Valgerður Jóhannesdóttir fæddist í Þorleifshúsi á Siglufirði 1. mars 1926. Hún lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut þann 3. apríl 2010. Foreldrar hennar voru Anna Sigríður Þorleifsdóttir, verkakona frá Siglufirði f. 3. desember 1900 d. 28. febrúar 1973 og Jóhannes Guðmundur Hjálmarsson, skipstjóri, f. 16. október 1895 í Hælavík í Sléttuhreppi d. 9. febrúar 1942 . Eftirlifandi systir Valgerðar er Halldóra Hermannsdóttir f. 23. febrúar 1929 á Siglufirði. Maður hennar var Pétur Haraldsson, kaupmaður í Reykjavík f. 3. júlí 1925 d. 28. júlí 1993. Systurbörn Valgerðar eru þau Sigríður f. 2. október 1953, Haraldur f. 14. janúar 1955 d. 2. desember 1972, Margeir f. 15. febrúar 1960 og Vigdís f. 22. mars 1962. Um móðurætt Valgerðar má lesa í ritinu Dalaætt – Guðnýjarætt sem Sigríður Lárusdóttir gaf út árið 2000. Sama ár stóðu systurnar Valgerður og Halldóra fyrir samkomu í Norræna húsinu til að heiðra minningu móður sinnar, en hún hefði þá orðið 100 ára. Valgerður giftist 21. júní 1947 Helga Guðbrandi Vilhjálmssyni, klæðskerameistara frá Hafnarfirði, f. 10. apríl 1918. Sonur Helga af fyrra hjónabandi og stjúpsonur Valgerðar er Friðrik Ágúst Helgason f. 21. febrúar 1939. Kona hans er Margrét Guðmundsdóttir, f. 12. júlí 1939. Þeirra börn eru Guðmundur Viðar f. 15. júní 1960, Helgi Valur f. 13. apríl 1962 og Árný Hulda f. 18. sept. 1970. Langömmubörnin eru níu talsins og eitt langalangömmubarn. Valgerður og Helgi stofnuðu heimili á Siglufirði, reistu sér hús við Hólaveg og bjuggu þar til ársins 1963. Þá fluttust þau til Húsavíkur en 1966 tóku þau sig upp og fluttu búferlum til Hafnarfjarðar þar sem þau bjuggu að Kaplakrika til ársins 1980 er þau fluttu til Reykjavíkur. Frá árinu 2004 bjuggu þau að Sólvangsvegi 1 í Hafnarfirði. Valgerður lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Hún vann við síldarsöltun og við ýmsa aðra almenna verkamannavinnu á Siglufirði og á klæðskeraverkstæði eiginmanns síns. Valgerður vann síðan við ráðskonustörf í eldhúsi Sjúkrahúss Húsavíkur en eftir að hún fluttist suður þá starfaði hún sem matráðskona í Mötuneyti ríkisins að Borgartúni 7 í Reykjavík en síðan hjá Lyfjaverslun ríkisins. Valgerður og Helgi reistu sér tvo sumarbústaði sem þau nutu mjög að dvelja í auk þess sem þau ferðuðust töluvert innanlands sem utan. Valgerður hafði alla tíð afar mikinn áhuga á réttindamálum verkafólks, verkalýðsbaráttu og félagslegu réttlæti og starfaði m.a. við hlið Sigríðar móður sinnar í Verkakvennafélaginu Brynju á Siglufirði, en Sigríður sat lengi í stjórn þess félags og var varaformaður þess 1952-56 og síðan formaður í 5 ár þar til hún fluttist suður til Reykjavíkur árið 1962. Valgerður gegndi trúnaðarstörfum fyrir Brynju, var fulltrúi félagsins í kjarasamningum og varaformaður þess 1963. Útför Valgerðar verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, miðvikudaginn 14. apríl, kl. 15.

