Sesselja Ólöf Guðmundsdóttir fæddist í Lambhaga í Skilmannahreppi 24. apríl 1933. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 12. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ásta Jónsdóttir, f. 06.04. 1901, d. 15.09. 1975 og Guðmundur Björnsson, f. 02.09. 1896, d. 27.01. 1989. Systkini Sesselju eru: Guðmundur Óskar, f. 1928 (samfeðra), Guðjón, f. 1929, Björn, f. 1931, Björnfríður, f. 1936, Valdimar, f. 1937, Ásmundur, f. 1939. Sesselja giftist 12.11.1955 Gísla Búasyni, f. 04.03.1928, foreldrar hans voru Margrét X. Jónsdóttir, f. 04.07. 1893, d. 07.04. 1993 og Búi Jónsson, f. 09.02. 1897, d. 30.08. 1973. Börn Sesselju og Gísla eru: 1)Ásta Björg, f. 27.11. 1953, maki Örlygur Stefánsson, f. 10.01. 1953, synir þeirra eru: a) Stefán Gísli, f. 1974, í sambúð með Lindu Dagmar Hallfreðsdóttur, dóttir þeirra er Gígja Kristný, f. 2006. b) Búi, f. 1976, kvæntur Rakel Óskarsdóttur, börn þeirra eru: Ásta María, f. 2001 og Óskar Gísli, f. 2005. 2)Búi, f. 10.04. 1955, maki Harpa Hrönn Davíðsdóttir, f. 11.10. 1961, synir þeirra eru: a) Ágúst Gísli, f. 1990, b) Búi Hrannar, f. 1991, c) Kolbeinn Hróar, f. 1997. Sonur Búa með Sigrúnu Gunnarsdóttur er Davíð, f. 1976, unnusta hans er Ragnheiður Þórðardóttir. Dóttir Búa með Magnýju Þórarinsdóttur er Kristín Edda, f. 1981, maki Ellert Jón Björnsson, börn þeirra eru Anna Magný, f. 2002, Hulda Þórunn, f. 2007 og Styrmir Jóhann, f. 2008. Dóttir Hörpu er Birna Dröfn Birgisdóttir, f. 1982. Sonur Birnu er Hrannar Birgir Einarsson, f. 2006. 3)Erla, f. 25.09. 1956, maki Baldur Gíslason, f. 31.08. 1954 börn þeirra: a) Gísli Arnar, f. 1975, b) Jón Sævar, f. 1978, dætur hans eru Ólöf Erla, f. 2000 og Melkorka Líf, f. 2008. c) Guðrún Sesselja, f. 1982, í sambúð með Sveinbirni Ásgeirssyni, sonur þeirra er Baldur Frosti, f. 2006. 4)Vilhjálmur, f. 23.08.1959, maki Bára Valdís Ármannsdóttir, f. 30.09. 1960. Börn þeirra: a) Ármann Rúnar, f. 1980, kvæntur Sigurást Árnadóttur, börn þeirra eru Sara María, f. 2006 og Óskar Sindri, f. 2007. Dóttir Ármanns Rúnars með Örnu Magnúsdóttur er Bára Valdís, f. 2002. b) Heimir Berg, f. 1982, í sambúð með Rut Ragnarsdóttur. c) Birkir Hrafn, f. 1993. d) Adda Malín, f. 1995.5) Guðmundur, f. 05.04. 1965, maki Sigurlaug Gísladóttir, f. 25.03. 1965, börn þeirra: a) Guðmundur Þór, f. 1986. b) Erla, f. 1990. c) Sesselja Rós, f. 1999. Fyrir hjónaband átti Gísli Búason tvíburasysturnar a) Helgu, f. 18.06. 1948, maki Ketill Bjarnason, f. 1945, b) Margréti, f. 19.06. 1948, maki Axel Jónsson f. 1945. Sesselja eða Sísí eins og hún var oftast kölluð ólst upp að Arkarlæk í Skilmannahreppi frá sjö ára aldri. Framtíðarheimili hennar var á Ferstiklu frá árinu 1953. Sesselja stundaði almenna skólagöngu í heimasveit sinni en fór síðar til náms í Reykholtsskóla og Húsmæðraskólann á Varmalandi. Sesselja og Gísli stunduðu búskap á Ferstiklu alla sína tíð, fyrst í blönduðu félagsbúi við foreldra Gísla og bróður hans, Vífil Búason og konu hans Dúfu Stefánsdóttur, en árið 1967 var búrekstri þeirra skipt upp. Sesselja og Gísli ráku saman sauðfjárbú fram til ársins 2001. Útför Sesselju fór fram frá Hallgrímskirkju í Saurbæ 18. apríl sl.
Hún Sísí var aldurslaus í mínum huga. Hún var sí ung frá fyrstu kynnum okkar. Það var árið 1970 að ég kynntist henni er ég fékk sumarvinnu í söluskála Ferstiklu. Ég var unglingur og Sísí var margra barna móðir, bóndakona og vann í Ferstiklu ásamt dóttur sinni Öddu sem varð kær vinkona mín sem og Sísí sjálf. Því aldrei fann ég fyrir að Sísí væri eldri en við, að vísu var hún töluvert vitrari en við en ástúðin, vináttan og virðingin fyrir öllum gerði hana að jafningja og kærri vinkonu. Sumrin mín á Ferstiklu urðu þrjú og á veturna fékk ég að koma í heimsókn til Gísla og Sísíar eins oft og ég vildi. Alltaf var nóg pláss fyrir gesti og allir velkomnir. Þetta var á þeim tíma sem óstöðvandi umferð var um Hvalfjarðarveginn og mikið að gera í Ferstikluskála. Og það var gaman að vinna þar og ekki síst Sísí að þakka sem mætti á vaktina sína með bros og gleði í hjarta. Það var annasamt hjá okkur og gleðin og kátínan alltaf til staðar, bíll við bíl beið eftir bensín afgreiðslu og biðröð útúr dyrum eftir veitingum.Þetta var á þeim tíma er útvarp Matthildur hljómaði og við flissuðum yfir þeim rótæku mönnum sem fluttu okkur gleðskapinn, ádeiluna og grínið. Sísí elskaði útvarp Matthildi. Sisí var forvitin kona, vel að sér, fylgdist vel með og hafði skoðanir á pólitík og lífinu. Það var mikið spjallað, rökrætt í vinnunni sem og í eldhúsinu heima á Ferstiklu hjá Sísí og Gísla. Sísí fylgdist vel með okkur unglingunum og vildi vita allt um okkur, hún tók þátt í því sem við vorum að gera sem og áhugamálum okkar. Og það var síst minni umferð í eldhúsinu hjá þeim hjónum en skálanum sjálfum, því það var gott að sækja þau heim og sveitungarnir sátu gjarnan þar, fengu veitingar, tóku í spil eða ræddu þjóðmálin. Og alltaf var stutt í hláturinn og gamansemina á þeim bæ.
Hún Sísi var góð móðir, góður félagi og eftir að ég varð fullorðin þá skildi ég hvað hún var góður vinnukraftur. Sísí var konan sem allir atvinnurekendur óska sér, ósérhlífin og vann vinnu sína eins og fyrirtækið væri hennar. Traust og trú og gerði alltaf sitt besta. Hún kenndi okkur unglingunum að vinna, var mátulega ströng en umfram allt hjarthlý og góð vinkona. Ég kveð þessa mætu konu og þakka henni svo undur góð kynni og elskusemi alla tíð.
Kolbrún Jarlsdóttir.