Sólrún Kjartansdóttir fæddist í Reykjavík 25. september 1932. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 31. mars 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri dagblaðsins Vísis, f. 1.5. 1899, d. 3.2. 1957, Jónsson hreppstjóra á Munaðarhóli í Neshreppi á Snæfellsnesi og Ingibjörg Jóna Hall, f. 5.11. 1899, d. 6.4. 1987, Jónasdóttir Thorsteinssonar Hall, verslunarmanns á Þingeyri. Bróðir Sólrúnar er Kormákur, f. 8.12. 1925, kvæntur Hólmfríði Friðsteinsdóttur, f. 28.8. 1929, sonur þeirra Ingvi Þór, f. 30.1. 1952, kvæntur Dagrúnu Ársælsdóttur, f. 16.2. 1952. sonur þeirrra Ársæll, f. 14.11. 1981. Sonur Kormáks og Svövu Ingibjargar Þórðardóttur er Þórður, f. 27.9. 1951. Sólrún gekk í Miðbæjarskóla, varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1953. Lauk kennaraprófi 1958. Var um tíma stundakennari við Laugarnes- og Breiðagerðisskóla. Mestan hluta starfsævinnar var hún bókhaldari og gjaldkeri í Ingólfsapóteki og seinast ritari hjá barna- og unglingageðdeild og Öryrkjabandalaginu, Hátúni 10. Útför Sólrúnar var gerð í kyrrþey.
Sólrún var falleg kona, dökkhærð með brún augu, dálítið suðræn í útliti. Hún bar sig vel og var alla tíð smekklega klædd og vel til höfð. Hún var fagurkeri, átti fallegt heimili, var listhneigð, lék á píanó og málaði listavel á postulín.
Sólrún barst ekki mikið á, var róleg og yfirveguð og gekk hljóðlega gegnum lífið. Hún hafði góða kímnigáfu og var næm á spaugilegu hliðar málanna.
Sólrún var mjög hænd að börnum og náði vel til þeirra. Hún giftist ekki og eignaðist ekki börn. Hún bjó með móður sinni alla tíð þar til hún lést 1987 og var hún henni umhyggjusöm og kærleiksrík alla tíð. Seinni hluta ævinnar tók að bera á sjúkdómi sem skerti mjög lífsgæði hennar og voru seinustu árin afar þungbær. Þessu mótlæti tók hún með æðrulesi og heyrðist aldrei kvarta.
Oft kemur dauðinn í líki óvinar og hrifsar til sín ungt fólk í blóma lífsins en oft kemur hann sem vinur þjáðum líkama og þreyttri sál. En honum fylgir ávallt söknuður. Nú hefur frænka mín lokið veru sinni hér á jörðu. Ég þakka henni samfylgdina og hlýjuna til mín og minna í gegnum árin og bið henni Guðs blessunar í nýjum heimkynnum. Megi hún hvíla í friði. Bróður hennar, konu hans og fjölskyldu ber að þakka frábæra umhyggju og kærleika í erfiðu sjúkdómsstríði og færi ég og fjölskylda mín þeim innilegar samúðarkveðjur.
Jóna Ingibjörg Hall.
Kjartan afi fékk reglulega vinnufélaga í heimsókn sem spiluðu lomber og á sunnudögum voru kannski teknar fram kylfur og kúlur og farið í krokkett á grasflötinni. Ömmusystur mínar og fleira frændfólk kom oft í heimsókn og við slík tækifæri var gjarnan tekið lagið við píanóundirleik. Kjartan lést árið 1957. Sólrún og Ingibjörg amma, bjuggu á Ásvallagötunni í nokkurn tíma þar á eftir en fluttust svo í Fellsmúla og þaðan í Sólheima 23, sem varð heimili þeirra lengst af, og þar bjó Sólrún áfram eftir að Ingibjörg lést árið 1987.
Sólrún var fremur dul kona en átti til skemmtilega kímnigáfu líkt og afi og amma bæði. Hún var glæsileg svo að eftir var tekið, yfirveguð og skipulögð og eftirsóttur starfsmaður í sínu fagi.
Þótt hún væri hlédræg og flíkaði ekki tilfinningum sínum hafði hún ákveðið hlutverk í fjölskyldunni sem kær frænka og fagurkeri. Syni okkar var hún ástrík frænka og fylgdist hún ætíð vel með því sem hann tók sér fyrir hendur. Hún gaf okkur marga fallega hluti sem okkur þykir vænt um.