Valgerður Jóhannesdóttir, Valla frænka okkar, ólst upp í Þorleifshúsi á Siglufirði að Hvanneyrarbraut 7, húsi sem var lítið utanfrá séð, en furðustórt að innan og rúmaði fjölda íbúa. Þar bjuggu Sigríður móðir hennar, yngri systirin Halldóra, kölluð Dodda, afinn Þorleifur Þorleifsson, amman Valgerður og yngri móðursystkini hennar. Sigríður giftist ekki en ól sjálf upp dætur sínar tvær og urðu þær mæðgur afar samrýmdar. Í þá daga var mikið líf á Siglufirði vegna síldarinnar og nálægðar bæjarins við fengsæl fiskimið. En kjörin voru kröpp og vinnustundir langar og erfiðar fyrir alþýðu manna. Sigríður skipaði sér snemma í hóp baráttufólks fyrir bættum hag verkafólks og varð síðar í forystu fyrir Verkakvennafélagið Brynju, bæði sem varaformaður og síðast formaður á árunum 1957-1962 er hún flutti til Reykjavíkur. Valla drakk því í sig sjálfsbjargarviðleitni og baráttuanda með móðurmjólkinni og entist hún alla tíð. Starfaði hún ötullega með móður sinni í verkalýðsbaráttunni og hélt merki hennar alla tíð hátt á lofti.

Að loknu námi vann Valla ýmis störf en fór um tvítugt suður til Reykjavíkur þar sem örlög hennar réðust með því að hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Helga Vilhjálmssyni klæðskerameistara, og giftist honum 1947. Fluttust þau til Siglufjarðar, komu þar vel undir sig fótunum og reistu sér einbýlishús að Hólavegi þar sem Sigríður og móðursystir hennar Dýrleif Kristjánsdóttur bjuggu hjá þeim. Þau Helgi og Valgerður eignuðust ekki börn saman. Þau nutu sín vel í félagslífinu á Siglufirði og þar átti Valla breiðan frændgarð. Á ýmsu gekk í atvinnumálum þeirra Völlu og Helga. Eftir að verksmiðjusaumuð föt ruddu sér til rúms hallaði undan fæti hjá klæðskerastéttinni. Helgi lét það þó lítið á sig fá enda með afbrigðum laghentur og útsjónarsamur og fór í auknum mæli að fást við smíðar. Verra var þegar aflabrestur varð á sjöunda áratugnum og mjög fjaraði undan atvinnulífi Siglufjarðar. Það féll þeim hjónum ekki að hafa lítið fyrir stafni og eins og margir aðrir Siglfirðingar afréðu þau að bregða búi og flytja sig um set.
Það hljóta að hafa verið afar þung spor að sjá á bak húsinu og öllum vinunum, ættingjum Völlu og félagsstörfunum á Siglufirði. Valla hafði þá verið kjörin varaformaður Brynju og átt mikinn heiður af tímamótasamningum um jafnt kaup fyrir verkakonur og karla. Bókaðar voru sérstakar þakkir til Völlu fyrir frammistöðu hennar í þessum samningum þegar þeir voru samþykktir á félagsfundi 18. júní 1963. (Heimild Brauðstrit og barátta, 2. bindi, bls. 150, höf. Benedikt Sigurðsson, útg. Myllu Kobbi, Reykjavík 1990)
Fyrst fluttust þau til Húsavíkur og síðar á æskuslóðir Helga í Hafnarfirði árið 1966 en þá var orðið ljóst að hlutverki Siglufjarðar sem síldarbæjar væri lokið og að litlu að hverfa þangað. Þau seldu því húsið sitt þar og fengu lítið í aðra hönd sem afrakstur mikils erfiðis. Í Hafnarfirði eignuðust þau lítið hús í Kaplakrika við hraunið í útjaðri bæjarins þar sem nú er íþróttasvæði. Það sannaðist enn á ný að það fer ekki eftir glæsileika húsakynnanna hversu höfðingleg þau eru. Þar var oft glatt á hjalla og gestkvæmt enda fjölskylda Helga stór, fjöldi vina og kunningja og margir Siglfirðingar komnir suður. Þarna var hagleiksmaðurinn Helgi Vilhjálmsson hrókur alls fagnaðar og húsbóndi á sínu heimili. En húsfreyjan Valgerður var hans trausta stoð og stytta og í gestrisni og góðu viðmóti átti hún engan sinn líka. Á þessu menningarheimili voru tónlist og bókmenntir í hávegum höfð, en skilyrði var að listirnar væru skemmtilegar. Þar lærðum við systkinin vel að meta Góða dátann Svejk og Bör Börsson.
