Elín Guðjónsdóttir var fædd í Reykjavík 19. desember 1914. Hún lést í Sóltúni 23. maí 2009. Foreldrar Elínar voru Guðjón Jónsson verkamaður f. 15. október 1878, d. 5. nóvember 1964, og kona hans Steinunn Magnúsdóttir f. 9. febrúar 1891, d. 25. janúar 1981. Bræður Elínar eru Helgi f. 24. febrúar 1917, d. 13. júní 1980, Guðjón G. f. 11. desember 1921, d. 19. febrúar 2005 og Magnús f. 26. júlí 1926. Elín giftist 4. febrúar 1939 Alfreð D. Jónssyni f. 25. júlí 1906, d. 11. maí 1994. Börn þeirra: 1) Hörður f. 30. janúar 1943, maki Jóna Margrét Kristjánsdóttir f. 29. nóvember 1941. Börn þeirra eru: a) Freyr f. 27. september 1971, maki Eliisa Kaloinen f. 11. ágúst 1973. Sonur þeirra er Róbert Kristian f. 18. september 2006. b) Alfreð f. 17. maí 1973, unnusta Björk Áskelsdóttir f. 17. júní 1975. Börn þeirra eru Pétur f. 6. september 2006 og Áslaug Margrét f. 29. október 2008. c) Kristín Sigríður f. 25. ágúst 1976, maki Magnús Orri Einarsson f. 27. apríl 1976. Dóttir þeirra er Steindís Elín f. 16. mars 2008. 2) Hilmar f. 22. febrúar 1946, d. 11. júní 1950. 3) Herdís f. 23. janúar 1954, maki Jóhann Gunnar Ásgrímsson f. 2. júní 1952. Synir þeirra eru: a) Tryggvi Þór f. 14. nóvember 1988 og b) Tómas Þór f. 31. mars 1993. Börn Jóhanns eru: Margrét Ása f. 17. febrúar 1976 og Þórarinn f. 26. apríl 1980. 4) Hilmar Alfreð f. 12. júlí 1959, sambýliskona María Rúriksdóttir f. 21. mars 1958. Dætur Maríu eru: Þuríður Pétursdóttir f. 5. september 1984 og Ástríður Pétursdóttir f. 8. september 1989. Útför Elínar fór fram frá Fossvogskapellu 2. júní í kyrrþey.
Þá er elsku amma látin. Hún var sátt við að fara enda heilsunni hrakað mikið síðastliðin ár og hún sagði oft sjálf að það væri ekkert gaman að verða gamall.
Þegar ég var yngri var ég oft í pössun hjá ömmu og afa og sérstaklega þótti mér gaman að gista hjá þeim á Hæðargarðinum. Amma hafði alltaf nógan tíma til að sinna okkur barnabörnunum hvort sem hún var að gefa okkur gott að borða eða spila við okkur á spil. Amma var mjög minnug og sögðum við stundum að hún væri upplýsingamiðstöðin okkar því hún var alltaf með á nótunum hvað væri að gerast hjá öðrum fjölskyldumeðlimum. Hún fylgdist einnig vel með skólagöngu okkar barnabarnanna og fannst henni mikið á okkur lagt að þurfa þreyta próf enda var hún alltaf fegin þegar þeim tímabilum lauk.
Amma var mjög góð saumakona enda starfaði hún við það í mörg ár og nutu bæði ég og dúkkurnar mínar góðs af því. Ég man eftir því ein jólin þegar ég og uppáhaldsdúkkan mín vorum í alveg eins kjólum saumuðum af ömmu. Amma sagði mér oft frá brúðarkjólunum sem hún saumaði þegar hún vann á saumastofu í gamla daga og í huga mér urðu þeir eins og kjólar sem prinsessur klæddust í ævintýrum.
Amma og afi voru alltaf stór hluti af jólunum hjá okkur. Þau voru hjá okkur á aðfangadagskvöld og var þá alltaf mikill spenningur að bíða eftir að þau kæmu og sjá alla pakkana sem þau kæmu með. Á jóladag var svo farið á Hæðargarðinn og borðað hangikjöt.
Síðustu æviár sín bjó amma á Sóltúni og fannst henni alltaf gaman að fá heimsóknir þó henni fyndist líka bagalegt að geta ekki boðið upp á kaffi og kökur. Hún leyfði manni ekki að fara nema maður fengi sér sælgætismola sem var alltaf til nóg af í skápnum hennar. Hún hafði sérstaklega gaman að fylgjast með langömmubörnunum þegar þau komu í heimsókn. Rétt fyrir skírn dóttur minnar á síðasta ári veiktist amma en hún náði að jafna sig og ég er þakklát fyrir að hún gat verið viðstödd þegar Steindís Elín var skírð í höfuðið á henni.
Ég minnist elsku ömmu sem kærleiksríkrar og þolinmóðrar konu sem gaf sér alltaf góðan tíma fyrir okkur barnabörnin og vildi allt fyrir okkur gera.
Kristín Sigríður Harðardóttir.
