Guðrún Álfgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1939. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 14. mars 2009. Foreldrar hennar voru Álfgeir Gíslason frá Gröf í Hrunamannahreppi, f. 20.12. 1897, d. 8.8. 1974 og Olga Vilhelmína Sveinsdóttir frá Læk í Önundarfirði f. 30.7. 1901, d. 30.8. 2000. Guðrún átti 2 systkini : Gísla Álfgeirsson f. 29.5. 1931, d. 25.2. 1997 og Kristin Álfgeirsson f. 8.1. 1937. Hinn 5. desember 1964 giftist Guðrún Guðmundi Jóhannssyni húsgagnakaupmanni frá Patreksfirði f. 31.5. 1941, d. 7.6. 1998. Börn Guðrúnar og Guðmundar eru: 1) Olga Björk hjúkrunarfræðingur f. 5.4. 1963, maki: Snorri Hreggviðsson, þeirra börn eru Heiðdís, f. 28.10. 1987, og Harpa, f. 2.11. 1994. 2) Hólmfríður sjúkraliði, f. 16.7. 1968, maki: Sighvatur Bjarnason, þeirra börn eru Fannar Freyr, f. 18.6. 1997 og Brynjar Dagur f. 11.7. 2003. 3) Jóhanna Hjördís þjónustufulltrúi, maki: Jóhannes R. Ólafsson. Þeirra börn eru Dagný Björk, f. 19.12. 1995 og Guðmundur Aron f. 19.7. 2004. Guðrún starfaði við verslunarstörf lengst af ævi sinnar og stunduðu þau hjónin saman verslunarrekstur. Síðustu árin vann Guðrún við sjálfboðaliðastörf hjá Rauða krossi Íslands. Útför Guðrúnar fór fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 20. mars sl.

Gunna amma eins og dætur mínar kölluðu hana hefur lokið sínu lífshlaupi alltof fljótt. Eftir sitja barnabörnin hennar hnuggin og eiga erfitt með að sætta sig við að hún komi aldrei aftur.  Orð eins og hún var alltaf svo fín - hún var svo skemmtileg - það var alltaf svo fínt hjá henni - hún bakaði svo góðar skonsur heyrast nú á heimilinu og þá gægjast tárin fram hjá elstu dótturinni sem nú þarf að baka jafngóðar skonsur og amma gerði, elda skötuna eins og hún gerði og svona mætti lengi telja.

Já, ömmur eru ómissandi þáttur í tilveru barna og skipa sérstakan sess sem þær einar geta átt.  Minningar um ömmur vekja hjá manni vellíðan og hlýleika.  Gunna amma var nýmóðins amma, var ung í anda og þótti gaman að vera skvísuleg eins og dætur mínar segja.  Heiðdís mín ræddi við hana um það sem á daga hennar dreif og það sem gerðist í þjóðlífinu hverju sinni.  Það var hægt að tala um allt við Gunnu ömmu eins og maður væri að tala við jafnaldra sinn, hún skildi mig svo vel. Eftir að Heiðdís fékk bílpróf þótti henni notalegt að koma við hjá ömmu sinni með eitthvað gott úr bakarínu sem þær snæddu svo saman yfir kaffibolla og spjalli. Hennar missir er mikill og saknar hún bæði góðrar ömmu og vinkonu.

Mamma var ákveðin kona og dugleg við hvers kyns störf.  Húsmóðurverkin vann hún af snilld og var ekki lengi að taka til hendinni ef hún fékk tækifæri til þess á heimilum dætra sinna.  Margra góðra stunda er að minnast og hefðu þær mátt vera fleiri. Ég naut þess að vera elsta dóttirin og fékk ofurumhyggju og stuðning við að fara í gegnum unglingsárin nær áfallalaust. Mamma hvatti mig í mörgu t.d að læra á píanó hjá Aage Lorange, lagði drög að ég keypt væri píanó á heimilið og fékk mig til að spila fyrir gesti sem komu í heimsókn og var stolt af.  Hún hafði sínar skoðanir á kærustum og tilvonandi tengdasyni og hafði sínar leiðir  til að hafa áhrif á val  þar um.  Stundum fannst manni símtölin frá henni helst til of mörg ef um smávægileg veikindi var að ræða eða hún skynjaði að líðan dótturinnar var ekki eðlileg. Nú er söknuður yfir því að njóta ekki móðurumhyggju lengur og að hafa lokið hlutverki elstu dóttur.

Það er erfitt að minnast mömmu án þess að pabbi komi þar við sögu.  Þau voru eitt í öllu þau ár sem þeim hlotnaðist að vera saman, upplifðu gleði og sorgir og stóðu saman sem klettur hvað sem á bjátaði.  Þegar ég lít til baka kemur upp í hugann að í undirmeðvitundinn hljóti þeim að hafa verið ljóst að tíminn þeirra í þessu jarðneska lífi yrði stuttur og eins gott að nýta hann vel. Missir mömmu var mikill þegar pabbi féll frá og naut hún þá meiri samvista við börnin sín og barnabörn og var stolt af hverjum áfanga sem þau náðu í sínu lífi.  Hún naut þess að vera í félagsskap góðra vinkvenna, fara á tónleika og sjálfboðaliðastarf hjá Rauða krossinum gaf henni mikið.