Þótt æskustöðvanna væri sárt saknað komst Valla nú aftur í nálægð við Sigríði móður sína og Doddu systur sína, móður okkar systkinanna. Vart er hægt að hugsa sér samrýmdari mæðgur en þær þrjár og nutum við börnin góðs af því. Samskiptin við Völlu og Helga voru hornsteinninn í félagslífi fjölskyldunnar og farið var saman í langar ferðir um landið. Hápunkturinn var alltaf að koma til Siglufjarðar og hitta ættingjana og hátíð í bæ þegar Guðfinna, systir ömmu og Ásgrímur maður hennar komu við í höfuðborginni á leið til og frá vertíð. Miðað við kynni okkar barnanna af þeim Völlu og Helga, Finnu og Grími, Dodda og Ásu og Þorvaldi söngvara, sonar þeirra síðastnefndu, svo nokkrir séu nefndir, virtist sem Siglufjörður væri gleðibær allsnægta. Að vísu bjó fólkið þröngt en maður er jú manns gaman og þröngt mega sáttir sitja. Þegar horft er til baka löngu seinna má skilja að ættingjar okkar á Siglufirði hafa bætt sér upp harða lífsbaráttu og kröpp kjör með góðu skapi, samheldni og náungakærleik. Af þessu öllu átti Valla frænka okkar ætíð nóg og hún var ávallt boðin og búin að rétta öðrum hjálparhönd.
Það er ánægjulegt að mikið hefur verið skrásett um fólkið á Siglufirði og þeirra merku sögu haldið á lofti. Þær systur Valla og Halldóra móðir okkar stóðu fyrir samkomu í Norræna húsinu 3. desember árið 2000 til að heiðra minningu móður sinnar sem þá hefði orðið 100 ára. Sama ár hafði Sigríður heitin Lárusdóttir gefið út ritið Dalaætt Guðnýjarætt af miklum myndarskap og einnig var haldið mikið ættarmót fyrir norðan af því tilefni. Rit Sigríðar Lárusdóttur náði til móðurættar Sigríðar Þorleifsdóttur. Föðurætt hennar er einnig mjög merk og verður vonandi einnig skráð jafn skilmerkilega. Afi Völlu, Þorleifur Þorleifsson, var hinn fjórði og síðasti í röð alnafna sem bjuggu á Siglunesi frá því á 18. öld og stunduðu sjósókn, einkum á hákarl. Eldri bróðir Sigríðar og móðurbróðir Völlu hét einnig Þorleifur Þorleifsson (f. 1899) og fluttist hann til Noregs og tók upp ættarnafnið Thorleifsson. Barnabarn hans Thorleif Thorleifsson hélt uppi heiðri nafna sinna og forfeðra í beinan karllegg árið 2002 með því að sigla til Íslands á seglskútu frá Noregi. Síðan sigldi hann hringinn í kringum landið og staldraði að sjálfsögðu við á Siglunesi. Bauð hann til veislu í skútu sinni í Reykjavíkurhöfn og var Valla þar á meðal stoltra gesta enda var hún ávallt í mjög góðu sambandi við frændfólkið í Noregi.
Valla og Helgi sátu ekki auðum höndum eftir að þau komu suður. Fljótlega byggðu þau sér glæsilegt sumarhús á Vatnsleysuströnd í félagi við Gústa son Helga og Margréti konu hans og síðan annað suður á Reykjanesi. Um svipað leyti gerðu þau sér lítið fyrir og færðu okkur fjölskyldunni að gjöf áhaldahús sem Helgi hafði smíðað og enn stendur á Kjalarnesi þar sem foreldrar okkar áttu sér landskika. Þau fóru í margar ferðir til útlanda, ýmist til að sjá ný lönd eða til að heimsækja skyldmenni og vini. Þau voru bæði samrýmd og félagslynd og höfðu því nóg fyrir stafni eftir að þau komust á eftirlaun.
Fyrir rúmum áratug barðist Helgi við mikinn heilsubrest. Valla stóð við hlið hans eins og klettur og studdi hann á allan hátt. Sami krafturinn einkenndi hana sjálfa í hennar veikindum. Mikið og ósérhlífið ævistarf tók á endanum sinn toll og Valla átti við margskonar lasleika að stríða síðustu árin. Hún barmaði sér aldrei þótt hún hlyti að vera sárkvalin og hélt myndarlegt heimili fyrir þau Helga þar til yfir lauk. Við söknum sárt Völlu okkar, baráttukonunnar æðrulausu og ósérhlífnu. Helga vottum við okkar dýpstu samúð, hans missir er mestur.

Sigríður, Margeir og Vigdís Pétursbörn.