Guðjón Jóhannesson fæddist að Brekkum í Mýrdal þann 30. nóvember 1922, hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir þann 27. mars 2009. Hann var sonur hjónanna Jóhannesar Stígssonar (1884-1934) og Jónínu Helgu Hróbjartsdóttur (1894-1980). Hann var fjórði í röð 12 systkina og eru 9 þeirra enn á lífi. Þegar Jóhannes lést var Guðjón aðeins 11 ára gamall og yngsta barnið í systkinahópnum enn á fyrsta ári. Guðjón ólst upp við almenn sveitarstörf, sjósókn og stopula skólagöngu, eins og nærri má geta um ungt fólk á þeim tíma og við slíkar aðstæður. Hann fluttist ungur til Reykjavíkur og fór snemma að vinna við bílaviðgerðir og lauk síðar prófi í bifvélavirkjun. Hann starfaði lengst af hjá Ræsi h/f eða allt til ársins 2003 og var þá með lengstan starfsaldur allra starfsmanna þar. Guðjón kvæntist Katrínu M. Jóhannesson Lange (11.apr. 1932 - 29.júl. 1995) þann 09.okt. 1954. Foreldrar hennar voru Jörgen Peter Lange (1903-1989) og Guðrún Einarsdóttir Lange (1905-1974) Guðjón og Katrín eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1. Jörgen Pétur Lange, kvæntur Ástu Steinsdóttur, þau eiga 2 dætur: a) Linda Björk, í sambúð með Ágústi Haraldssyni, þau eiga 2 börn, b) Dóra Sif, unnusti Viktor Karl Ævarsson. Fyrir á Jörgen Önnu Dögg með Kolbrúnu Þorgeirsdóttur, hún á einn son. 2. Guðrún Erla Guðjónsdóttir gift Emil Erni Kristjánssyni, þau eiga fimm börn: a) Guðjón Örn kvæntur Huldu Sigurþórsdóttur, þau eiga tvö börn, b) Emilía Ósk gift Georg Franklínssyni, þau eiga tvo syni, c) Katrín María, d) Kristján Óli, e) Daníel Steinar. 3)Ásta Björg gift Sigurði Birni Reynissyni, þau eiga 2 dætur: a) Rakel Ósk, b) Dagný Lóa. 4) Jóhanna Helga gift Ragnari Marinó Kristjánssyni, þau eiga þrjá syni: a) Aron Þór, b) Davið Bergur, c) Baldur Orri.
Mig langar að segja fáein orð um lífshlaup bróður míns Guðjóns Jóhannessonar sem er 3. í röðinni 12 systkina og var 11ára þegar pabbi okkar lést. Það var ákveðið að búa áfram og sjá til hvernig gengi. Það kom í hlut okkar elstu að vera við útiverkin ásamt mömmu sem var með okkur á hlaupum. Guðjón var strax liðtækur enda búinn að hjálpa til eftir getu meðan pabbi lifði. Guðjón var einn af þristinum við útiverk, ásamt Jóhönnu og mér, Elín var inni með krakkana og var frekar við inniverkin. Við slátt vorum við 3 á teig og settum við okkur fyrir ákveðna spildu sem skyldi klára þann daginn og ef það hafðist ekki var haldið áfram þar til það var búið.
Vorið sem ég átti að fermast var sauðburður að venju og féð komið í fellið og varð að líta eftir því ef gerði vont veður og hafði ég áhyggur af því að þau hefðu ekki náð fénu heim, er ég sá að hefði snjóað um nóttina. þetta gekk allt vel og var maður stoltur af sínu fólki. Svo kom fyrir að við Guðjón vorum saman að rölta við féð í góðu verði og höfðum góðan tíma og fýllinn orpinn, að við fórum að ná okkur í egg. Þá var bróðir lagtækur í hömrunum, var hann stundum alveg horfinn og ég dauðhræddur um hann, en sem betur fer kom piltur til baka og oft brosandi ef hann náði slatta af eggjum. Við vorum flest hálfgerðir fjallakettir en þó var Guðjón alklárastur.
Mamma var nú ekki alltaf ánægð með þetta, en bað okkur að fara varlega hún vildi frekar fá okkur heila heim þó engin kæmu eggin. Þessum búskap var haldir áfram í 6 ár og gekk þokkalega en er Jóhanna var trúlofuð og tók við búinu 1940. fóru 8 sitt í hverja áttina en 2 þau yngstu voru heima og ég um sumar tímann, þar til ég fór sjálfur að búa árið 1949.
Guðjón fór að Fjósum í 4 ár og síðar á vertíð á bát í Vestmanneyju í nokkur ár og var talinn úrvals sjómaður. Þar var hann þar til hann slasaðist og var mjög illa farinn ekki síst fyrir að það varð að brjóta upp aðgerðina þar sem brotin voru ekki rétt sett saman. Af þessu bar hann aldrei bætur. Eftir þetta fór hann í bílaviðgerðir, tók próf í bifvélavirkjun og endaði í Ræsi þar sem hann vann í yfir 50 ár og var annálaður verkmaður og þekktur sem slíkur.
Eftir að ég kom suður hjálpaði Guðjón mér oft við bílinn minn Komdu bara ég skal líta á þetta. Guðjón var mikill heimilisfaðir og pabbi og allaf boðinn og búinn að hjálpa ef eitthvað þurfti með.
Far þú í friði, Friður guðs þér fylgi, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þinn bróðir,
Jóh. Óskar Jóhannesson