Mamma hefur nú loks hitt sinn heittelskaða aftur sem ég veit að hún hugsaði til daglega.  Yfir því má gleðjast og þakka fyrir þann tíma sem þau gáfu mér og fjölskyldu minni.  Í lokin langar mig að minnast bænar sem mamma kenndi mér og ég fór svo oft með sem barn:

Nú er ég klæddur og kominn á ról,

Kristur Jesús veri mitt skjól.

Í guðsóttanum gefðu mér

að ganga í dag svo líki þér .

Olga Björk Guðmundsdóttir.

Elsku mamma!

Engin orð fá því lýst hve mikið ég sakna þín. Vil ekki trúa því að þú komir ekki aftur.  Ég stend mig að því að ætla að hringja í þig og segja þér ýmsar daglegar fréttir og leita ráða hjá þér um mál sem ég veit að þú myndir hafa skoðun á . Það er eins og ég sé að bíða eftir símtali frá þér um hvort þú eigir ekki að kíkja í heimsókn til mín eins og þú varst svo oft vön að gera.

Daginn áður en þú veiktist vorum við saman heima hjá mér að spjalla um daginn og veginn. Ekki hefði ég trúað því að við værum þá að drekka síðasta kaffibollann saman. Daginn eftir veiktist þú alvarlega og við tóku erfiðir tímar fyrir þig og okkur á Gjörgæsludeildinni. Síðasta kvöldið sem þú lifðir fórum við dætur þínar heim glaðar og vongóðar  þar sem þú varst að hressast og líkur á að þú myndir sigrast á veikindum þínum. Það voru því sorgarfréttir að heyra það morguninn eftir að þér hefði hrakað þá um nóttina og ættir skammt eftir ólifað. Um hádegisbil á björtum laugardegi,  umvafin fjölskyldu þinn hætti hjarta þitt að slá.

Við vorum svo nánar elsku mamma í blíðu sem stríðu, því þó stundum slettist uppá vinskapinn þá bættum við það upp með kossi og faðmlagi. Þannig leystum við málin.  Þú hafðir gaman af því að taka þátt í erli dagsins á heimilinu, Fannar Freyr að koma úr fótboltanum eða Brynjar úr leikskólanum.  Þá spurðir þú þá frétta , hvernig dagurinn hefði verið og varst stolt af þeim báðum . Fylgdist með fótboltanum hjá Fannari þínum hvort sem hann var að spila í Kópavoginum eða úti á landi. Þá hringdir þú og vildir fá lýsingu á leiknum og stöðuna og sérstaklega hvort Fannar hefði ekki örugglega skorað mörk. Hann saknar þín mikið og mun vonandi skora mörg mörkin fyrir þig í framtíðinni. Brynjar Dagur segir að þú sért hjá englunum og að þú fylgist með honum sem ég veit að þú gerir. Það er stórt skarð sem þú skilur eftir þig hjá mér og strákunum mínum mamma mín.

Sumarið var þinn tími, þú naust þess að sitja úti á palli hjá mér með kaffibolla og ekki spillti fyrir ef vinkonur mínar komu í heimsókn og sögðu þér frá ýmsu úr þeirra daglega lífi, þá var oft mikið hlegið og ekki að finna neitt kynslóðabil á milli okkar. Þær sakna þín sárt.

Þær eru dýrmætar minningarnar frá fertugsafmæli mínu sem þú áttir heiðurinn af. Þú vildir að afmælið yrði sem glæsilegast og byrjaðir að skipuleggja það á undan mér.  Ræddir við Bjarna Ara , bókaðir hann í afmælið og hringdir svo í systur mínar til að leita frekari ráða um fleira sem gaman væri að gera svo dagurinn yrði mér sem minnistæðastur.  Þarna komu fram þínir helstu hæfileikar, dugnaður og ákveðni.

Söknuðurinn er sár elsku mamma,  lífið er þegar orðið tómlegt án þín. Í huganum tengist söknuðurinn nú ykkur báðum, þér og pabba , foreldrum mínum sem hafa stutt mig í gegnum svo margt. Það er skrýtin tilfinning og sár að geta ekki lengur leitað ráða hjá ykkur og deilt með ykkur skemmtilegum stundum. Nú reynir á okkur dætur ykkar að standa saman og halda minningu ykkar beggja. Þú varst svo mikið fyrir hefðir og hjálpaðir okkur til að gleyma ekki þeim siðum og venjum sem við ólumst upp við,  Þorláksmessuskatan , þú með hvíta svuntu, skálað í Gammel Dansk fyrir pabba og súkkulaðibúðingurinn og margar svona stundir sem munu ylja okkur um hjartarætur og eiga örugglega eftir að kalla fram ófá tárin. Tárin laumast eitt og eitt

en geta þvi liðna ekki breytt,

því það sem góður Guð will taka

fáum við aldrei aftur til baka


Kaldur er dimmur dagurinn er

rétt eins og tilfinningin inni í mér,

óstjórnleg er sorgin mín

ég á eftir að sakna þín.

(Höf.ók.) Með þökk fyrir það sem þú gafst mér í lífinu elsku mamma. Þín elskandi dóttir, Hólmfríður .

Hólmfríður Guðmundsdóttir