Dáinn? Ég trúi þér ekki, þú hlýtur að vera með martröð var það fyrsta sem ég sagði við Hörpu konuna mína þegar hún hringdi í mig kl. 2 um nótt, en það var því miður ekki martröð og var ég eins og sleginn. Ótal hugsanir fóru í gegnum hugann þegar ég keyrði heim af vakt, af hverju? Hvers vegna? En við fáum aldrei svör við þessum spurningum.

Ég var svo lánsamur að hafa átt þig fyrir tengdapabba í 6 ár og kynntist ég þér vel, ég er þakklátur fyrir þann tíma. Mín fyrstu kynni af þér voru fyrir 18 árum, þá vart þú verkstjóri í Járnblendifélaginu á Grundartanga. Var ég þá á þeim tíma að læra húsasmíði og var lánaður frá mínu fyrirtæki í verkefni á þínum vegum. Þegar ég sá þig fyrst virkaðir þú vel á mig og bar ég ómælda virðingu fyrir þér sem ekki minnkaði seinna þegar ég kynntist þér sem tengdaföður mínum. Betri tengdapabba var ekki hægt að óska sér, það var ekkert sem þú gast ekki gert og ef mig vantaði ráðleggingar þá varst þú með svör á reiðum höndum. Þegar við Harpa ákváðum að byggja okkur sumarbústað leist þér strax vel á þá hugmynd og þú hlakkaðir mikið til að heimsækja okkur þangað, sem voru alltaf skemmtilegar heimsóknir. Margar góðar minningar þar.

Þú varst forlagatrúar og myndir segja við svona aðstæður "þetta er gangur lífsins að deyja og nú verðum við að halda áfram.

Takk fyrir góð ár og hittumst á himnum yfir kaffi og koníaki og skilaðu kveðju til pabba míns.

Kveðja,

Kolbeinn.

Minn kæri bróðir og vinur, Börkur Jónsson, er fallinn frá langt um aldur fram. Hann ólst fyrstu árin upp á Heiðarbraut 8 í ástríkum faðmi móður okkar, en faðir okkar var langdvölum fjarri heimilinu þar sem hann var stýrimaður á aflasælum togurum og skipstjóri í siglingum með fisk á Bretlandsmarkað. Faðir okkar gat leyft sér að gleðja fólkið sitt með nýstárlegum varningi, leikföngum, listgripum og jafnvel húsgögnum frá skóla Bauhaus. Lífið var hamingjuríkt og fjölskyldan var umvafin stórum vinahópi sem gerði bernskuárin rík í endurminningunni.

Þegar Börkur var níu ára gamall byggðu foreldrar okkar einbýlishús á Stillholti 11, þar sem við systkinin ólumst síðar upp. Framan af árum var Börkur jafnan sendur í sveit á sumrin og varðveiti ég enn fallegu bréfin sem hann af umhyggju sendi litla bróður um ánægjulega daga hjá Pétri og Rósu í Geirshlíð.

Líf Barkar mótaðist fljótt af störfum og áhugamálum föður okkar og því grundvallarsjónarmiði í uppeldi Skagamanna að standa sig. Reginmunur var á því að vera bestur og að vera bara næst bestur í því sem menn tóku sér fyrir hendur. Það var í hans eðli að standa vel undir slíkum væntingum, hvort sem hann var í vinnunni að keppast við að beita bjóðin í beituskúrunum eða í frístundunum að beita örlitlum flugum sem hann bjó til og egndi fyrir lax á ljúfum degi. Glampinn í augum föður míns er mér hugstæður þegar hann  svo oft sagði stoltur frá einstökum áfangasigrum stóra bróður, enda áttu þeir langa samleið í starfi og leik.

Vegna aldursmunar okkar bræðra var ég lengst af þiggjandi í okkar samskiptum. Þó svo að hann hafi verið óvenju frískur unglingur sem kunni að meta lífsins unaðssemdir var honum umhugað um að gera æskuár litla bróður hamingjurík. Það var honum að þakka að ég sigldi glæsilegustu fleyjunum á tjörnum Akraness og átti best útbúna kassabílinn. Þegar ég svo mátti aka stærri bílum beið mín að sjálfsögðu hans háglansandi rauði Mustang 68.

