Þórður Pálmi Jónsson fæddist í Keflavík 13. apríl 1972. Hann lést í Danmörku 4. apríl 2009. Foreldrar hans eru Hrafnhildur Jóhannsdóttir frá Hólmavík og Jón Pálmi Þórðarson frá Sandgerði. Þórður Pálmi ólst upp í Sandgerði, en síðastliðin 13 ár bjó hann í Danmörku þar sem hann starfaði við íslenska hestinn. Hann lætur eftir sig fjögur börn, Alexander Pálma, Jón Pálma, Tristan Pálma og Evu Maríu. Útför hans var gerð frá Hoven kirke í Danmörku í gær.

Kæri Þórður.

Það tekur mig sárt að þurfa að skrifa þessa hinstu kveðju. Þú varst mér alltaf innan handar þegar ég þurfti á að halda.  Það kom vissulega fyrir að við elduðum grátt silfur saman eins og sönnu tengdafólki sæmir og oft var ég ekki sammála þér en það breytir því ekki að þú hafðir mikil áhrif á mig og mitt líf. Fyrir það er ég afar þakklát.

Fyrir tilstilli þína er ég í dag dönskukennari, en ef þú hefðir ekki aðstoðað mig við að fá vinnu í Hundested á sínum tíma og skipað öllum að tala við mig dönsku en bara langsomt, þá hefði ég aldrei kynnst þessu yndislega tungumáli sem svo fáir kunna að meta, en þú talaðir svo óaðfinnanlega að Danir heyrðu ekki að þú værir ekki innfæddur. Fyrir þetta er ég afar þakklát. Þú varst alltaf góður við son minn og tilbúinn að leyfa honum að prófa hin ýmsu tæki eins og fjórhjól og sláttutraktora og hann á góðar minningar með þér og Jóni Pálma. Fyrir það er ég afar þakklát. Ég lít þannig á að þú hafir hjálpað systur minni mikið þegar þú bentir henni á að hún þyrfti mögulega á hjálp að halda, sem hún og sótti sér. Fyrir það er ég afar þakklát.

Nú ertu farinn og þegar ég lít til baka yfir síðastliðið hálfa árið og allt sem gerst hefur á þeim tíma, þá skil ég allt mun betur. Allt er eins og það á að vera eru mín kjörorð og því verð ég nú að trúa þó erfitt sé. Þú hefur lokið þínu verkefni í þessu lífi og átt framundan frekari verkefni sem ég á ekki eftir að verða vitni að en ég kveð þig kæri vinur með trega í hjarta og söknuði og von um að þessi jarðvist þín verði ekki til einskis, heldur lærdómur um mikilvægi þess að sækja sér hjálp þegar þannig stendur á.

Elsku Þórður farðu í friði og elsku Bergey, Alexander, Jón Pálmi, Tristan og Eva María og Jón og Habbý, Sibba og fjölskylda og Jói og fjölskylda, Guð veri með ykkur og veiti ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Katrín Júlía.

Enn er höggvið skarð í litla hópinn okkar. Árgangur 72 úr Grunnskóla Sandgerðis hefur upplifað sorgina áður, því þrír drengir úr árganginum okkar hafa nú kvatt þennan heim.  Í þetta sinn hann Þórður Pálmi Jónsson.  Okkur setur hljóð og við hugsum af hverju?  Við munum eftir Þórði í barnaskóla sem hressum strák sem hafði djúpar hugsanir.  Hann var góður námsmaður og vissi mikið um hluti sem flest okkar höfðu ekki leitt hugann að.  Áhugamálin hans voru fyrst og fremst hestarnir og svo tónlistin.

Þegar Þórður flutti til Danmerkur með Bergeyju unnustu sinni fyrir um 15 árum minnkuðu samskiptin eins og gengur og gerist. Óli Þór, svili hans og félagi, var þó duglegur að færa okkur fréttir og auðheyrt var að í Danmörku ætlaði hann sér að hann vera til frambúðar.  Þar rak fjölskyldan hestabúgarð og gistiheimili í nágrenni við Billund og þannig gátu nokkur okkar hitt á kappann í sínu besta formi.