Sólrún var listræn. Fyrir utan tónlistarhæfileikana var hún góður postulínsmálari og svo var hún annálaður kokkur og voru matarboðin hennar alltaf tilhlökkunarefni enda hafði verið nostrað við hvert einasta smáatriði. Hún hafði áhuga á andlegum málefnum og átti hún örugglega sterka trú sem hún leitaði til þótt ekki hefði hún mörg orð þar um.
Um það leiti sem Sólrún sá fram á að hætta að vinna veiktist hún af Parkinsonsjúkdómi. Síðustu árin hennar voru erfið þótt hún kvartaði aldrei. Sjúkdómurinn gaf engin grið en hún glataði ekki stolti sinu og virðingu og tók veikindum sínum af æðruleysi.
Við erum þakklát fyrir samfylgdina og kærleikann sem ástkær frænka ævinlega sýndi okkur. Í guðs friði.
Ingvi Þór, Dagrún og Ársæll Þór.
Elskuleg vinkona mín Sólrún Kjartansdóttir er látin.
Mér er enn í fersku minni þegar fundum okkar Sólrúnar bar saman. Það var árið 1956 er ég kom fyrst á heimili fjölskyldu hennar sem unnusta Hreins Hjartarsonar, sem nú er látinn, en Sólrún og Hreinn voru bræðrabörn. Sólrún tók mér, ungri stúlkunni, afskaplega vel og bauð mig velkomna í fjölskylduna með þeirri háttvísi og hlýju sem ávallt einkenndi hana.
Á Ásvallagötu 62 var alltaf gott að koma. Kjartan og Ingibjörg, foreldrar Sólrúnar, voru samhent í því að móta þar fallegt heimili - allt var til fyrirmyndar, heimilisandinn friðsæll og reglusemin einstök. Í þessu umhverfi ólst Sólrún upp ásamt Kormáki bróður sínum. Þegar ég kom inn í fjölskylduna bjuggu ungu hjónin Kormákur og Hólmfríður uppi á lofti í fjölskylduhúsinu á Ásvallagötu og þar fæddist sonurinn Ingvi Þór. Hreinn maðurinn minn átti því láni að fagna að vera á þessu heimili öll sín námsár eða þar til við stofnuðum eigið heimili. Oft talaði hann um hvað heimilislífið hafi verið skemmtilegt og taldi hann sig alltaf einn af fjölskyldunni. Þá vitnaði hann gjarnan í Kjartan föðurbróður sinn sem var mjög gamansamur maður. Lét brandarana fjúka og fylgdi þá ósjaldan staka með. Það var alltaf hátíð þegar þessi samheldna fjölskylda kom saman.
Sólrún missti föður sinn 1957 og lagðist þá skuggi yfir þetta rósama, glaðværa heimili. Sólrún bjó alla tíð með móður sinni og bjuggu þær mæðgur saman á Ásvallagötunni og síðustu árin í Sólheimum 23, en þar var Sólrún að mestu tekin við stjórninni. Hún bjó þeim fallegt og notalegt heimili, og alltaf var tilhlökkunarefni að koma þangað í matarboð því Sólrún var listakokkur. Þegar Ingvi Þór og Dagrún kona hans eignuðust soninn Ársæl varð hann um leið sólargeisli þessa heimilis.
Sólrún var góðum gáfum gædd, var mjög góður píanóleikari og stundaði nám í tónlistarskóla ásamt námi í Verzlunarskóla Íslands. Hún vann lengi í Ingólfsapóteki og hjá G. Ólafsson hf. Vinnuveitandi hennar sagði mér að hún hafi verið fullkominn starfskraftur, og lýsir það henni betur en mörg orð. Sólrún hugsaði um móður sína þegar hún var rúmliggjandi og þrotin að kröftum. Alltaf áttum við hjónin athvarf hjá þeim mæðgum eftir að við fluttum úr borginni og það var eins og að vera heima hjá sér. Seinna er við bjuggum í Kaupmannahöfn kom Sólrún með móður sína í heimsókn og dvöldu þær hjá okkur um tíma. Það voru ánægjulegar og eftirminnilegar stundir.
Seinustu árin átti Sólrún við vanheilsu að stríða og dvaldist hún á hjúkrunarheimilinu Eir. Hún var afar þakklát öllum sem önnuðust hana á heimilinu. Einnig naut hún í ríkum mæli umönnunar bróður síns og mágkonu. Viku fyrir andlát hennar heimsótti ég Sólrúnu og það var sama rósemin og æðruleysið yfir henni. Hún átti þá trú að sá Guð sem gaf henni þetta líf myndi taka hana til sín að lokinni ferð hér á jörð.
Ég þakka Sólrúnu samfylgdina og einstaka tryggð alla tíð. Guð blessi minningu hennar.
Sigrún I. Halldórsdóttir.