Hreinn Þórir Jónsson var fæddur að Stað Í Aðalvík N-Ísafjarðarsýslu 3. október 1930. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 10. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Dóróthea Margrét Magnúsdóttir frá Sæbóli í Aðalvík, f. 30. júlí 1906, d. 28. maí 1969, og Jón Magnússon frá Stað, f. 22. júlí, 1904, d. 14. mars 1995. Systkini Hreins eru Baldur Trausti, f. 14 júní 1932, d. 6. janúar 1996, og Guðný Hrefna, f. 27. júlí 1935. Þann 10. mars 1955 kvæntist Hreinn eftirlifandi eiginkonu sinni Amalíu Kristínu Einarsdóttur (Kiddý) frá Ísafirði, f. 19. júní 1931. Foreldrar hennar voru hjónin Elísabet Samúelsdóttir, f. 18. ágúst 1913, d. 25. maí 1974, og Einar Gunnlaugsson f. 10. mars 1905, d. 19. október 1977. Börn Hreins og Kiddýar eru: 1) Einar, f. 4. nóvember 1954, maki Anna Karen Kristjánsdóttir. Þeirra börn eru: a) Kristín Dröfn, maki Þórarinn Örn Andrésson og eiga þau tvö börn. b) Benedikt Hreinn, sambýliskona Þuríður Pétursdóttir. c) Dóróthea Margrét , sambýlismaður Magni Hreinn Jónsson, d) Kristján Sigmundur, e) Sunna Karen. 2) Margrét Kristín, f. 1. september 1958, maki Þorsteinn Jóhannesson. Þeirra börn eru a) Magnús Þórir b) Þuríður Kristín. 3) Jón Heimir, f. 18. júní 1963, maki Inga Bára Þórðardóttir. Þeirra synir eru a) Hreinn Þórir b) Hjalti Heimir. 4) Baldur Trausti, f. 15. mars 1967, maki Harpa Magnadóttir. Þeirra börn eru a) Tómas Helgi b) Eva. Hreinn ólst upp í Aðalvík, fyrst að Stað og í Þverdal en árið 1936 reisa foreldrar hans nýbýlið Sæborg í landi Garða og búa þar í 12 ár er þau flytja að Seljalandi í Skutulsfirði. Hreinn gekk í barnaskólann á Sæbóli, Héraðsskólann að Núpi og lýkur síðan gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Ísafirði vorið 1948. Eftir það starfaði hann m.a. við netagerð á Ísafirði, Siglufirði og í Keflavík. Árið 1953 hóf hann nám í rafvirkjun hjá Þórólfi Egilssyni á Ísafirði og starfaði við iðn sína í áratug þar til hann ræðst sem vélgæslumaður hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga árið 1964 og starfaði þar í 35 ár. Hreinn og Kiddý reistu sér hús að Engjavegi 16 á Ísafirði og hafa búið þar síðan árið 1957. Hreinn stundaði skíðagöngu á sínum yngri árum og lagði hönd á plóg við eða efla skíðaíþróttina í bænum. Hann hafði yndi af söng og var félagi í Karlakór Ísafjarðar og formaður hans um tíma. Hann átti sæti í stjórn Vestfirskra Náttúruverndarsamtaka á áttunda áratugnum og var ákafur stuðningsmaður stofnunar Hornstrandafriðlands. Einnig sat hann í sóknarnefnd ísafjarðarkirkju í mörg ár. Hreinn hafði sterkar taugar til æskustöðvanna og var um árabil formaður Átthagafélags Sléttuhrepps á Ísafirði og nágrenni. Árið 1980 byggðu þau hjónin lítið sumarhús í Aðalvík og var þar þeirra sælureitur alla tíð. Útför Hreins fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 18.apríl 2009, kl. 14.
Það er mér ómetanlegt að hafa átt svona góðan vin eins og þig, á milli okkar var alveg sérstakt samband. Þú hefur fylgt mér alveg síðan ég var smástýri og ég minnist sérstaklega allra góðu stundanna í Aðalvíkinni. Það var svo gaman að koma í heimsókn á Engjaveginn, þú tókst alltaf himinlifandi á móti okkur fjölskyldunni, brosandi allan hringinn. Heimsókn okkar systra síðasta sumar var einstaklega skemmtileg. Ég var svo stolt og glöð að sjá að myndin af mér hangir enn meðal allra myndanna af barnabörnunum.
Það er sárt að missa bæði þig og afa Jóa með svo stuttu millibili en ég brosi gegnum tárin þegar ég hugsa til endurfunda ykkar. Ég mun sakna þín sárt, það verður tómlegt í Víkinni án þín.
Þei, þei og ró.
Þögn breiðist yfir allt.
Hnigin er sól í sjó.
Sof þú í blíðri ró.
Við höfum vakað nóg.
Værðar þú njóta skalt.
Þei, þei og ró.
Þögn breiðist yfir allt.
Jóhann Jónsson
Þú varst einstaklega hjartahlýr og góður maður og minnig þín mun fylgja mér alla ævi. Þakka þér fyrir allt. Hvíldu í friði, elsku Hreinn.
María Lind Sigurðardóttir