Elsku amma mín Elín Guðjónsdóttir er látín. Síðustu ár ævi sinnar bjó hún á Sóltúni en áður en hún flutti þangað bjó hún á Hæðargarði í Bústaðahverfinu. Annars bjó amma lengst af í miðbænum, á Skólavörðustíg og Laugarvegi og hún á að hafa sagt að henni hafi alltaf fundist hún vera of langt frá miðbænum eftir að hún flutti í Bústaðahverfið.Amma sagði mér eitt sinn að sér þætti Skólavörðustígur vera fallegasta gata Reykjavíkur og þegar ég á leið um Skólavörðustíg hugsa ég ávallt um ömmu mína og nú er ég orðinn sammála henni; Skólavörðustígur er fallegasta gata Reykjavíkur. En flestar mínar minningar um ömmu tengjast Hæðargarði. Ég man þegar við systkinin vorum nýflutt frá Svíþjóð og komum þangað með pabba og amma gaf okkur Cheerioshringi með mjólk, og síðan spilaði hún við okkur veiðimann eða Olsen Olsen og amma leyfði okkur alltaf að vinna. Ég man vel eftir öllum sunnudagsboðunum á Hæðargarði og í minningunni var alltaf lambalæri með brúnni sósu og brúnuðum kartöflum. Það voru oft líflegar umræður við matarborðið sérstaklega milli ömmu og pabba þar sem þau ræddu um fólk sem þau þekktu frá því áður fyrr. Amma var sérstaklega minnug og mundi ótrúlegstu atriði varðandi fólk og hvernig fólk tengdist. Síðstu ár ævi sinnar var það einmitt fortíðin sem hún mundi best. Amma var líka mjög ákveðin og ef hana mislíkaði eitthvað eða mislíkaði við einhvern þá lét hún það í ljós.
Amma var einstaklega fær saumakona, og það voru ófáar ferðin sem við systkinin fórum á Hæðargarð með rifin föt sem amma gerði við án, að því virtist, mikillar fyrirhafnar. En ég á líka minningar um ömmu fyrir utan Hæðargarð. Hún var heima hjá okkur flest jól og ég man að ég sem barn beið alltaf spenntur í glugganum eftir að hún og afi kæmu með alla pakkanna. Amma vildi alltaf gefa hluti sem entust, sem enn væru til eftir að hún hyrfi af braut. Nú þykir mér óskaplega vænt um að eiga svona marga hluti sem minna mig á ömmu mína.
Ég er þakklátur að amma náði að kynnast öllum fjórum langömmubörnunum og vera viðstödd þegar þau voru skírð. Þó að þá hafi hún verið orðin gömul og veik þá var hún alltaf svo glöð að hitta langömmubörnin sín og fylgdist grannt með þeim og hló. Hún hafði oft á orði að Pétur, sonur minn, væri svo kekk, en amma var eina manneskjan sem ég þekkti sem notaði það orð.
Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst ömmu minni. Ég mun ávallt minnast hennar sem minnugrar, ákveðinnar og gjafmildrar konu sem vildi allt fyrir barnabörnin sín gera.
Alfreð Harðarson.
Tengdamóðir mín fæddist á Rauðará í Reykjavík. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum í Reykjavík ásamt þremur yngri bræðrum. Á þessum tíma þegar Elín var að alast upp var Reykjavík ekki lík því og hún er nú. Til að sækja barnaskóla þurfti hún að fara fótgangandi alla leið niður í Miðbæjarskóla en þá bjó fjölskyldan á Seljalandi þar sem nú er Lágmúli. Seinna bjuggu þau á Skólavörðustíg.
Elín dvaldist mörg sumur sem barn og unglingur austur á Skeiðum hjá frændfólki. Þar leið henni vel en sveitalífið átti ekki við hana, Elín var Reykjavíkurmær.
Ung að árum lærði Elín kjólasaum og vann í mörg ár á saumastofu frú Henný Ottoson. Það voru mikil umsvif á saumastofunni og margir dýrindis kjólar saumaðir á ungmeyjar bæjarins. Sérstaklega voru Elínu minnisstæðir brúðarkjólarnir sem þær saumuðu og þegar brúðkaupið fór fram mættu þær saumakonurnar í kirkjuna til að sjá um að kjóllinn sæti fullkomlega rétt á brúðinni. Elín var afar fær saumakona og hlaut meistararéttindi í iðn sinni.
Fyrstu hjúskaparár sín bjuggu þau hjónin Elín og Alfreð að Laugavegi 23 en í sama húsi rak Alfreð ljósmyndastofu um árabil. Árið 1951 fluttust þau að Hæðargarði 10. Elínu fannst erfitt að flytjast úr miðbænum en þá var Bústaðhverfið langt fyrir utan bæinn og strætisvagnaferðir strjálar. Þau bjuggu samt allan sinn búskap á Hæðargarðinum. Eftir að Alfreð lést árið 1994 bjó Elín þar ein og hugsaði að mestu um sig sjálf allt þar til heilsan fór að hraka og hún þurfti á umönnun að halda en þá var hún orðin 90 ára gömul.
Elín var afar sjálfstæð kona, vildi helst ekki þiggja mikla aðstoð frá öðrum. Hún hafði ákveðnar skoðanir um menn og málefni. Hún var hjálpfús vildi allt fyrir börn sín og fjölskyldur þeirra gera, barnabörnin voru henni afar dýrmæt, hún hafði ánægju af að gæta þeirra þegar þau voru lítil og hún fylgdist alla tíð vel með öllum þeirra ferðum og gerðum.
Ég minnist Elínar tengdamóður minnar með þakklæti og virðingu.
Jóna Margrét Kristjánsdóttir.