Á seinni árum urðu samskipti okkar mjög náin. Börkur var fyrir mér hinn sanni Geiteyingur, en sú ætt státar af mörgum hagleiksmönnum og afburða hugvitsmönnum, sem margir hafa markað spor í söguna, aðallega erlendis, en því miður ekki notið eldanna sem þeir kveiktu. Börkur var fæddur verkfræðingur, með afburðaskýrri hugsun leysti hann verkefnin og ef vél gat framkvæmt  verk, teiknaði hann vélina og smíðaði síðan. Nýjasta verkefni hans, þurrkunarbúnaður til harðfiskgerðar í Kjarnafiski ehf. er gott dæmi um einstakt hugvit sem færustu vísindamenn hafa farið lofsorðum um. Það er eins með Börk og Geiteyinginn frænda hans sem fann upp eldspýtnavélina, að ekki fær hann nú að njóta þess að ganga til samstarfs við erlend markaðsfyrirtæki sem þess höfðu óskað.

Daglegu símtölin við minn kæra bróður verða því miður ekki fleiri né hans góðu stundir í eldhúskróknum hjá vini sínum Jóni Frímannssyni við að leysa tæknilegu vandamálin. Minningin um einstakan mann og ljúfan og góðan bróður mun þó ávallt fylgja mér og fjölskyldu minni.

Hvíl í friði minn kæri.

Þorsteinn Jónsson.

Hann var alltaf hlýr faðmurinn hjá Berki mínum kæra föðurbróður sem nú tekur ekki lengur opnum örmum á móti sínum litla frænda. Það er sár hugsun, en ljúft er þó að eiga allar góðu minningarnar.
Margar sögur hefur pabbi minn sagt mér frá stóra bróður sínum. Börkur var líkamlega vel á sig kominn, enda stundaði hann æfingar eftir Atlaskerfinu á sínum yngri árum. Það var áhugavert fyrir mig að njóta leiðsagnar hans í laxveiðum, því hann var mjög næmur fyrir náttúrunni og þekkti vel hegðun laxins. Eftirminnileg er veiðiferð okkar í Laxá í Kjós þar sem hann kenndi mér að kasta flugu og leyfði mér að prófa flugur sem hann hafði sjálfur hnýtt.
Það var gaman að hitta hann í afmæli mömmu minnar þremur dögum áður en hann lést. Hann var hlýr og innilegur þegar hann fagnaði okkur systkinunum og um kvöldið var hann kátur og hress og aldrei hefði mig grunað að það væri síðasta skiptið sem við hittumst. Þannig vil ég minnast míns kæra frænda.
Blessuð sé minning hans.

Jón Pétur Þorsteinsson

Það er ólýsanleg sorg sem hvílt hefur yfir okkur síðustu daga frá því okkur bárust þau óvæntu sorgartíðindi að kæri föðurbróðir okkar, Börkur Jónsson, hefði kvatt þetta jarðlíf. Aðeins þremur dögum áður hittumst við í síðasta sinn, þegar hann kom í afmælisveislu móður okkar. Hann faðmaði okkur systkinin svo einlægt og brosti svo hlýlega eins og alltaf þegar við hittum hann, en viðmót hans var alltaf einstakt.

Við eigum margar minningar af Berki alveg frá því við vorum litlar með fjölskyldunni í Brautarholti á Snæfellsnesi, þar sem við gróðursettum tré og veiddum sjóbirting í Viðralæk. Svo var alltaf gott að koma á Akranes þar sem tekið var vel á móti okkur  og gaman var að spjalla saman, þar sem hann var alltaf svo léttur í lund.

Oft kom hann í heimsókn í galleríið okkar með uppáhalds nammið okkar, harðfiskinn frá Kjarnafiski, sem við borðum af bestu lyst.

Margar minningar um Börk tengjast laxveiði og það sem við kunnum á því sviði lærðum við aðallega af honum. Ein af þessum góðu minningum tengist veiðiferð í Elliðaánum, en þangað kom hann með Vallý og hundunum til að veita okkur leiðsögn. Þá var Úlla nýbúin að fá lax í fyrsta kasti og stolt frændans yfir afrekinu leyndi sér ekki og yljaði það um hjartarætur, eins og allar minningar okkar um Börk frænda.

