Lárus Þórarinsson fæddist í Reykjavík þann 10. október 1924. Hann lést á heimili sínu, Hverafold 19 í Reykjavík, að kvöldi 9. janúar sl. Móðir Lárusar var Guðrún Daníelsdóttir, f. 1895, d. 1967, og faðir Þórarinn Kjartansson kaupmaður í Reykjavík, f. 1893, d. 1952. Lárus var 5. í röð 12 systkina, Gerður, f. 1919, d. 2009, Daníel, f. 1921, d. 1992, Guðfinna, f. 1922, d. 2009, Kjartan, f. 1923, d. 1969, Níels, f. 1927, d. 1959, Þóra, f. 1929, Gunnar, f. 1931, d. 1992, Sigríður, f. 1932, d. 2003, Ólöf, f. 1933, d. 2008, Kristveig, f. 1936, d. 1954 og Þórir f. 1939. Lárus kvæntist árið 1946 Álfheiði Einarsdóttur, f. 1. ágúst 1928, d. 10. apríl 1997. Foreldrar hennar voru Einar Sigurðsson, f. 1884, d. 1963 og Pálína Benediktsdóttir, f. 1890, d. 1962. Börn Lárusar og Álfheiðar eru: 1) Kristín, f. 1946, börn hennar eru: Elisabeth Ann, f. 1966, börn hennar eru: Óðinn, f. 1982, hans sonur er Lárus, f. 2000, Orion, f. 1984, dóttir hans er Star, f. 2009, Leifur, f. 1985, Einar, f. 1987, og Patrek, f. 2003. Steven Thor, f. 1967, og David Alexander, f. 1981, börn hans eru: Erik, f. 2000, og Angel, f. 2002. 2) Drengur, fæddur andvana 1947. 3) Ásthildur Lárusdóttir, f. 1949, maki Ásgeir Magnússon, f. 1950, börn þeirra eru: Magnús, f. 1972, börn hans og Heiðrúnar Snæbjörnsdóttur eru: Magnea Ásta, f. 1998, Ásgeir Snær, f. 2002 og Jórunn Ósk, f. 2005. Hanna Lára, f. 1980, maki Halldór J. Sigfússon, börn þeirra eru: Álfheiður María, f. 1999 og Torfi Geir, f. 2004. Lárus Heiðar, f. 1983, maki Eyrún Unnarsdóttir, dóttir þeirra er Ásthildur, f. 2008. 4) Erna , f. 1951, 5) Einar Þór, f. 1952, maki Melanie Thorarinsson, dætur þeirra eru: Kyra, f. 1980, maki Erik Cardella og Brynja, f. 1985. 6) Álfheiður Kristveig, f. 1956, sonur hennar og Ólafs Angantýssonar, Styrmir Þór, f. 1981, barn hans og Söndru Penttinen er Miranda Arína, f. 2008, dætur Álfheiðar og M. Arai, Mithra Björk, f. 1986 og Elín Þóra, f. 1988. 7) Kristín Rúna, f. 1965, börn hennar og Johans Annetorp eru: Emil, f. 1988, og Alice, f. 1994. Lárus og Álfheiður hófu sinn búskap á Laugavegi 76, en bjuggu eftir það lengst á Eiríksgötu 31. Lárus lauk prófi úr Samvinnuskólanum 1943. Eftir stríð fór hann til náms í flugumferðarstjórn, fyrst í Englandi, en síðar í Bandaríkjunum og varð einn þeirra fyrstu til að ljúka því námi. Lárus vann allan sinn starfsferil við flugumferðarstjórn, síðast sem yfirflugumferðarstjóri. Á síðari árum naut hann þess mjög að mála landslagsmyndir. Lárus hafði mikinn áhuga á ferðamálum og vann á sumrin og í frítímum við fararstjórn. Heimili þeirra Lárusar og Álfheiðar var oft miðpunktur þessa áhugamáls og margir sem nutu gestrisni þeirra héldu sambandi við Lárus alla tíð. Íslenskar bókmenntir og saga landsins voru honum hugleikin. Á seinni árum varð áhuginn mestur á sögu Reykjavíkur á tímum umbrota og breytinga. Útför Lárusar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, föstudaginn 15. janúar, og hefst athöfnin kl. 15.
