Arnfríður Þorsteinsdóttir fæddist á Syðri- Brekkum á Langanesi 7.nóvember 1917. Hún lést á dvalarheimilinu Uppsölum Fáskrúðsfirði 11 októmber síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Guttormur Einarsson, f. 9. jan. 1865 í Krossavík í Vopnafirði, d. 10. apríl 1941, og Halldóra Halldórsdóttir, f. 8. júlí 1879 í Leirhöfn á Sléttu, d. 18. okt. 1948. Systkini Arnfríðar voru Dýrleif, f. 28. feb. 1903, d. 21. jan. 1960, hennar maður var Þórhallur Jónasson; Halldór, f. 6. júní 1904, d. 17. maí 1990, hans kona var Helga Gunnlaugsdóttir; Katrín Stefanía, f. 21. júní 1907 d. 19.febrúar 2001, hennar maður var Halldór Halldórsson; Jörgína Þórunn, f. 29. apríl 1910, d. 2. ágúst 1936, hennar maður var Garðar Hólm Stefánsson; Jóhanna Margrét, f. 7. sept. 1912 d. 5. október 2005; Snælaug Fanndal Þorsteinsdóttir f.11.des.1915,d.24.04.1998 og Kristján, f. 29. maí 1921, d. 4. júlí 1991, hans kona er Amanda Joensen. Arnfríður giftist eiginmanni sínum til 64 ára Jónasi Pétri Jónssyni 24.maí 1942. Foreldrar hans voru Jón Brunsted Bóasson bóndi, f. 27.7.1889 d. 17.3.1978 og Benedikta Guðlaug Jónasdóttir húsmóðir, f. 24.5.1893 d. 16.11.1976. Börn Arnfríðar og Jónasar : 1) Eðvald f. 13.6.1943 d. 24.5.1969. Maki hans var Ásdís Birna Jónsdóttir f. 27.2.1948. Dóttir Eðvalds og Kristínar I. Hreggviðsdóttur er Sigurbjörg Eðvaldsdóttir nemi. Maki hennar er Tómas Dagur Helgason flugstjóri. Dætur þeirra eru Inga Valdís og Íris Arna. 2) Pétur Brunsted f. 10.4. 1946 d. 18.9. 1953 3) Þórhallur verkamaður, f. 9.6. 1947 4) Benedikta Guðlaug starfsmaður í félagsþjónustu Fjarðabyggðar, f. 7.4. 1955. Maki hennar var Gestur Júlíusson. Þau skildu. Sonur þeirra er Eðvald starfsmaður Launafls, f. 20.1. 1986. 5) Halldór leiðtogi hjá Alcoa Fjarðaáli, f. 11.2.1959. Maki hans er Jóhanna Hallgrímsdóttir Innkaupafulltrúi hjá Alcoa Fjarðaáli. Dóttir þeirra er Sylvía Dögg myndlistarmaður, f. 8.4.1980. Sambýlismaður hennar er Ingi Örn Gíslason flugvirki og tónlistarmaður, f. 16.11.1979. Sonur þeirra er Andreas Halldór f. 7.1. 2009 Arnfríður stundaði ung ýmis störf til sjávar og sveita. En eftir að hafa kynnst Jónasi flutti hún með honum að Eyri í Reyðarfirði og helgaði líf sitt heimili og fjölskyldu. Hún tók virkan þátt í ýmsum félagsstörfum í byggðarlaginu, svo sem Kvenfélagi Reyðarfjarðar, Briddsfélagi Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og Kirkjukjór Reyðarfjarðarkirkju Útför hennar fer fram frá Reyðarfjarðarkirkju laugardaginn 17. október og hefst athöfnin kl. 14:00.


Mig langar í örfáum orðum að minnast hennar Fríðu tengdamóður Jóhönnu systur
minnar. Ég hef þekkt Fríðu frá árinu 1980, en best kynntist ég henni fyrir þremur
árum þegar við bjuggum báðar heima hjá Dóra og Jóhönnu um tíma. Þá kynntist ég því
vel hversu ljúf og góð hún var og gætti þess alltaf að þeir sem voru í samveru við
hana skorti ekki neitt og hún passaði upp á allt sitt fólk.

Á þessum tíma bauð ég Fríðu stundum út að keyra og hún var alltaf tilbúin að koma með. Fríða

sagði reyndar alltaf það sem hún hugsaði og t.d. fannst henni bílinn minn frekar
óhrjálegur. Hún hafði líka sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálunum og lá ekki á þeim.
Hún vildi ætíð vera mjög fín og halda sinni reisn. Það kom ekki síst í ljós þegar
við ræddum notkun göngugrindar sem hún átti. Fríða hélt að hún færi nú ekki að
spranga með hana niður í bæ þá héldu allir að hún væri of slöpp til að vera innan um
fólk.

Af tregaslóð tímans
án tafar gekkst þú,
jafn djarfleg til dauðans,
jafn dáðrökk og trú.
Og alein og óstudd
á eilífðar braut
hvarf sál þín með sigri
frá sorgum og þraut.
Hið mjúka milda vor
sín blóm á þig breiði
og blessi þín spor.
(Jóhannes úr Kötlum.)



Ég og Halli vottum Dóra, Jóhönnu, Sylvíu og öðrum aðstandendum okkur dýpstu samúð.

Guð blessi minningu góðrar konu.


Rósa Þóra.