Við kveðjum nú góðan frænda. Hans verður sárt saknað, en við yljum okkur við góðar minningar um hann.

Megi hann hvíla í friði.

Theodóra Svala, Helga Hrönn og Kristjana Júlía.

Hógværi snillingurinn Börkur Jónsson mágur minn er kvaddur í dag. Á kveðjustund koma fram margar minningar. Árin í Brautarholti í Staðarsveit voru skemmtileg fyrir alla fjölskylduna. Börkur og systkinin ásamt foreldrum sínum keyptu fæðingarjörð Jönu tengdamóður minnar. Þar hittist stórfjölskyldan og undi sér við trjárækt og veiðitilraunir.

Miklir kærleikar voru með bræðrunum og töluðust þeir jafnan við oft á degi hverjum og ræddu sín sameiginlegu áhugamál. Heimsóknir hans til okkar einkenndust af miklum hlýhug og væntumþykju, enda tengdust öll börn okkar honum miklum tilfinningaböndum. Faðmurinn hans og kossarnir fannst þeim ekta.

Börkur og Vallý voru afar samhent hjón í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Berki var mjög annt um velferð sinnar stóru fjölskyldu, alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd, þess fengum við einnig að njóta.

Að leiðarlokum er mér efst í huga minningin um hjartahlýjan og góðan dreng, sem verður sárt saknað.

Fari hann í friði.

Hrefna Steinþórsdóttir.

Látinn er góður vinur og frændi minn Börkur Jónsson frá Akranesi. Mæður okkar voru systur og mjög nánar sem leiddi til þess að við frændsystkinin frá Stillholtinu og Sunnuhvoli tengdumst traustum böndum. Ósjaldan lá leiðin upp á Skaga og náðum við Börkur einkar vel saman, enda báðir fjörugir og uppátækjasamir pollar. Það var  gaman að koma í heimsókn til Jönu og Soffa foreldra þeirra Hrannar, Barkar og Þorsteins, en þau voru eins og okkar eigin systkini, enda ávallt góð tengsl á milli. Alltaf var eitthvað hægt að gera, fara að veiða, tína svartbaksegg upp á Akrafjalli, meira segja á fermingardegi Barkar laumuðumst við strákarnir þangað í eggjaleit og aldrei vorum við aðgerðarlausir. Veiðiskapurinn tengdi okkur saman og voru nokkrar ferðir farnar í svartfugl og rjúpu, þegar svo bar undir. Ávallt var gott að heimsækja þau Valgerði og Börk upp á Skaga og hefðu þær heimsóknir mátt vera fleiri, því ekki skorti sameiginleg áhugamál bæði til sjávar og sveita. Börkur var feykilega góður laxveiðimaður og átti hann ekki langt að sækja þann áhuga því faðir hans var annálaður sem slíkur og ótrúlega fær og fróður um allt sem snéri að fluguhnýtingum og veiðum með flugu og kunni frá mörgu að segja. Þess vegna vekur það upp mikinn sársauka og söknuð þegar fólk hverfur svona fyrirvaralaust úr lífi okkar og maður situr eftir með minningarnar einar um góðan dreng eins og Börkur var.

Það er  víst óumflýjanleg staðreynd að dauðinn er okkur mannanna börnum jafn eðlilegur og fæðingin, en samt svo erfitt að sætta sig við þá að honum kemur. Við eigum samt þetta dásamlega líf okkar og getum ráðstafað því eftir eigin bestu getu og undir handleiðslu annarra, en allt tekur enda fyrr eða síðar.

Börkur var mörgum hæfileikum búinn og beitti þeim af ýtrustu hæfni. Hann var listrænn og tilfinningasamur maður og stöðugt að spá í ýmsa hluti og finna upp hitt og þetta. Hann var vel að sér í mörgu og alltaf gaman  að ræða við hann um hin ýmsu málefni og ekki skorti áhugann. Hann var þrautseigur og miklaði ekki fyrir sér hlutina heldur reyndi að leysa verkefnin. Til dæmis vann hann undir það síðasta að mjög áhugaverðum verkefnum er varðaði geymslu matvæla og gerði miklar væntingar til þeirra.