Með nokkrum orðum langar mig að minnast Lárusar bróður míns.
Úr hópi 12 systkina eru nú aðeins tvö eftir, ég undirrituð og Þórir sem er yngstur af þessum stóra barnahópi.
Við nutum þeirrar gæfu að hafa átt yndislega foreldra en þau voru Þórarinn Kjartansson, d. 1952, og Guðrún Daníelsdóttir, d. 1967, sem með miklum dugnaði komu þessum 12 börnum til manns á tímum sem ekki alltaf voru auðveldir.
Þau reistu myndarhús undir hópinn sinn að Laugavegi 76 árið 1929 og faðir okkar stofnaði Vinnufatabúðina í sama húsi, sem starfar enn.
Við vorum lánsöm að alast upp við hlýju, ástúð, dugnað og framtakssemi og horfi ég oft til baka á þessa dugnaðarforeldra okkar sem hlífðu sér hvergi.
Lárusar minnist ég með góðum hug, þegar hann verður jarðsettur á afmælisdegi Gunnars bróður okkar 15. janúar.
Ég sendi börnum Lalla mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðan Guð að blessa ykkur.
Þóra Þórarinsdóttir.
Kveðja frá flugumferðarsviði Flugstoða
Lárus hóf nám í flugumferðarstjórn árið 1945 hjá breska flughernum á Reykjavíkurflugvelli og síðar lauk hann starfsréttindum í TWR APP og OAC. Þar að auki stundaði Lárus framhaldsnám í flugumferðarstjórn erlendis, ásamt námskeiðum í leit og björgun flugvéla. Sem flugumferðarstjóri hóf Lárus starfsferil sinn hjá Flugmálastjórn árið 1946 í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli. Árið 1961 var starfsstöð hans flutt í flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík en þar starfaði hann lengst af sem vaktstjóri.
Síðustu starfsár sín hjá Flugmálastjórn starfaði Lárus sem aðstoðaryfirflugumferðarstjóri við rekstrarsvið flugumferðarþjónustu en hann lét af störfum vegna starfslokaákvæða árið 1991. Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd starfsmanna flugumferðarsviðs Flugstoða þakka Lárusi samfylgdina og farsæl störf hjá Flugmálastjórn. Fjölskyldu og vinum vottum við okkar dýpstu samúð.
Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri.
Elsku pabbi og afi. Þú sagðir oft að „lífið væri það að koma og fara“. Nú ert þú farinn í þína síðustu ferð að okkur vitandi en þú ferð aldrei úr hugum okkar og hjörtum. Þú sóttir okkur á flugvöllinn þegar við komum og þá skildum við að hið stutta ferðalag yrði hin mesta ævintýraför með þér. Með frásögnum þínum málaðir þú myndir og gafst okkur sem góðar minningar. Þú hafðir alltaf frá mörgu að segja, frá uppvexti þínum og úr nútímanum, þú gast fært þig fimlega á milli tímaskeiða og þú lifðir í vitneskjunni um að lífið er ekki allt þar sem að það er séð. Þú bauðst okkur kjötsúpu, rabarbaragraut og pönnukökur, þú last hátt úr Heimsljósinu og vitnaðir í Jónas og þú sýndir okkur landið á þinn sérstaka hátt. Stundirnar með þér voru margar og góðar og söknuðurinn er mikill, en minningarnar björtu um þig, brosið þitt og bjarma augna þinna hjálpa okkur að fylla upp í tómarúmið sem þú skilur eftir þig.
Takk elsku afi og pabbi fyrir þann tíma sem við áttum með þér. Þú lifir áfram í hugum okkar og hjörtum.
Kristín R.Lárusdóttir, Emil Annetorp og Alice Annetorp í Stokkhólmi.