Pálína Guðrún Gísladóttir Skálafelli, Suðursveit, fæddist á Smyrlabjörgum í sömu sveit 30. júlí 1912. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands að morgni 10. apríl sl. Foreldrar hennar voru Gísli Friðrik Jónsson, f. 21.11. 1879, d. 5.5. 1937, og Sigurrós Bjarnadóttir, f. 7.10. 1886, d. 29. des. 1968. Pálína átti tvo bræður, eldri var Bjarni hann bjó á, Höfn og var f. 1911, d. 2000, yngri var Sigurjón f. 1918, d. 1965, hann bjó einnig á Höfn. Pálína giftist hinn 17. maí 1942 Jóni Gíslasyni frá Uppsölum í Suðursveit, f. 19. júní 1915, d. 28. janúar 2006. Hann var sonur hjónanna Gísla Bjarnasonar, f. 22 janúar 1874, d. 5. desember 1940, og Ingunnar Jónsdóttur, f. 10. mars 1882, d. 26. mars 1980. Pálína og Jón eignuðust 5 börn þau eru: 1) Ingunn f. 24. apríl 1940, gift Eggerti Bergssyni. Þau búa í Kópavogi og eiga fjögur börn, fyrir átti Ingunn son sem nú er látinn. 2) Róshildur, f. 23. júní 1941, gift Eyþóri Ingólfssyni. Þau búa í Kópavogi og eiga eina dóttur, áður átti Róshildur tvö börn. 3) Þorvaldur Þór, f. 27. nóvember 1942, kvæntur Stellu Kristinsdóttur þau búa í Reykjavík og Stella á tvo syni. 4) Sigurgeir, f. 7. maí 1945, kvæntur Elísabetu Jensdóttur, þau búa í Sandgerði, Sigurgeir á einn son. 5) Þóra Vilborg, f. 27. júní 1953, gift Þorsteini Sigfússyni, þau búa á Skálafelli og eiga fimm syni. Barnabörn Pálinu og Jóns voru 14 talsins en einn úr hópnum er látinn. Barnabarnabörnin eru 20 og barnabarnabarnið er eitt. Pálína ólst upp á Smyrlabjörgum og fékk þá skólagöngu sem í boði var til sveita á þeim tíma. Þegar hún hleypti heimdraganum stundaði hún m.a. vinnu á Höfn, síðan lá leiðin til Vestmannaeyja þar sem hún dvaldi í 5. ár hjá presthjónunum Sigurjóni Þ. Árnasyni og Þórunni Kolbeins. Að þeim tíma liðnum eða veturinn 1936-37, stundaði hún nám á Húsmæðrasólanum á Blönduósi. Sumarið eftir dvaldi hún á Þingeyrum. Eftir þessa dvöl á Norðurlandi var aftur snúið til heimahaganna, og þau Jón hófu búskap á Uppsölum. Þau fluttu að Skálafelli 1942 og keyptu þá jörð skömmu síðar, byggðu allt upp og ræktuðu. Þar var hennar lífsstarf í rúm 60 ár. Hún var heilsuhraust, en þegar heilsu fór að hraka fóru þau hjón á hjúrunarheimilið á Höfn eða í janúar 2005 og nutu þar frábærrar umönnunar starfsfólks þeirrar stofnunar. Pálína var södd lífdaga eftir langa ævi og að morgni föstudagsins langa sofnaði hún vært svefninum langa. Útför Pálínu verður gerð frá Kálfafellsstaðarkirkju í dag 18. apríl og hefst athönin klukkan 14.

Föstudagurinn langi hefur öðlast nýja merkingu hjá mér. Dagurinn er ekki einungis kyrrlátur og heilagur dauðadagur Krists, heldur er hann einnig dagurinn sem hún Pálína, amma mín, kvaddi þennan heim.

Þegar ég lít til baka um horfinn veg, standa minningar frá Skálafelli mjög nærri hjarta mínu. Í bernsku var ég svo heppin að komast upp í sveit á sumrin þar sem ég dvaldist hjá Þóru og Steina, strákunum þeirra, þér og afa. Í huga mínum var sveitalífið ljúft. Þú tókst ætíð á móti mér með heimsins besta grjónagraut fyrir matvant borgarbarnið. Þakklátust er ég fyrir allar stundirnar í ilmgóðu eldhúsinu í Gamla húsinu. Þar voru þjóðfélagsmálin oft í brennidepli og talað var við okkur börnin eins og fullorðið fólk. Margt af því sem þú sagðir og kenndir mér mun fylgja mér lífið á enda. Þú trúðir því að mennt væri máttur og sýndir skólagöngu barnabarna þinna einlægan áhuga og hvattir okkur til frekara náms. Þú hafðir óbeit á leti enda hörkudugleg sjálf. Þegar þú lýstir mannkostum annarra notaðir þú gjarnan orðið "ólatur", sem var hin mesta dyggð. Þegar ég óx úr grasi og fór að ferðast um ókunn lönd ráðlagðir þú mér að eigast aldrei við brúneygðan mann, þeir væru svikulir. Úr varð að ég hef aldrei átt náin kynni við mann með brún augu. Og þú sjálf varst fagurbrúneygð.

Saga þín og afa veitir mér oft innblástur. Þið fæddust í torfkofa, ræktuðuð jörð ykkar af alúð án rafmagns og annarra nútímaþæginda. Afraksturinn var jörðin að Skálafelli sem er okkur öllum svo kær. Í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem 20. öldin hafði í för með sér, finnst mér í raun stórmerkilegt að fá að kynnast konu eins og þér, er tilheyrði aldamótarkynslóðinni sem lifði tímanna tvenna.

Hjónaband ykkar afa var einstakt. Samfylgnin spannaði hátt í 70 ár og í samskiptum ykkar ríkti gagnkvæm virðing, nægjusemi og væntumþykja. Aðskilnaðurinn við afa þegar hann lést fyrir um þremur árum var þér erfiður. Í útförinni hvíslaðir þú að mér að hjátrúin segði að ekkjan færi fljótt ef það rigndi ofan í gröf eiginmannsins. Það dropaði á kistu afa. Þér varð ekki að ósk þinni enda lífsseig með afbrigðum. Þú vildir hafa hann lengur hjá þér. Nú ertu komin í faðm hans á ný. Hvílir við hlið hans í sveitinni ykkar. Á ykkar stað.

Það voru forréttindi að fá að kynnast þér. Ég mun ávallt minnast þín af hlýhug og þakklæti.

Ingunn Eyþórsdóttir.