Kahlil skrifar:  Sorgin er gríma gleðinnar. Og lindin, sem er uppspretta gleðinnar var oft full af tárum.  Og hvernig ætti það öðruvísi að vera? Þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta manns, þeim mun meiri gleði getur það rúmað. Er ekki bikarinn, sem geymir vín þitt, brenndur í eldi smiðjunnar?

Ég þakka þann tíma sem við frændurnir áttum saman á jörðu hér og geymi minningarnar sem sjáaldur augna minna,en þær voru aðeins okkar. Það er erfitt að fylla það skarð í frændsystkinahópinn, sem Börkur skilur eftir sig og því eru þessar góðu minningar svo mikilvægar. Við hjónin vottum Valgerði, börnum, barnabörnum, systkinum og öðrum ættingjum Barkar okkar dýpstu samúð og guð blessi ykkur í sorginni.

Sólmundur Tryggvi, Astrid Einarsson.

Elsku faðir, kveðjustundin er nú runnin upp.

Margt gerist á þeim 46 árum sem samvera okkar hér á jörð spannar. Bæði gerðum við og upplifðum ýmislegt saman feðgarnir og svo heyrði ég sögur og frétti af ýmsu sem gerst hafði í þínu lífi bæði fyrir mína tíð og allar götur til dagsins í dag. En einmitt nýliðnir atburðir eru nú efst í huga mér. Ekki er langt síðan ég fékk þær góðu fréttir að fyrirtækið þitt hafi fengið viðurkenningu sem Frumkvöðull Vesturlands árið 2008. En Adam var ekki lengi í paradís, því nokkrum dögum síðar hringdi móðir mín í mig og sagði mér hvað gerst hafði og að þú værir nú látinn.

Líf þitt einkenndist af atorku og hugvitsemi alla tíð og í verkefnum sem kröfðust þessara eiginleika nutu hæfileikar þínir sín best. Áhugamálin þín voru mörg og má þar nefna allskyns tækni, skógrækt og ýmisskonar nýsköpun. En rauði þráðurinn var veiðimennskan, það var laxveiði, skotveiði, línu og netaveiði á bátnum þínum. Ómæld var sú ánægja og félagsskapur sem þú naust af því, bæði með föður þínum og öðrum félögum. Vinnu þína stundaðir þú alla tíð af elju og samviskusemi, sem gerði þér kleyft að skapa þér og fjölskyldu þinni öruggt, fallegt og gott heimili með dyggum stuðningi móður minnar. Persónuleiki þinn endurspeglaðist í þeim gildum  sem þú lagðir áherslu á innan fjölskyldunnar. En þau voru samstaða, heiðarleiki, dugnaður, hjálpsemi, jákvæðni, framsækni og að hafa gaman af lífinu. Við vitum samt að þó viljinn sé góður og margt gott gert þá hefur hver sinn djöful að draga, jafnt þú og við hin.  Þú varst sjálfstæður maður og stjórnaðir þínu lífi sjálfur. Á fumlausan hátt í anda þess, lagðir þú allt undir og valdir sjálfur þína útgöngu úr þessum heimi, útgöngu sem ætti ekki að vera valkostur en er því miður hjá alltof mörgum.  Mikið högg var fjölskyldunni greitt sem tíma og samstöðu mun þurfa til þess að vinna úr.

Pabbi minn, ég vil þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, veiðiferðirnar bæði til sjós og lands, hesthúsið sem þú smíðaðir fyrir mig og bara allt það sem þú gerðir fyrir mig. Ég leit upp til þín á margan hátt og dýrmætast var mér hrósið frá þér. Megir þú dvelja í friði í húsi drottins og kærleikshugsanir okkar fylgja þér alla tíð.Vil ég votta móður minni, fjölskyldu, ættingjum og vinum föður míns samúð og þakka allan hlýhug í garð fjölskyldunnar á þessu erfiða tímabili sem nú gengur yfir.

Freysteinn B. Barkarson.