Kristín Pétursdóttir fæddist í Syðri-Hraundal í Álftaneshreppi, Mýrasýslu, 31. maí 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund laugardaginn 21. mars 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Pétur Þorbergsson, bóndi í Syðri-Hraundal, f. 29. september 1892, d. 12. október 1973 og Vigdís Eyjólfsdóttir, húsfreyja í Syðri-Hraundal, f. 8. mars 1889, d. 13. júní 1978. Systkyni Kristínar eru: Sigríður, f. 1917, d. 2002, Skúli, f. 1919, d. 1989, Guðrún, f. 1922, d. 1994, Katrín, f. 1924, d. 2005, Þorbergur, f. 1927, Sigríður Soffía, f. 1928 og Eyjólfur, f. 1930. Kristín giftist 7. október 1949 Kjartani Þórarni Ólafssyni frá Leirum undir Austur-Eyjafjöllum, bónda og síðar fiskmatsmanni, f. 2. apríl 1913, d. 25. apríl 1990. Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson, bóndi á Leirum, f. 7. nóvember 1872, d. 20. júlí 1955 og Margrét Þórðardóttir, húsfreyja á Leirum, f. 14. maí 1872, d. 16. janúar 1947. Börn Kristínar og Kjartans eru: Vigdís, f. 4. spetember 1946, gift Þorvarði Þórðarsyni. Börn þeirra eru Kjartan, Þórður og Kristín Ólöf. Pétur Sævar, f. 17. apríl 1949, kvæntur Ingibjörgu Hrönn Sveinsdóttur. Börn þeirra eru Emelía Margrét og Kjartan Örn. Áður átti Pétur Halldóru Kristínu. Ólafur Marel Kjartansson, f. 29. mars 1957, kvæntur Guðnýju Védísi Guðjónsdóttur. Dætur þeirra eru María Védís og Kristín Þóra. Barnabarnabörn Kristínar og Kjartans eru orðin sjö í réttri aldursröð: Vigdís Lea, Anna María, Magnús Breki, Rebekka Sif, Sævar Elí, Sara Aurora og Emelía Karen. Að loknu skyldunámi í sinni heimasveit gekk Kristín einn vetur í unglingaskóla í Reykholti í Borgarfirði. Lengst af ævi sinnar var Kristín húsmóðir en eftir að börnin uxu úr grasi vann hún við afgreiðslustörf og sem fiskverkakona. Kristín og Kjartan hófu búskap sinn að Leirum undir Austur-Eyjafjöllum en fluttu til Vestmannaeyja árið 1957. Þau bjuggu að Túnsbergi í Vestmannaeyjum fram að eldgosi, 1973, en fluttust þá til Þorlákshafnar og bjuggu sér heimili í næsta húsi við Vigdísi dóttur sína til ársins 1986 er þau settust að í Hraunbænum í Reykjavík. Þar áttu þau heimili, fyrst í nágrenni við Pétur son sinn, en eftir andlát Kjartans, 1990, flutti Kristín í þjónustuíbúð fyrir aldraða að Hraunbæ 103. Síðustu mánuðina dvaldi Kristín á hjúkrunarheimilinu Grund og naut þar einstakrar aðhlynningar og umönnunar. Kristín verður jarðsungin frá Árbæjarkirkju í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 31. mars kl. 13:00.

Á kveðjustund hvarflar hugurinn til baka, til æskuáranna að Leirum (Mosunum) undir austur Eyjafjöllum, til Kristínar og Kjartans föðurbróður okkar.  Margar góðar minningar eigum við systkinin um Stínu. Hún var mikil jafnlyndiskona, og ákaflega góð og þolinmóð við okkur systkinin, sem dvöldum  á sumrin  í sveitinni  hjá Kjartani frænda.

Nýlendan var næsti bær við hliðina, þar var Gunna frænka, við systkinin skiptum okkur niður á bæina. Það var blessað veganesti að hafa fengið að dvelja hjá svo góðu fólki.

Við minnumst  góðrar konu með þakklæti fyrir allar góðar samverustundir, hlýhug, tryggð og vináttu við foreldra okkar og fjölskyldu.  Blessuð sé minning hennar.  Við sendum börnunum hennar Vigdísi, Pétri, Óla  og öllum ástvinum okkar dýpstu samúðarkveðju.

Ó, þekkirðu' ekki undurfagra nafnið,
er oss Guð til bjargar lér.
Um allan heim er um það lofgjörð sungin,
yfir lönd og höfin þver.

Er öllum nöfnum öðrum förlast ljómi,
eigi bliknar Jesú nafn.
Þess dýrðarljómi mun um aldir alda,
ævinlega haldast jafn.


Öllum nöfnum æðra´er nafnið Jesús,
og ekkert fegra´á jörðu hér.
Því ekkert nafn er annað til sem frelsar.
Aðeins nafnið sem hann ber.


Það skelfdu hjarta flytur frið af hæðum,
færir hryggum sálum ró.
Er stormar æða sterkir mér í brjósti,
stillt það getur vind og sjó.

(Höfundur: Allan Törnberg
Texta þýddi :Magnús Runólfsson.)


Vinarkveðja,
l

Sirrý, Ólafur, Trausti og Hafdís Laufdal.