Sveinfríður Jóhannsdóttir fæddist 16. maí 1948 á Halldórsstöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Hún lést á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 7. janúar sl. Foreldrar hennar voru Jóhann Frímann Sigurðsson, f. 28. september 1907, d. 6. janúar 1992, og Anna Sigurveig Sigtryggsdóttir, f. 30. maí 1924, d. 11. desember 2001. Sveinfríður var einkabarn þeirra. Hinn 21. ágúst 1966 giftist Sveinfríður Hermanni Jónssyni, f. 26. febrúar 1940. Foreldrar hans voru Jón Tryggvason, f. 22. júlí 1895, d. 12. desember 1984, og Kristín Jónsdóttir, f. 16. mars 1908, d. 29. mars 2008. Börn Sveinfríðar og Hermanns eru: 1) Kristín Sigurveig, f. 4. júlí 1967, maki Sæmundur Sigtryggsson og þau eiga tvo syni, Davíð og Hermann. 2) Sigurður Jóhann, f. 13. febrúar 1969, maki Jóhanna Jóhannesdóttir og á hún sex börn. 3) Ólafur Tryggvi, f. 29. apríl 1970, maki Ester Lára Magnúsdóttir og þau eiga þrjú börn, Magnús Artúr, Ríkharð og Sveinfríði Hönnu. 4) Guðrún Fjóla, f. 19. október 1971, maki Carsten Tarnow, þau eiga fjögur börn, Sveindísi Björk, Einar Birgi, Isabellu Agnetu og Karoline Amalie. Sveinfríður gekk í Barnaskóla Akureyrar og lauk svo námi frá Gagnfræðaskólanum. Að því loknu fór hún í Húsmæðraskólann á Laugalandi og var þar við nám veturinn 1965-66. Eftir að hún lauk námi flutti hún í Möðruvelli í Eyjafjarðarsveit. Þar stunduðu hún og Hermann félagsbúskap ásamt systkinum Hermanns og fjölskyldum þeirra. Lengst af bjuggu þó Sveinfríður og Hermann á Barká í Hörgárdal eða frá 1986-2007 er þau fluttu til Akureyrar. Útför Sveinfríðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, fimmtudaginn 14. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Í grenndinni veit ég um vin, sem ég á,
í víðáttu stórborgarinnar.
En dagarnir æða mér óðfluga frá
og árin án vitundar minnar.
,/
Og yfir til vinarins aldrei ég fer
enda í kappi við tímann.
Sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er,
því viðtöl við áttum í símann.
,/
En yngri vorum við vinirnir þá,
af vinnunni þreyttir nú erum.
Hégómans takmarki hugðumst við ná
og hóflausan lífróður rérum.
,/
Ég hringi á morgun, ég hugsaði þá,
svo hug minn fái hann skilið,
en morgundagurinn endaði á
að ennþá jókst milli okkar bilið.
,/
Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk,
að dáinn sé vinurinn kæri.
Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk,
að í grenndinni ennþá hann væri.
,/
Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd
gleymdu ekki, hvað sem á dynur,
að albesta sending af himnunum send
er sannur og einlægur vinur.
(Höf. ók. Þýð. Sig. Jónsson),#

Þetta ljóð eða vers kom upp í huga minn þegar mér bárust þær sorglegu fréttir að Sveinfríður  væri látin. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að vera 3 sumur í sveit hjá henni og Hermanni að Möðruvöllum, og á ég margar góðar minningar frá þeim tíma.

Elsku Hermann, Kristín, Siggi, Óli, Fjóla,  fjölskylda  og aðrir vinir,

megi almáttugur góður Guð styrkja ykkur og styðja á þessum erfiðu tímum.

Hugur minn er hjá ykkur.

Guðbjörg Jóna.

Elsku amma okkar.

Þú varst alltaf svo góð og indæl við okkur. Þú varst okkur alltaf innan handar ef okkur vantaði eitthvað, alveg sama hvar í heiminum við vorum. Þú varst alltaf dugleg að passa okkur. Það var alltaf gaman að koma í sveitina og sjá dýrin og hjálpa ykkur afa að sjá um þau. Svo áttirðu alltaf eitthvað gott að borða í kaffinu, heimabakað að sjálfsögðu, og aldrei var maður svangur hjá ömmu. Svo er það okkur ofarlega í minni þegar þú kenndir okkur að spila á spil, leggja kapla og fleira.

Elsku amma okkar. Þetta voru yndisleg ár sem við áttum saman og munu þau aldrei gleymast.

Þín barnabörn,

Davíð, Hermann, Sveindís, Einar, Magnús, Rikharður og Sveinfriður Hanna.