Dagmar Valgerður Kristjánsdóttir fæddist að Bræðraá í Sléttuhlíð í Skagafirði 15. febrúar 1931. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki 15. apríl 2010. Foreldrar Dagmar voru Jóna Guðný Franzdóttir húsfreyja á Róðhóli í Sléttuhlíð, síðar til heimilis á Sauðárkróki, f. 16.3. 1898, d. 2.03. 2000 og Kristján Sigfússon bóndi á Róðhóli í Sléttuhlíð, síðar til heimilis á Sauðárkróki, f. 17.1. 1902, d. 5.5. 1982. Systkini Dagmar eru hálfbróðirinn Stefán Karl Stefánsson f. 1928 og alsystkinin Valgerður f. 1929, Jóhanna Marín, f. 1934 og Sigmundur Franz, f. 1941. Eiginmaður Dagmar var Kári Steinsson frá Neðra Ási í Hjaltadal, f. 2.4. 1921, d. 24.7. 2007, íþróttakennari að mennt, síðast sundlaugarvörður á Sauðárkróki. Þau gengu í hjónaband 30.12. 1951. Börn þeirra eru: 1) Valgeir Steinn f. 1951, eiginkona Guðbjörg S. Pálmadóttir f. 1952. Þau eiga Guðrúnu Jónu, Dagmar Hlín, Árna Geir og Pálma Þór, og þrjú barnabörn. 2) Kristján Már f. 1952. Hann á Pál Rúnar og Söndru og eitt barnabarn. 3) Steinn f. 1954, eiginkona Kristín Arnardóttir, f. 1957. Þau eiga Sindra Frey, Helga og Hlyn, en Steinn á tvö sérbörn, Ástu Lilju og Kára. Steinn á þrjú barnabörn. 4) Soffía f. 1956, eiginmaður Hafsteinn Guðmundsson, f. 1957. Þau eiga Heklu Sól, en Soffía á frá fyrra hjónabandi Kára Þór. 5) Jóna Guðný f. 1963, eiginmaður Gunnar Á. Bjarnason, f. 1962. Þau eiga Ásthildi. Dagmar ólst upp á Róðhóli frá eins árs aldri hjá foreldrum og systkinum og sótti barnaskóla á Skálá fram að fermingu. Hún fór á húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði og tengdist þar vinaböndum sem vörðu alla tíð. Dagmar og Kári áttu sín fyrstu hjúskaparár í Neðra-Ási í Hjaltadal en fluttu á Sauðárkrók, að Skógargötu 3b árið 1952 og áttu þar sambýli með foreldrum Kára, en reistu sér hús og bjuggu á Hólavegi 23 frá 1964. Dagmar annaðist heimili sitt af myndarskap, saumaði og prjónaði eins og tíðkaðist á þeim árum. Hún var söngelsk og lék á gítar á yngri árum. Gestkvæmt var á heimilinu og var ávallt tekið vel á móti gestum, ættingjum og vinum, veitt húsaskjól og matur hvort sem um var að ræða systkinabörn í skólasundi, ættingja í vinnu á sláturhúsi eða konur sem komu úr nærsveitum til að fæða börn. Dagmar unni fjölskyldu sinni og sóttust barnabörnin mjög eftir því að dvelja hjá ömmu og afa á Króknum. Dagmar vann ýmis störf sem ung kona, m.a. sem starfsstúlka á Hólum í Hjaltadal og um skeið sem þjónustustúlka á Bessastöðum. Hún vann við fiskvinnslu eftir að börnin uxu úr grasi en síðustu starfsárin vann hún við Sundlaug Sauðárkróks. Dagmar dvaldi síðustu mánuðina á Deild II á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og hlaut þar góða umönnun í veikindum sínum. Útför Dagmar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 24. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 16.
Ég geymi fallegar og góðar minningar um mömmu og þær umlykja líf mitt allt. Hún var alltaf til staðar í gleði og sorg. Hún sá um heimili og börnin af miklum myndarskap. Þegar ég svo eignaðist hana Ásthildi mína þá kom mamma suður og studdi mig og undirbjó þessa dýrmætu tímamót með okkur, að fá nýtt líf í heiminn. Ásthildur mín fékk að njóta þess að vera hjá ömmu og afa margoft og er ég þakklát fyrir það.
Hún mamma kenndi og gaf mikið af sér. Það voru hagnýt atriði eins og eldamennska, saumaskapur, gítargrip og dansspor, en síðan allt hitt, það góða innræti sem var gott að hafa sem fyrirmynd í lífinu. Þolinmæði átti hún næga, ástúð og umhyggju. Mér fannst ég meira að segja misnota gæsku hennar þegar ég smákrakkinn var að sníkja nammimola úti í búð rétt fyrir hádegismat eða þegar hún færði mér súkkulaðiköku og mjólkurglas í rúmið á kvöldin þegar garnagaulið hélt mér vakandi.
Mér þótti spennandi að heyra hana segja frá lífinu þegar hún var ung kona. Þá kom glampi í augun og smá prakkarasvipur. Það voru sögur af skólalífinu á Löngumýri, þegar vinkonurnar voru að fara á böll og skemmta sér, vinnan á símstöðinni í Varmahlíð, saklausir hrekkir stelpnanna við Hólapiltana og fleira og fleira. Hún átti sér þann draum að verða ljósmóðir þegar hún var ung kona.
Hún mamma var glæsileg kona og smekkleg. Lét sauma á sig marga fallega kjóla því það var við hæfi að vera alltaf í nýjum kjól á stórum tímamótum og skemmtunum. Hún saumaði sér upphlut og ekki má gleyma öllum fötunum sem hún saumaði á okkur börnin.
Þegar kom á efri ár fór heilsan að láta undan. Pabbi studdi hana vel hin síðustu ár og maður sá hve kærleikurinn var ríkur þeirra á milli. Eftir að hann kvaddi fór að halla undan fæti hjá mömmu og meinin komu í ljós. Mamma var stolt kona og vildi helst sem minnsta aðstoð og hún leit aldrei á sig sem aldraða og vildi alls ekki fara inn á elliheimili. Hún kvartaði aldrei og tók veikindum sínum af miklu jafnaðargeði. Hún fékk góða umönnun síðustu mánuðina á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki - hjartans þakkir fyrir það. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera við dánarbeð móður minnar og geta kvatt hana, beðið bænirnar sem hún kenndi okkur og boðið henni góða nótt áður og kysst á enni hennar, áður en hún sofnaði svefninum langa. Pabbi hefur svo tekið á móti henni og þau svifið létt saman í dans, laus undan þrautunum.
Elsku mamma: ég vil þakka þér fyrir lífið mitt og að hafa glætt það hlýju og umhyggju. Mér þykir við hæfi að nota ljóð Franz Jónatanssonar langafa míns sem hann orti til móður sinnar við andlát hennar, þegar ég kveð þig:
þennan yfir táradal.
Gæskuríkur Guð þig blessi
og greiði veg að himnasal.
Þú sagðir þegar neyð var nærri:
nú mun koma hjálpin stærri.
Margan svangan saddir þú,
í sannri von og sterkri trú.
Þakkarorð í síðsta sinni
senda feginn vil ég þér.
Þú mig leiddir úti og inni
og allt hið besta vildir mér.
Þú hefir gengið þrautaveginn,
þín er sælan hinumegin.
Ég af hug og minni mæli
móðir kæra. Vertu sæl.
(Franz Jónatansson frá Málmey)
Guðný.