Ágústa Óskarsdóttir var fædd á Kolvegarhóli í Árnessýslu 16. ágúst 1922. Hún lést á Hrafnistu 22. mars síðastliðinn og fer útför hennar fram frá Grafarvogskirkju í dag kl. 13. Foreldrar Ágústu voru Einarlína Bjarnadóttir vinnukona og Óskar Smith pípulagningamaður í Reykjavík. Ágústa kvæntist Magnúsi Sigurðssyni frá Hjalla 30. janúar 1948. Þau hófu búskap sinn á Kleppsvegi 98 í Reykjavík og bjuggu þar í rúm 40 ár en fluttu síðar í Fannafold 89 og bjuggu þar þar til heilsan gaf sig að þau fluttu á Hrafnistu í Reykjavík. Ágústa og Magnús eignuðust tvo syni, þá Einar Magnússon húsasmið, f. 10.2.1950, d. 26.2.1979. Kona hans Kristín G. Jónsdóttir, f. 09.06.1948. Börn þeirra Ragnar Magnús Einarsson húsasmiður f. 01.08.1972 og Ásgeir Jón Einarsson f. 07.06. 1977, d. 02.12.06. Ragnar er kvæntur Lindu E. Skaug. Börn þeirra eru Sara, Emma og Einar. Sigurður Örn Magnússon, bifvélavirki f. 14.9.1952 kvæntur Kristínu Guðbjörgu Haraldsdóttur. Börn þeirra eru Haraldur Ágúst f. 23.6.1974 sambýliskona Auður Brynjólfsdóttur. Sonur þeirra er óskýrður, f. 12.1.2009. Magnús Sigurðsson, f. 25.5.1981. Sonur hans er Aron Máni, f. 14.1.2004. Einar Þór Sigurðsson, f. 29.12.1984, sambýliskona hans er Þrúður Maren Einarsdóttir.


Í dag kveð ég vinkonu mína Ágústu Óskarsdóttur.  Það er ekki hægt að tala um Gústu án þess að minnast á Magnús, fyrir mér eru þau eitt.  Gústu kynntist ég fyrir 22 árum þegar hún og Magnús bjuggu á Kleppsveginum.  Þar var mikill gestagangur og þar var gott að koma, alltaf kleinur, randalínur, flatkökur o.fl. á borðum og kleinurnar fylgdu stundum með heim í poka. Litla sumarhúsið þeirra í Hveragerði var líka góður viðkomustaður og undu þau þar mörgum stundum. Þegar þau fluttu í Fannafoldina fannst Gústu gestagangurinn minnka en það vildi hún ekki, vildi hafa fólk í kringum sig.

Dóttur mína skýrði ég í höfuðið á henni og kallaði hún hana alltaf Gústu ömmu og ekki að ástæðulausu því Gústa var mikil amma.  Klukkan í stofunni með fuglinum lifir í minningunni, Gústa þreyttist ekki á að bíða eftir heila tímanum með dætrum mínum til að sjá fuglinn koma út, alltaf jafn gaman.  Ómetanlegar voru mér heimsóknir þeirra á Þorláksmessu eða aðfangadagsmorgun.  Jólagjafirnar frá Gústu og Magnúsi til dætra minna voru líka einstakar, þær komu frá hjartanu.

Það var sárt að horfa á Gústu núna undir það síðasta hverfa í sinn eigin heim, en erfiðast hefur það verið fyrir Magnús. Þær góðu samverustundir sem Gústa og Magnús gáfu okkur eru ómetanlegar og mannbætandi, fyrir þær þökkum við innilega. Magnúsi, Sigurði og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.

Blessuð sé minning Gústu minnar.

Margrét Þórhallsdóttir

Margrét Þórhallsdóttir

Villt þú vera amma mín líka? sagði lítil hnáta dóttir mín og  beið þess að vera vafin örmum og  fá koss á kinn. Hún spurði sömu spurningar og  bróðir hennar hafði spurt 10 árum áður. Það voru Gústa og  Magnús sem voru komin til systur minnar og mágs í Bakkaselinu og  drengirnir þeirra þrír hlupu til að fagna ömmu og afa, faðmlögum og  kossum var skipt jafnt á alla og eingin skilin útundan.

Öllum vildir þú vera góð og margir nutu gæða þinna, þannig  var það með okkur  systkinin hennar Stínu á erfiðum tímum í okkar lífi hér fyrr á árum. Kveðjan þín var alltaf komdu fagnandi" brostir og bauðst iðulega eitthvað í svanginn. Bræðrum mínum sendir þú yndislegar loftkökur fyrir jólin sem ég  stóra systir  stalst í - þvílík himnesk sæla. Hvíta lagkakan með sveskjusultunni hefur  verið bökuð fyrir jólin á mínu heimili í rúml. 30 ár  hún ber af öðrum kökum komin úr þínum bókum. Það voru hreininr töfrar hún Gústa bakaði pönnukökur  á mörgum  pönnum og á þeim öllum í einu, þetta eru mínar fyrstu minningar um hana Gústu ( mikið fannst mér hún systir mín vera heppin).

Samgangur okkar systra var mikill þegar börnin okkar voru yngri og er enn, hvort sem var ósvikinn hversdagurinn, afmæli eða annar fagnaður það var árvisst í fjölda ára að við vorum saman á gamlárskvöld þá voru þið með okkur, alltaf hlý og notaleg.

Ég vil þakka þér fyrir allar þessar góðu stundir þær ilja í minningunni og ég  veit að þér hefur verið tekið fagnandi opnum örmum. Sómakona er kvödd. Kæri Magnús og stórfjölskyldan Innilegar samúðarkveðjur.

Jóhanna Þorgerður Haraldsdóttir.