Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir fæddist á Siglufirði 13. júlí 1925. Hún lést 25. mars 2009. Foreldrar hennar voru Hallgrímur Jónsson, f. 4. mars 1888, d. 15 janúar 1972, og Sólveig Halldórsdóttir, f. 7. nóvember 1897, d. 9. júní 1969. Systkini hennar voru Ingunn Helga, Kjartan, Hólmfríður Þórleif, Jón Friðrik, Jónína og Sævar Júní. Eiginmaður Margrétar var Björn Emil Jónsson, f. 1.7. 1919, d. 30.1. 1991. Sonur hennar er Hallgrímur Jón Ingvaldsson. Börn þeirra eru Hans Jón Björnsson, Sólveig Ósk Björnsdóttir, Emil Sæmar Björnsson, María Ingunn Björnsdóttir, Björn Elías Björnsson, Halldór Guðjón Björnsson, Sveinn Lúðvík Björnsson og Jón Hafberg Björnsson. Útför Margrétar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 3. apríl, kl. 13.

Þegar mér bárust tíðindin, að hún Margrét vinkona mín hefði látist að hjúkrunarheimilinu Eir þ. 25. mars s.l. þá setti mig hljóða. Þar sem ég vissi um hennar veikindi, sem vissulega höfðu verið mikil og ströng, og svo það að aldurinn færðist yfir hana og samkvæmt öllum rökum þá hlaut að koma að þessari stund, þá var það nú samt þannig að mér fannst að hún myndi alltaf lifa og vera nærri eins og hún var vön.

Yfir mig helltust  margar og góðar minningar frá því er ég hitti hana fyrst og þar til nú. Þegar ég flutti inn í Ásgarð 137 í mars 1988, ég bjó við hliðina á henni Margréti í 10 ár  með sonum mínum 3, við kynntumst því mjög vel og hefur hún Margrét að mörgu leyti verið mín fyrirmynd. Ég hef oft hugsað um það hvernig kona eins og hún var, gat verið svona eins og hún nákvæmlega var, hún var með svo gott geð, góðar gáfur, mikla jákvæðni og einnig mikla  þolinmæði. Hún var líka alltaf glöð, alltaf góð við aðra, alltaf til staðar fyrir alla, sífellt hjálpandi fólki sem átti erfitt með sitt líf og með hughreystandi tali, hvatningu, gleði og umfram allt jákvæðni sinni gat hún svo sannarlega komið mörgu góðu til leiðar, sem var æði oft. Hún var líka dugleg að biðja fyrir fólki, um vernd og gæfu því til handa, þrátt fyrir miklar sorgir á sínu lífshlaupi.

Þegar ég flutti í Ásgarðinn, þá kom hún fljótlega yfir til mín, kynnti sig og spjallaði við mig og bauð mig velkomna. Litlu seinna kom hún aftur að spjalla meira og eitt af því sem hún sagði við mig þá, var að maðurinn minn hefði verið að flytja með mér, mér brá auðvitað mikið vegna þess að maðurinn minn hafði látist 7 árum áður, og ég spurði hana hvort ég hefði ekki sagt henni frá því að svo væri, jú, jú sagði Margrét þú sagðir mér það, en hann hefði nú samt flutt með mér og strákunum, þá vissi ég að hún var mikill sjáandi og ég hef oft hugsað um það hvort hún hafi verið svona miklu meiri og merkilegri persóna en margir aðrir vegna þess, en það get ég aldrei verið viss um og skiptir heldur engu máli.

Margrét sagði alltaf það sem henni bjó í brjósti og hafði skoðanir á öllum hlutum, t.d. sagði hún mér einu sinni frá því að heimilishjálpin hennar væri ekki starfi sínu vaxin, þessar ungu konur kynnu bara ekki að þrífa, hvernig þetta væri nú eiginlega orðið allt saman, Margrét var nefnilega sérlega snyrtileg og fáguð kona og þótti henni þetta mjög miður.

Hún hafði líka ákveðnar skoðanir á umhverfi sínu, t.d. hvernig húsið ætti að vera á litinn þegar málað var, hvernig garðarnir ættu helst að vera o.s.fv. Hún hafði líka fullt af grænum fingrum og var ég oft undrandi á því hvað blómin hennar inni sem úti voru sérlega gróskumikil og flott, og ég líklega smá öfundsjúk út í það, þá sagði hún mér að í þeim byggju blómálfar, og ég hef trúað því síðan.

Mér eru líka mjög minnisstæð öll okkar góðu og nánu samtöl, bæði á meðan hennar maður Björn var á lífi og eins eftir að hún varð ein, við töluðum um alla skapaða og óskapaða hluti, trúnaður,  heiðarleiki og virðing var alltaf í okkar samskiptum, því þannig var Margrét sjálf.  Henni þótti alltaf mjög miður ef hún vissi að einhverjir væru ekki sáttir og eins talaði hún oft um það hvað hljóðnað hafði mikið í  raðhúsinu við Ásgarð 131 - 147, eftir að öll börnin sem þar höfðu átt heima og alist þar upp, uxu úr grasi og voru farin að heiman, því svo komu mun barnfærri fjölskyldur í staðinn fyrir þær sem höfðu flutt burtu, henni þótti alltaf mjög gott að sjá og heyra í börnum. Og má þar til sanns vegar færa að oft á tíðum var margt gesta hjá Margréti, bæði fjölskyldumeðlimir sem og aðrir. 7 af 9 börnum hennar á eru á lífi og auðvitað eru komin mörg yndisleg barna og barnabarnabörn. Um tíma ólst einnig upp hjá þeim Margréti og Birni stúlka, sem henni þótti líka ákaflega vænt um.

Nokkrum sinnum fórum við líka saman upp í Réttó að kjósa í kosningum til alþingis, til sveitastjórna eða til forseta, klæddum okkur upp og ákváðum svo að kjósa skyldi rétt og allir voru glaðir. Einstaka sinum fórum við saman að versla, og alltaf jafn gaman að vera í förum með Margréti, hún síhlæjandi og hafandi gaman að öllu.
En það var aðeins eitt sem hún Margrét vinkona mín var ekki neitt hrifin af og það voru ferðalög, vildi helst vera heima, það var langbest, sagði hún.  Einnig er mér það  mikil ánægja að hafa líka kynnst sumum af hennar börnum og barnabörnum, fengið að sjá myndir hjá Margréti af nýjum fjölskyldumeðlimum sem höfðu fæðst og voru svo sannarlega hennar fjölskylda, hún var stolt af sinni fjölskyldu og er ærin ástæða til, allt dugnaðarfólk vorum við sammála um.



Margrét mín, kæra vinkona, nú kveð ég þig, ég mun sakna þín og minningin um þig mun lifa í hjarta mínu.

Aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur og bið góðan guð að gefa þeim  styrk og huggun í sorg sinni.



Halla Guðjónsdóttir.