Elín Bjarnveig Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 17. nóvember 1923. Hún andaðist á Landakoti 25. mars sl. Foreldrar hennar voru Ólafur P. Ólafsson veitingamaður, f. 1898, d. 1965, og Helga Pálína Sigurðardóttir, f. 1901, d. 1987. Elín var elst níu systkina. Eftirlifandi systkini Elínar eru: Ida, Magnús, Þorgeir, Sigurður Ingvi og Edda. Látin eru Rúna, Dísa og Lilla. Fyrsti eiginmaður hennar var Henning Johannessen, þau eignuðust eina dóttur, Helgu Hedvig Hall (f. Johannessen), f. 1942. Börn Helgu: Elizabeth, Sherry Lynn og John Hall III. Elín og Henning skildu. Önnur dóttir Elínar er Anna Herskind, f. 1944, sem alin var upp af kjörforeldrum. Annar eiginmaður Elínar var Magnús Ingimarsson, smiður frá Akranesi, þau eignuðust eina dóttur, Ásdísi Báru, f. 1947, maki Ágúst Schram, f. 1943. Börn Báru og Ágústs: Ólafur Finnbogi, Magnús, Þórdís, Unnur Lísa og Anna Hlín. Elín og Magnús skildu. Árið 1951 giftist Elín Gunnlaugi Birgi Daníelssyni, f. 1931, d. 1998. Elín og Gunnlaugur eignuðust fimm börn: 1) Guðmund Inga, f. 1951, maki María Busk, f. 1951. Börn Guðmundar Inga og Maríu: Íris, Ingibjörg, Guðmundur Ingi, María Hrönn og Katrín Ósk. 2) Ólaf Þór, f. 1955, maki Svanhvít Jóhannsdóttir, f. 1957. Börn Ólafs Þórs og Svanhvítar: Ólafur Páll, Ingunn María og Halldóra Jóhanna. 3) Gunnlaug Birgi, f. 1956, maki Signý Guðbjörnsdóttir, f. 1955. Börn Gunnlaugs Birgis og Signýjar: Drífa Birgitta, Þorsteinn Mar, Sara Hrund, Ástrós og Hlaðgerður Íris. 4) Þórhall Ölver, f. 1958. Börn Þórhalls Ölvers: Elín Mjöll, Karen Drífa og Ástþór Magnús. 5) Fanneyju, f. 1960. Sonur Fanneyjar: Hafsteinn Þór. Elín og Birgir skildu. Barnabarnabörn Elínar eru 15. Elín gekk í Landakotsskóla og síðar í Flensborg. Ung fór hún að vinna á veitingastöðum föður síns, fyrst á Brytanum í Hafnarstræti og síðar á fleiri stöðum. Í mörg ár sá Elín um reksturinn á Kaffistofunni í Hafnarstræti 16 eftir að faðir hennar veiktist. Meðfram þeim rekstri og í mörg ár þar á eftir vann hún við framreiðslustörf á veitinga- og skemmtistaðnum Lídó og síðar á Hótel Sögu eftir að hótelið tók til starfa. Eftir að Elín hætti að vinna við framreiðslustörf vann hún í mörg ár við móttöku- og afgreiðslustörf hjá dóttur sinni Báru sem á og rekur Dansrækt J.S.B. Útför Elínar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 7. apríl, kl. 15.
Sem unglingur var hún í sveit á Kalastöðum í Hvalfirði. Á stríðsárunum var hún þerna á norska skipinu Lyru og sigldi á England. Eina ferðina fór Þórdís systir hennar með henni. Elín heimsótti mig í Bandaríkjunum, er hún var þerna hjá Eimskip. Hún kynntist fyrsta manni sínum Henning er hún starfaði hjá föður sínum á veitingastað á Skólavörðustígnum, en Henning var í Norska hernum á Íslandi. Magnúsi öðrum eiginmanni sínum kynntist hún, er hún var ráðskona hjá föður okkar í Belgsholti. Þriðja eiginmanni sínum, Gunnlaugi Birgi, kynntist hún er hún starfaði hjá föður okkar á Brytanum í Hafnarstræti. Maður hennar Gunnlaugur var hægri hönd föður okkar er hann rak skemmtistaðinn Röðul. Má vel segja að þessi duglega systir mín hafi verið hægri hönd föður okkar í störfum hans.
Elín heimsótti okkur Dísu systir er við vorum í sveit á Geitaskarði í Langadal og tók mig með sér heim. Er ég hafði setið án árangurs í þrjá vetur í Verslunarskólanum talaði Elín við Pálma Hannesson, nokkuð sem ég hefði aldrei þorað að gera, og kom mér í landsprófsdeild MR. Sennilega heillaði hún Pálma með framgöngu sinni og útliti. Ég hef oft hugsað hvernig á því stendur að systur okkar fengu allan kjarkinn í vöggugjöf, sem við strákarnir hefðum með réttu átt heimtingu á, en við erum jú sterkara kynið, en ekki þýðir að fást um það. Mér fannst rétt að rifja þetta upp vegna afkomenda hennar.
Ég var altaf mjög hreykinn af þessari fallegu, kjarkmiklu systur minni og mun sakna hennar.
Sigurður Ingvi Ólafsson.