Harry Sønderskov fæddist í Kastrup í Danmörku 17. desember 1927. Hann lést á Sólvangi í Hafnarfirði 27. mars sl. Foreldrar hans voru Aage Sønderskov og Johanne Mette Erna Andersen. Systkini hans voru Tove, Inger, Birthe og Werner tvíburabróðir hans. Þau eru nú öll látin. Harry kvæntist 28. október 1950 Guðbjörgu Guðmundsdóttur hárgreiðsludömu, f. 2.5. 1927, d. 13.4. 1975. Seinni kona Harrys var Guðrún Þór. Sonur hennar er Arnaldur. Harry og Guðrún skildu 1988. Synir Harrys og Guðbjargar eru 1) Gunnar, f. 22.8. 1950, kvæntur Ósk G. Hilmarsdóttur, f. 1951. Börn þeirra eru Bjarki Már, f. 1978, unnusta Ólöf Karen Sveinsdóttir. Dóttir Óskar og Kristjáns Friðþjófssonar, f. 1951, er Sigríður Linda Kristjánsdóttir, f. 1968, maki Sveinn Snorri Sighvatsson, f. 1971. Synir Sigríðar Lindu eru Dagur Snær Sævarsson, f. 1986, Daníel Freyr Sævarsson, f. 1993, og Arnar Helgi Sveinsson, f. 2004. 2) Helgi, f. 25.6. 1955. Fyrrverandi eiginkona hans er Þóra Kolbrún Sigurðardóttir, f. 1954. Börn þeirra eru a) Ástþór, f. 1976, sambýliskona Hildur Erlingsdóttir, sonur hennar er Adam Freyr Víðisson, f. 2003. b)Guðbjörg, f. 1980, sambýlismaður Viðar Ottó Brink. Börn þeirra eru Erika Brink, f. 2002, og Emilia Brink, f. 2008. c) Árný, f. 1982, sambýlismaður hennar er Stefán Jarl Martin. Börn þeirra eru Monika Rós Martin, f. 2004, og Mikael Jarl Martin, f. 2008. Dóttir Helga og Ásu Oddsdóttur, f. 1956, er d) Diana Alma, f. 1997. Dóttir Helga og Írisar Högnadóttur, f. 1961, er e) Vera, f. 1999. Sambýliskona Helga er Guðbjörg Hákonardóttir. Börn hennar eru Íris Arnlaugsdóttir, f. 1976, og Jón Orri Sigurðarson, f. 1985. Harry lærði járnsmíði í Danmörku 1948. Harry hitti Guggu, stóru ástina í lífi sínu, 1949, þegar hún kom til Danmerkur að kynna sér nýjustu tískustraumana í hárgreiðslu ásamt vinkonum sínum. Þau hófu fljótlega búskap í Danmörku. Þótt lífið væri ágætt í Danaríki var heimþrá Guggu sterk og eftir átta ára búskap þar fluttu þau til Íslands. Harry starfaði fyrst eftir komuna til Íslands hjá Alexander Guðjónssyni, móðurbróður Guggu. Fljótlega stofnaði hann eigin smiðju sem sérhæfði sig í handriðasmíði og þótti dverghagur. Víða standa verk Harrys enn við tröppur og svalir húsa og sérsmíði á ýmsum skúlptúrum, aringrindur og fleiri slík verk eru ekkert annað en listaverk. Árið 1969 fór Harry að vinna í Danmörku vegna atvinnuleysis á Íslandi og var þar í tæpt ár. Vann síðan hjá Rafha, Gunnari Ásgeirssyni, Ísal í Straumsvík, Ofnasmiðjunni í Hafnarfirði og síðustu árin hjá Marel. Segja má að Harry hafi verið nokkuð áberandi í hafnfirsku samfélagi enda virkur félagi í Lionshreyfingunni og Frímúrarareglunni um nokkurt skeið og ávallt ófeiminn við að taka til máls. Útför Harrys fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 3. apríl, kl. 15.
Margar góðar minningar koma upp í huga okkar systkina þegar við horfum um öxl og hugsum til Harrys. Minningar okkar systra frá Erluhrauninu eru óljósar en samt svo sterkar þar sem við áttum þar margar góðar stundir í faðmi Harrys og Guggu. Harry tók margar góðar myndir sem hjálpar okkur að geyma minninguna um þau. Skjaldbakan Rassmus og hundurinn Daffý voru í miklu uppáhaldi hjá okkur sem ungum stelpum.
Þau hjónin voru foreldrum okkar mikill styrkur og stoð og sýndu þau okkur systrum mikla ástúð og hlýju. Því miður kvaddi Gugga allt of snemma.
Harry var kærleiksríkur, skemmtilegur með meiru, hafði fremur svartan húmor og ekki leiddist honum að horfa á fagrar meyjar. Hann var listrænn og afbragðs kokkur og naut sín í eldhúsinu. Mörg áramótin áttum við saman með honum og Helga syni hans, sem og börnum Helga. Þar sá hann um rjúpurnar og meðlætið af mikilli natni. Hlíðarvatn er okkur öllum líka ofarlega í huga þegar við hugsum til samverustunda okkar.
Mamma (Sigga) biður um kveðju um leið og hún þakkar þér og Guggu dýrmæta vináttu og hlýju í garð fjölskyldunnar.
Síðustu ár hafa verið Harry erfið vegna heilsuleysis og viljum við þakka Döddu frænku fyrir að annast hann af ást og umhyggju á Sólvangi.
Við kveðjum þig elsku frændi, megir þú hvíla í friði með Guggu þinni.
Við geymum minningar um þig í hjörtum okkar.
Elsku amma, Helgi, Gugga, Gunnar, Ósk, börn og barnabörn sem og aðrir ástvinir, innilegustu samúðarkveðjur.
Hildur Björk, Ágústa Erna og Birgir.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
Sigrún Ósk.
Harry var með bestu handverksmönnum sem ég hef kynnst.Það var unun að sjá hann móta járnið með hamar og eld að vopni. Harry var einnig mjög liðtækur listmálari en hann málaði þó nokkrar myndir, þá helst landslag. En ekki vildi hann flíka þeim hæfileikum.
Harry og Gugga, sem lést árið 1975, aðeins 47 ára að aldri, áttu tvo syni Gunnar og Helga sem eru hinir vænlegustu menn.
Ég lærði iðn mína, járnsmíði, hjá Harry og á honum margt að þakka í sambandi við verkkunnáttu og handverk. Það var alltaf stutt í húmorinn og smá prakkaraskap hjá okkur í gömlu smiðjunni. Margir eftirminnilegir karakterar úr bæjarlífinu í Hafnarfirði voru þar daglegir gestir. Harry mjög vinsæll og vinmargur og tók virkan þátt í félagslífi í Hafnarfirði ásamt Guggu sem rak hárgreiðslustofu á heimili þeirra í Erluhrauni. Þar var einskonar miðstöð fyrir alla stórfjölskylduna þar sem allir voru auðfúsugestir.
Aðaláhugamál Harrys var lax og silungsveiði og fór hann ófáar veiðiferðir með vinum og vandamönnum. Ég hef alltaf litið á Guggu og Harry sem mína aðra foreldra enda var ég kostgangari hjá Guggu í hádegismat öll mín námsár í Hafnarfirði og alltaf var líf og fjör nálægt þeim hjónum.
Ég vil að leiðarlokum þakka Guggu og Harry alla þá samveru og sendi samúðarkveðjur til Helga, Gunnars og fjölskyldna þeirra.
Geir.