Hjalti Gestsson fæddist á Hæli í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu 10. júní 1916. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi 6. október 2009. Foreldrar hans voru Margrét Gísladóttir húsfreyja og organisti, f. 30.9. 1885, d. 7.6. 1969, og Gestur Einarsson, bóndi og oddviti, f. 2.6. 1880, d. 23.11. 1918. Börn þeirra voru auk Hjalta: a. Gísli, f. 6.5. 1907, d .4.10. 1984, safnvörður á Þjóðminjasafninu. b. Einar, f. 15.10. 1908, d. 14.10. 1984, bóndi á Hæli. c. Ragnheiður, f. 23.5. 1910, d. 19.8. 1912, d. Steinþór, f. 31.5. 1913, d. 4.9. 2005, bóndi á Hæli, alþingismaður. e. Þorgeir, f. 3.11. 1914, d. 19.6. 2005, læknir. f. Ragnheiður, f. 4.2. 1918, d. 26.6. 1997, húsfreyja á Ásólfsstöðum. Hjalti kvæntist Karen Marie Olesen, íþróttakennara 12. júní 1943, í Kaupmannahöfn, Hún var fædd. 9.2. 1921, dóttir Dorthe og Ole Rothaus Olesen bónda, Randers á Jótlandi. Karen lést 21.3. 1990. Börn þeirra fjögur eru: 1) Margrét, íþrótta- og handavinnukennari, f. 1.9. 1944, maki Kristján H. Guðmundsson framkvæmdastjóri, f. 10.9. 1943. Þeirra börn eru; a. Halla Karen íþróttakennari, f. 7.2. 1970, maki Elías Níelsson, íþrótta- og lífeðlisfræðingur, f. 21.12. 1967, b. Svava viðskiptafræðingur, f. 13.3. 1974, maki Gunnlaugur Árnason, fjölmiðlafræðingur, f. 1.3. 1974. c. Hjalti, þjálfunar- og lífeðlisfræðingur, f. 1.3. 1978, maki Silja Ósk Leifsdóttir innanhúsarkitekt, f. 16.3. 1979. Barnabörnin eru fjögur. 2) Ólafur, fulltrúi, f. 1.4. 1948, maki Steinunn Ingvarsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 8.6. 1952. Barn þeirra: Snæfríður háskólanemi, f. 28.12. 1987. Fyrir átti Steinunn soninn Atla Sigurðsson rafeindavirkja, f. 2.5. 1976, maki Vaka Sigmarsdóttir, viðskiptafræðingur. Fyrri kona Ólafs var Sigurlína Margrét Ásbergsdóttir, fréttamaður, f. 29.6. 1948, d. 13.1. 1983. Börn þeirra eru: a. Sólveig, BA, f. 1.10. 1971, d. 13.2. 2007. Ekkill hennar, Hermann Þór Karlsson bóndi á Efri-Brúnavöllum, f. 15.4. 1966, b. Hjalti, tæknifræðingur, f. 25.9. 1972. c. María Karen, viðskiptafræðingur, f. 25.2. 1976, maki Valdimar Bjarnason byggingarmeistari og viðskiptafræðingur, f. 19.5. 1972. Barnabörnin eru níu. 3) Unnur, kennari, f. 14.12.1951, maki Friðrik Páll Jónsson, fréttamaður, f. 28.5. 1945. Börn þeirra eru: a. Páll, lögfræðingur, f. 10.1. 1981, b. Magnús háskólanemi, f. 6.12. 1986. c. Hjalti nemi, f. 26.2.1989. 4) Gestur framkvæmdastjóri, f. 22.10. 1956, maki Sólveig Ragnheiður Kristinsdóttir, námsráðgjafi, f. 20.1. 1957. Börn þeirra eru: a. Elísabet, f. 27.1. 1979, d. 13. nóv. 1980. b. Hildur, félagsráðgjafi, f. 6.3. 1981, maki Adolf Ingvi Bragason, viðskiptafræðingur, f. 29.6. 1978. c. Kristín, háskólanemi, f. 8.12. 1988. d. Karen María, f. 24.3. 1996. Þau hjónin eiga eitt barnabarn. Hjalti ólst upp á Hæli, missti föður sinn kornungur en móðir hans sat áfram jörðina þar til Einar og Steinþór tóku við búsforráðum á brúðkaupsdegi þeirra 12. júní 1937. Hjalti lauk stúdentsprófi 1938 frá MR og hélt þá til Kaupmannahafnar og lauk prófi frá Landbúnaðarháskólanum ásamt sérnámi 1943 en kom heim að lokinni heimstyrjöldinni 1945. Hjalti hóf störf hjá Búnaðarsambandi Suðurlands á Selfossi 1946 og starfaði þar sem ráðunautur í 40 ár og jafnframt sem framkvæmdastjóri þess 1959-1986. Samhliða vann hann að ýmsum fræðslustörfum í þágu landbúnaðar, t.d. með bændanámskeiðum í Stóru-Sandvík 1951-55, framkvæmdastjórn Bændaskólanefndar í Skálholti og stundakennslu við Bændaskólann á Hvanneyri 1949-57. Hjalti var fulltrúi Sunnlendinga á Búnaðarþingi 1967-83, sat þar í ýmsum nefndum, m.a var hann formaður stjórnar Bændahallarinnar. Hjalti var frumkvöðull að miklum framförum í landbúnaði hérlendis. Hann var í forystu um stofnun Hrossaræktarsambands Suðurlands, Landssambands hestamanna, sauðfjársæðingarstöðvar í Þorleifskoti, tilraunabúsins í Laugardælum. Hann innleiddi nýjan dómstiga í kúadómum, súgþurrkun á heyi, og var framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýninganna á Selfossi 1958 og 1978. Hjalti var sýslunefndarmaður Selfyssinga 1958-1970. Hann var virkur í Rótaryklúbbnum á Selfossi um áratugaskeið og var m.a. tvisvar sinnum forseti klúbbsins og hlaut æðstu viðurkenningu samtakanna, Paul Harris-orðuna. Honum var veitt hin íslenska fálkaorða 1988 fyrir störf sín í þágu bænda. Síðasta áratuginn áttu bekkjarsystkinin frá MR, Hjalti og Ástríður H. Andersen, fyrrum sendiherrafrú, náið vináttusamband sem var þeim innihaldsríkt og færði þeim mikla gleði. Útför Hjalta verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 17. október og hefst athöfnin kl. 13.30.
