyni, f. 25.9. 1908, d. 18.10. 1981. Foreldrar hans voru; Danfríður Brynjólfsdóttir, f. 25.6. 1884, d. 17.8. 1958, og Kristján Pálsson 25.8. 1880, d. 21.10. 1962. Börn Guðbjargar og Kristjóns eru: 1) Steina Kristín hársnyrtir, f. 30.1. 1955, Börn: a) Guðbjörg Lárusdóttir, nemi við ferðamálafræði við Háskólann á Hólum, f. 2.8. 1975, maki Jónas Halldór Jónasson, f. 1970. Börn þeirra eru Jónas Elvar, f. 2003, og Lárus Steinar, f. 2008, c) Lára Kristjana Lárusdóttir arkitekt, f. 19.12. 1980. 2) Danfríður hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 19.6. 1957, maki Sverrir Jónsson læknir, f. 15.6. 1954. Börn: a) Kristjón tölvunarfræðingur, f. 26.6. 1980, Vigdís, nemi í lífefnafræði við HÍ, f. 11.4. 1988, og Kristín, nemi við VÍ, f. 12.8. 1992. 3) Kristján Brynjólfur, f. 30.5. 1962, d. 14.1. 1981. Guðbjörg ólst upp í Vestmannaeyjum lengst af í Hjálmholti. Hún starfaði við skrifstofustörf hjá Einari Ólafssyni og Co til ársins 1953 er hún fór að vinna sumarlangt á Bessastöðum við ríkisbúið sem þá var. Þar kynntist hún Kristjóni, eiginmanni sínum, sem starfaði sem bílstjóri við forsetaembættið. Þau hófu sinn búskap á Bessastöðum. Guðbjörg sinnti börnum sínum og heimili auk aldraðrar móður, en þess utan starfaði hún við vörslu Bessastaðakirkju, aðstoðaði í veislum, tók þátt í dúntekju á staðnum og fleira. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur 1977, starfaði hún þá um tíma við afgreiðslustörf í Ingólfsbrunni í Miðbæjarmarkaði. Guðbjörg var félagslynd, starfaði m.a. í Kvenfélagi Bessastaðahrepps. Hún var mikil fjölskyldumanneskja og tileinkaði líf sitt og sál stórfjölskyldunni og vinum sínum. Guðbjörg dvaldi í Foldabæ, heimili fyrir m.a. alzheimer-sjúklinga í 6 ár og átti þar góðar stundir, 2 síðustu árin dvaldi hún á Droplaugarstöðum. Útför Guðbjargar fer fram frá Bessastaðakirkju í dag, 28. október, og hefst athöfnin kl. 15.

Fallin er í valinn frænka mín kær, hún Guðbjörg. Þótt vitað væri nokkuð lengi að Gugga frænka væri að kveðja þennan heim þá kom kallið á óvart.

Gugga bjó á Bessastöðum með manni sínum Kristjóni, forsetabílstjóra. Föðuramma mín bjó hjá þeim. Ég man eftir mér sem stelpa að heimsækja Guggu á Bessastaði. Ævintýrin þar voru eins og þau gerast best hjá stelpu úr Eyjum. Farið var í réttir, hænsnunum gefið og eggin týnd frá þeim, tekið slátur og mikið bakað enda gestkvæmt hjá Guggu. Ég ólst upp við að Gugga frænka, systir pabba, væri bústýra á Bessastöðum og ekkert síðri en sjálfur forsetinn í mínum augum sem barn.

Svona liðu árin. Gugga og fjölskylda voru alltaf efst á blaði hjá mér. Þegar gaus í Eyjum 1973 var gott að eiga Guggu að. Ég var komin með fjölskyldu og Gugga frænka bjargaði okkur með húsnæði. Það var yndislegur tími í eitt og hálft ár í næsta húsi við Guggu sem var syni mínum sem amma. Við áttum okkar bestu stundir á Bessastöðum. Fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Þegar ég, Sverrir og synir okkar vorum á ferðinni var alltaf veisluborð hjá þér elskulega frænka, bæði á Bessastöðum og í Skipholtinu. Ég hef reynt elsku Gugga að baka góðu jólakökuna þína eftir sömu uppskrift en hún verður aldrei eins og þín.

Ég og mín fjölskylda þökkum þér Gugga mín fyrir allt í gegnum tíðina.

Kæru Steina, Danfríður og fjölskyldur, við sendum ykkur samúðarkveðjur í sorginni. Guð geymi ykkur.

Kolla og fjölskylda.