Hólmfríður Jóhanna Jóhannesdóttir fæddist á Þorleifsstöðum í Skagafirði 9. júlí 1918. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 6. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jóhannes Jónsson bóndi á Þorleifsstöðum, f. í Hjaltastaðahvammi í Skagafirði 2. júlí 1888, d. 31. desember 1965, og kona hans Sigurbjörg Málfríður Benediktsdóttir frá Brandaskarði í A-Hún., f. á Veðramóti í Skagafirði 14. apríl 1892, d. 3. janúar 1984. Bræður Hólmfríðar voru Hólmsteinn, f. 28. maí 1919, d. 22. apríl 1998. Eiginkona hans er Gunnfríður Ingibjörg Björnsdóttir, f. 28. febrúar 1920. Yngstur var Jón Benedikt sem lést í frumbernsku. Árið 1940 giftist Hólmfríður Ellerti Finnbogasyni kennara frá Sauðafelli í Dölum, f. 31. desember 1911, d. 20. apríl 1994. Foreldrar hans voru Finnbogi Finnsson og Margrét Pálmadóttir, ættuð úr Dölunum. Börn Hólmfríðar og Ellerts eru: 1) Jóhannes Þór, búsettur í Borgarnesi, maki Margrét Guðmundsdóttir, þau eiga þrjú börn. Jóhannes á tvær dætur frá fyrra hjónabandi. 2) Margrét, búsett í Reykjavík, maki Danelíus Sigurðsson, þau eiga þrjú börn. Margrét á dóttur frá fyrra sambandi. 3) Málfríður, búsett í Reykjavík, maki Sveinn H. Guðmundsson, þau eiga tvö börn. Langömmubörnin eru ellefu. Hólmfríður ólst upp á Þorleifsstöðum. Hún stundaði nám í Reykjaskóla í Hrútafirði og í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Hólmfríður og Ellert stofnuðu heimili á Akureyri 1941, fluttu þaðan að Hvanneyri 1944 og að Bárustöðum 1947. Þar stunduðu þau búskap meðfram kennslu Ellerts. Árið 1970 fluttu þau í Kastalagerði 9, Kópavogi. Þegar Ellert lést árið 1994 flutti Hólmfríður á Kópavogsbraut 1b í Kópavogi og bjó þar síðustu æviárin. Hólmfríður vann alla tíð mikið við saumaskap meðfram húsmóðurstörfum. Kveðjuathöfn um Hólmfríði var í Kópavogskirkju í gær, föstudaginn 16. janúar. Hólmfríður verður jarðsungin frá Miklabæjarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég mun ávallt vera forsjóninni þakklát fyrir að fá að kynnast Hólmfríði,
konunni með grænu fingurna. Allt blómstraði og gréri sem hún snerti á.
Listrænt fegurðarskyn hennar og natni var einstök og lýsti sér svo vel þegar
gengið var um heimili og garð þeirra Hólmfríðar og Ellerts við Kastalagerði
9 í Kópavogi. Fyrir garðinn höfðu þau fengið fyrstu verðlaun og
viðurkenningu Kópavogsbæjar oftar en einu sinni.
Fyrir nokkrum árum gekk ég um garðinn með Hólmfríði og fylltist djúpri
lotningu. Þvílík litafegurð og skipulag. Meira að segja grænu grösin og
stráin voru hlýðin og voguðu sér ekki inn á blómabeðin. Þau voru falleg eins
og flauelsmotta þar sem þeim var ætlað að vera.
Við Hólmfríður áttum hestamennsku sem sameiginlegt áhugamál og okkur þótti
báðum vænt um litlu jörðina sem sagan segir að Skallagrímur Kveldúlfsson
hafi gefið húskarli sínum Báreki til að búa sér og sínum í haginn. Nefndi
hann jörðina í höfuðið á sjálfum sér.
Hólmfríður og Ellert bjuggu á Bárekstöðum með kýr, kindur og hesta eftir að
Ellert gerðist kennari á Hvanneyri. Þangað var alltaf gott að koma, stundum
kom ég ríðandi og lagði Hólmfríður þá á reiðhestinn sinn og var riðið um
nágrennið. Ekki datt mér þá í hug að ég og mín fjölskylda ættum eftir að búa
hér á Bárekstöðum.
Ég mun ævinlega vera Hólmfríði þakklát fyrir stuðning hennar á erfiðum tímum
í lífi mínu og hvað hún gladdist þegar jörðin var komin í eigu okkar Jóns.
Hún bar sterkar taugar til staðarins og Vatnshamravatnsins sem hún unni svo
og hafði dregið margan silunginn að landi. Síðar voru grafnir skurðir og
ræst, þegar öllu átti að bjarga með að þurrka upp landið og rækta tún.
Vatnið botnfraus í vetrarhörkum og öll silungsveiði hvarf. Fengu hjónin þá
að leggja 3-4 silunganet í Hvítá í sárabætur. Munnlegum samningum var oft
treyst í þá daga. Skriður komst á að endurheimta vatnið þegar Sverrir Heiðar
Júlíusson tók málið að sér vegna áhuga hans á náttúruvernd.
Ég gleymi ekki þegar ég hringdi í Hólmfríði og sagði henni að það væri búið
að friða vatnið, hvað hún var glöð. Hún sagði mér meðal annars hvar hún
hefði lagt netin sín og hvar hún dró litla bátinn sinn að landi.
Elsku vinkona ég þakka þér fyrir allt og allt. Fyrir trén í garðinum mínum
sem þú gróðursettir með svo mikilli natni og ekki síst fyrir stuðning þinn
fyrr og síðar við mig. Þú sagðist ekki geta trúað því að þetta litla kot
yrði klofið í tvennt sem varð svo raunin. Ég minnist þess þegar við gengum
upp á Kastalann bak við bæinn og þú sýndir mér hvar Jóhannes sonur þinn
hafði reist sér lítið bú. Þú horfðir út yfir vatnið. Engin orð. Við skildum hvor
aðra og þegar inn var komið gengum við um allt húsið og rifjuðum upp gamla
daga. Þú sagir mér í hvaða herbergjum börnin þín hefðu verið. Við spjölluðum
yfir kaffibolla og leituðum í smiðju minninganna.
Megir þú í friði fara meir að starfa Guðs um geim. Innilegar samúðarkveðjur
til barna, tengdabarna og barnabarna, ættingja þinna og vina.

Sigurborg Á Jónsdóttir