Hjalti Gestsson skilaði farsælu ævistarfi fyrir sunnlenska bændur þar sem hann var í framkvæmdastjórastöðu hjá Búnaðarsambandi Suðurlands um langt skeið. Þegar hann lét af störfum 1986, sjötugur að aldri, hóf hann að gefa sig að störfum sem fræðimaður og fræðari. Hann samdi og gaf út grundvallarritið Sauðfjárræktin á Suðurlandi sem kom út 1997. Hann gaf út síðara bindi kvæðabókar Eiríks Einarssonar frá Hæli, frænda síns.
Ég varð svo lánsamur að vera fengið hlutverk við útgáfu bókarinnar Sauðfjárræktin á Suðurlandi sem Hjalti skrifaði. Það hlutverk fólst í uppsetningu bókarinnar og myndsetningu. Sú vinna fór fram á skrifstofu minni við Byggðasafn Árnesinga sem á þessum tímum var í Húsinu á Eyrarbakka. Heimsóknir Hjalta þann veturinn urðu fjölmargar og mér eftirminnilegar og gefandi. Setið var yfir próförkum og ljósmyndum og myndatextar og nær allir textar bókarinnar samdir af Hjalta. Voru þetta skemmtistundir þar sem mikið var spjallað og pælt í mannlífi fyrr og nú. Bókin kom út og er merkisrit um afmarkaðan þátt í þróun sunnlensks landbúnaðar.
Með þessum línum kveð ég Hjalta Gestsson og votta börnum hans, Ástríði og öðrum aðstandendum samúð.
Lýður Pálsson
Afi Hjalti var ótrúlegur maður og frábær afi og langafi. Ég á margar af mínum bestu minningum með honum og ömmu Karen. Afi var svo ofboðslega barngóður og hlýr maður, hann hændi að sér öll börn og ekki misstu mínir strákar af því þó að hann væri orðinn fjörgamall þegar yngsti sonur minn fæddist.
Ég man svo vel eftir ferðum um sveitirnar með afa þar sem hann fræddi mig um landið, staðhætti og bústofna og spjallaði við mann um heima og geima enda ótrúlega fróður og vel lesinn maður. Afa fannst ekkert leiðinlegt að deila við mig eða aðra, og er ég nokkuð viss um að þar hafi hann oft ákveðið að hafa bara þær skoðanir sem að hentuðu deilunni á því augnabliki. Okkur afa gekk yfirleitt vel að vinna saman enda báðir það þverir að það skipti okkur ekki miklu máli hvað hinn sagði, því við gerðum bara hlutina eins og okkur sýndist sama hverju skipti. Afi treysti mér vel til verkanna og kenndi mér marga hluti sem eru nytsamlegir í lífinu. Ég lærði að þekkja fallegt fé frá ljótu án þess að geta skýrt það nákvæmlega eins og hann gat. Ég lærði líka margt um landið og hvernig það hefði þróast frá því hann var ungur. Afi var alltaf flott klæddur í jakkafötum og það líka í fjárhúsinu, hann hafði alltaf meðferðis hlífðargalla, stígvél og auka sixpensara í skottinu, þannig að hann væri alltaf klár í vinnu við fé eða skítmokstur. Bílarnir voru líka notaðir til fólks- og fjárflutninga og skipti þá ekki máli hvort að bíllinn vær Chevrolet Nova eða Subaru, ef mikið lá við voru öll sæti nýtt.
Mér er alltaf minnistætt þegar afi hélt litla tölu á málþingi og hafði á orði að honum fyndist það nú hálfgerðir aular sem ekki vildu breyta landinu, og átti hann þá við fólk sem ekki vildi virkja til að auðga landið. Enda hefði landinu verið breytt mikið frá því að hann var ungur og allt taldi hann það vera til betri vegar. Í stað mikilla auðna og gróskulítilla héraða væru nú grósku- og afurðamikil héruð eins og Suðurlandsundirlendið. Þessi orð finnst mér að mörgu leiti lýsa hversu opinn og framsýnn hann var og hvernig nám hans og reynsla gerðu hann að þeim leiðtoga sem hann var í sínu lífi.
Afi Hjalti var frábær maður og við munum öll sakna hans.
Hjalti Ólafsson