Fyrir þremur árum þegar við misstum bekkjarfélaga okkar þá komst Þórður ekki til að vera við útförina.  Hann sagði síðar að hann sæi mikið eftir því að hafa ekki komið og hitt hópinn það skipti svo miklu máli að halda tengslin, sérstaklega af því við vorum svo fá í bekknum, sagði hann.  En nú er komið að því að við hittumst aftur, Þórðar vegna. Tilfinningin er erfið og við hefðum helst kosið að hittast af öðru tilefni.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við kveðja góðan vin okkar og bekkjarfélaga.  Megi Þórður Pálmi finna friðinn sem hann leitaði að á fáki sínum.

Elsku Hrafnhildur, Jón, Jóhann, Sigurbjörg, Bergey og börn og aðrir aðstandendur. Megi algóður Guð hjálpa ykkur á þessum erfiðu tímum og gefa gefa ykkur styrk í sorginni.

Bekkjarfélagar úr Grunnskóla Sandgerðis, árgangur 1972.

Við kveðjum hér vænan dreng, Þórð Jónsson.  Við kynntumst Dodda í Danmörku og hittum hann fyrst á hestamannamóti þar sem hann var einnig að keppa og sýna hesta.  Hann vakti strax athygli manns þar sem hann var ógleymanlega klæddur, í köflóttum buxum og með derhúfu í stíl, alltaf jafn flottur og ólíkur hinum hestamönnunum.  Það tókust með okkur góð kynni og má segja að við höfum átt þátt í, að hann fluttist alfarið til Danmerkur og stór hluti af fólkinu hans með.  Þegar Doddi tók sér eitthvað fyrir hendur þá var það með heilum og fullum hug.  Hann, Bergey og foreldrar hans komu sér vel fyrir og Doddi var eini íslendingurinn sem við höfum þekkt sem  saknaði ekki íslensks lambakjöts neitt sérstaklega.  Það hittist svo skemmtilega á að fleiri barnanna okkar áttu sömu afmælisdaga þó þau væru ekki fædd á sömu árunum og það var reglulega gaman að heimsækja þessa stórfjölskyldu, alltaf tekið vel og hlýlega á móti manni. Stemningin var ekki ósvipuð og maður þekkti á íslensku sveitaheimili og maður átti ekki leið hjá án þess að koma þar við.

Enginn annar en Doddi hefur þorað að hringja heim til okkar á morgnana og reynt að vekja húsbóndann með að tala hátt og ósparlega inn á símsvarann.  Stundum söng hann inn á símsvarann og þær kveðjur geymdi maður lengi.  Á hverju ári hringdi hann á afmælisdag húsbóndans þ. 12. apríl og óskaði honum til hamingju og minnti um leið á sinn eiginn afmælisdag sem var daginn eftir og hló.

Þótt fjarlægð hafi aðskilið síðustu árin þá heyrðumst við reglulega, oftast í síma og ekki var bara talað um hestamennsku, heldur líka um hin ýmsu lífsins mál.

Elsku Bergey, Sibba, Habbý, Jón og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur

Gurri og Dana.

Minn heitt elskaði bróðir, þú ert frá okkur farinn, allt of snemma.

Lífið verður ekki það sama án þín. Það mun ávalt vera stórt tómrúm í mínu hjarta og þín er og verður alltaf saknað.

Allar stundirnar í hesthúsinu, á hestamótunum og bara yfir kaffibollanum verða aldrei eins án þín. Þú varst alltaf til staðar þegar á reyndi og gerðir allt til þess að hjálpa öðrum, ekki síst litlu systir, sem vissi hvert átta að leita við hið minnsta. Allt sem ég ekki vissi, vissir þú, allt sem ég ekki gat, gast þú. Enda voru símtölin mörg og kaffibollarnir ekki fáir, þess verður sárt saknað.

