Hákon Þorsteinsson fæddist á Urðarstíg 4 í Reykjavík 25. maí 1924. Hann lést á Landakoti 26. mars 2009. Foreldrar hans voru Þorsteinn Jónsson sjómaður í Reykjavík, f. 29. janúar 1892, d. 5. sept 1958, og Guðmundína Margrét Sigurðardóttir húsmóðir í Reykjavík, f. 18. júní 1900, d. 17. júlí 1963. Albræður Hákons eru Hörður, f. 1920, d. 1977, Haukur, f. 1921, d. 2007, Haraldur, f. 1923, d. 1990, og Hafsteinn, f. 1927. Hálfsystkini eru Hrafnhildur Stella, f. 1931, Hreinn, f. 1932, Hilmar, f. 1934, Hjördís Elsa, f. 1935, Hreiðar, f. 1938, og Hulda Sigurlaug, f. 1940. Hinn 21. mars 1953 kvæntist Hákon Benediktu Lilju Karlsdóttur húsmóður í Reykjavík, f. 19. apríl 1924, d. 23. feb. 2003. Foreldrar hennar voru Karl Karlsson sjómaður í Reykjavík, f. 28. janúar 1892, d. 28. janúar 1965, og Guðrún Rannveig Ólafsdóttir, f. 23. nóv. 1890, d. 10. mars 1934. Börn Hákons og Benediktu eru: 1) Guðrún, f. 10. mars 1946, maki Baldvin Einarsson. Börn þrjú og barnabörn fjögur. 2) Sigþór, f. 23. des. 1951, maki Lilja Bragadóttir. Börn þrjú og barnabörn fimm. 3) Hákon, f. 24. nóv. 1952, maki Kristín Kristjánsdóttir. Börn níu og barnabörn 12. 4) Margrét, f. 22. nóv. 1955, maki Eyjólfur Jóhannsson. Börn þrjú og barnabarn eitt. Fyrir átti Hákon dótturina Hafdísi Báru, f. 27. ágúst 1942, búsett í Bandaríkjunum. Hún á eitt barn. Hákon lærði vélvirkjun í Vélsmiðjunni Héðni og lauk síðan námi frá Vélskólanum 1952. Í febrúar 1953 réðst hann til starfa hjá Öryggiseftirliti ríkisins (síðar Vinnueftirlit ríkisins) og vann þar óslitið í 42 ár. Margir þekktu nafnið hans af skoðunarspjöldum í lyftum landsins, en hann sá m.a. um skoðun á öllum lyftum landsins um árabil. Hákon gekk í Oddfellowstúkuna Þorkel Mána 1963 og virkur félagi til dánardags. Hann þekkti landið okkar flestum betur enda voru ferðalög hans aðaláhugamál. Hann var einstaklega handlaginn og eftir hann liggja mörg listaverkin. Hákon var vel þekktur fyrir gítarspil og söng og á 80 ára afmælinu sínu gaf hann út 12 laga disk með gömlum revíulögum. Útför Hákons fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 3. apríl, kl. 13.
Hákon Sigþórsson Sigþór Hákonarson
Elsku afi minn, í dag erum við að kveðja þig, þú hefur átt stóran hlut í hjarta mér alla tíð.
Ég sakna þess að sjá þig ekki aftur , við vorum svo miklir vinir. Við brölluðum margt saman. Þú smíðaðir handa mér dúkkuhús og fullt af fallegum dýrgripum. Þú kenndir mér að syngja Sofðu unga ástin mín og við sungum oft saman, spiluðum á hljóðfæri og borðuðum gotterí og ekki má ég nú gleyma matarkexi dýft ofan í kaffi sem var uppáhald okkar.
Núna get ég ekki beðið þig um að laga það sem brotnar, þú varst kallaður afi lagari þú gast gert við allt. Það er erfitt að kveðja þig, en ég veit að núna ertu að spila á gítarinn, amma og fullt af englum sitja hjá og hlusta og ykkur líður vel. Þú ert örugglega komin með þitt eigið smíðaverkstæði á himnum.
Afi minn.
Ég sakna þín daginn út og inn.
Þú varst alltaf sæll og glaður.
Mjög góður maður.
Afi minn ljúfastur allra
Hvað ætli þú sért nú að bralla
Kannski ertu að hitta frúna.
Hana Billu ömmu.
Sem snyrtir þig og pússar.
Kyssir þig og knúsar.
(Hera Huld)
Elsku afi minn.
Takk fyrir allt ég mun aldrei gleyma þér, Guð geymi þig.
Þín,
Hera Huld