Góða stemningin var alltaf þar sem þú varst, enda söngur og gítar ein af þínum mörgu sterku hliðum. Þú varst ómissandi gleðigjafi, alltaf með svar við öllu, ýmist í gríni eða alvöru.

Hestamótin án þín get ég enn ekki hugsað mér eða séð fyrir mér. Þú varst alltaf sá fyrsti sem ég hringdi í þegar komið var á mótsstað og leiðir skildu fyrst að móti loknu. Nú verður allt svo tómt og einmannalegt en ég veit þú verður með mér, bara á annan hátt.

Líf þitt hafði tekið stórum breytingum, sem bæði höfðu góð og slæm áhrif á þína líðan. Þú varst glaður, en á hinn bóginn var allt svo erfitt, sem gerði þig leiðann. Það er erfitt að hugsa til þess hversu illa þér hefur liðið og hversu erfitt lífið var við þig upp á það síðasta. Ef ég bara hefði vitað hversu illa þér leið, þá hefði ég komið, það veistu, en þú valdir að finna friðinn, og ég virði það, þó erfitt sé.

Guð veri með þér elsku bróðir minn, ég veit að þér líður vel núna og það gefur mér hlýju í hjarta, þrátt fyrir stórt tab og mikla sorg, sem ég aldrei kemst yfir.

Ég hlakka til að hitta þig aftur, þegar sá tími kemur, þegar þú kemur með 20 hrossa stóð og 3 hesta í taumi, og einn beislaðann handa mér. Þá fyrst byrjar ferðalagið, elsku bróðir minn.

Ég mun ávalt sakna þín. Blessuð sé minning þín.


Þin systir,


Sigurbjörg Jónsdóttir

Minn heitt elskaði bróðir, þú ert frá okkur farinn, allt of snemma.

Lífið verður ekki það sama án þín, það mun ávallt vera stórt tómrúm í mínu hjarta og þín er og verður alltaf saknað.

Allar stundirnar í hesthúsinu, á hestamótunum og bara yfir kaffibollanum verða aldrei eins án þín. Þú varst alltaf til staðar þegar á reyndi og gerðir allt til þess að hjálpa öðrum, ekki síst litlu systur, sem vissi hvert átta að leita við hið minnsta. Allt sem ég ekki vissi, vissir þú, allt sem ég ekki gat, gast þú. Enda voru símtölin mörg og kaffibollarnir ekki fáir, þess verður sárt saknað.

Góða stemningin var alltaf þar sem þú varst, enda söngur og gítar ein af þínum mörgu sterku hliðum. Þú varst ómissandi gleðigjafi, alltaf með svar við öllu, ýmist í gríni eða alvöru.

Hestamótin án þín get ég enn ekki hugsað mér eða séð fyrir mér. Þú varst alltaf sá fyrsti sem ég hringdi í þegar komið var á mótsstað og leiðir skildu fyrst að móti loknu. Nú verður allt svo tómt og einmannalegt en ég veit þú verður með mér, bara á annan hátt.

Líf þitt hafði tekið stórum breytingum, sem bæði höfðu góð og slæm áhrif á þína líðan. Þú varst glaður, en á hinn bóginn var allt svo erfitt, sem gerði þig leiðann. Það er erfitt að hugsa til þess hversu illa þér hefur liðið og hversu erfitt lífið var við þig upp á það síðasta. Ef ég bara hefði vitað hversu illa þér leið, þá hefði ég komið, það veistu, en þú valdir að finna friðinn, og ég virði það, þó erfitt sé.

Guð veri með þér elsku bróðir minn, ég veit að þér líður vel núna og það gefur mér hlýju í hjarta, þrátt fyrir stórt tab og mikla sorg, sem ég aldrei kemst yfir.

Ég hlakka til að hitta þig aftur, þegar sá tími kemur, þegar þú kemur með 20 hrossa stóð og 3 hesta í taumi, og einn beislaðann handa mér... Þá fyrst byrjar ferðalagið elsku bróðir minn.

Ég mun ávallt sakna þín.

Blessuð sé minning þín.

Þin systir,


Sigurbjörg Jónsdóttir.