Engilbert Þórarinsson fæddist á Stokkseyri 4. ágúst 1922. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Ljósheimum, 15. október 2010. Foreldrar hans voru Þórarinn Guðmundsson frá Sandprýði á Stokkseyri, f. 1. júní 1889, d. 10. september 1981 og kona hans Jóna Torfadóttir, f. 20. október 1891, d. 16. september 1930. Engilbert ólst upp hjá foreldrum sínum til 5 ára aldurs, þar til hann fór í fóstur að Traðarholti í Stokkseyrarhreppi og var þar fram á unglingsár. Þegar Þórarinn faðir hans kvæntist aftur flutti Engilbert heim til þeirra. Seinni kona Þórarins var Guðrún Júlíusdóttir, f. 17. október 1904, d. 1. janúar 1996. Engilbert átti 6 systkini. Þau voru, Margrét, f. 1913, d. 1937, Sigurður, f. 1916, d. 1917, Sigríður, f. 1918, d. 1999, Torfhildur, f. 1920, d. 1921, Ásgeir, f. 1924, d. 1981 og Jóna Torfhildur, f. 1934, hálfsystir hans, samfeðra. Þann 1. júní 1949 kvæntist Engilbert eftirlifandi eiginkonu sinni Helgu Frímannsdóttur, f. 20. janúar 1931. Þau eignuðust 4 börn sem eru, Jóna Kristín, f. 24. júlí 1949, gift Guðfinni Karlssyni, f. 9. ágúst 1947. Þau eiga 3 börn, Reyni, Hörpu og Hrönn og 9 barnabörn. Þórunn, f. 30. júlí 1950, d. 17. mars 2007. Hún lét eftir sig tvær dætur þær Bjarneyju og Helgu Bettý og 4 barnabörn. Heiðar, f. 14. janúar 1958, sambýliskona hans er Barbara Ósk Ólafsdóttir, f. 8. september 1966. Hann á 3 börn og eina fósturdóttur frá fyrra hjónabandi, þau Helga Þór, Irmu Rán, Yrsu Brá og Sif og 4 barnabörn. Dagný, f. 4. febrúar 1964, gift Brynjari Jónssyni, f. 16. febrúar 1960. Þau eiga 3 börn, Bylgju, Birgittu og Birgi Þór og eitt barnabarn. Engilbert stundaði sjómennsku frá því um fermingu með föður sínum á áraskipi og var nokkrar vertíðar á sjó á Stokkseyri og eina vertíð í Vestmannaeyjum, en á síld á sumrin. Hann lærði rafvirkjun hjá Kaupfélagi Árnesinga, tók sveinspróf 1951 og starfaði þar í mörg ár. Seinna vann hann hjá Rafveitu Selfoss, síðar Selfossveitum sem rafmagnseftirlitsmaður þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Engilbert og Helga bjuggu allan sinn búskap á Selfossi. Útför Engilberts fer fram frá Selfosskirkju í dag, 23. október 2010, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Í dag fylgi ég föður mínum síðasta spölinn á þessari jörð.  Á slíkri stundu koma minningarnar upp í hugann, ég var ekki mjög gamall þegar ég fór að elta pabba í bílskúrinn á Sunnuveginum. Þar var alltaf verið að gera við og skúrinn mikil töfraveröld fyrir lítinn strák. Pabbi var gjarnan að gera við hin og þessi raftæki fyrir fólk, skúrinn var endalaust völundarhús um skúffur og geymsluílát sem innihéldu alls kyns íhluti og smádót sem hugsanlega gæti nú komið að góðum notum við lagfæringar. Svo ekki væri nú minnst á teygjurnar sem snyrtilega voru geymdar í litlum kippum um allt.
Pabbi átti við erfið veikindi vegna bakmeiðsla og þurfti að undirgangast uppskurð þegar ég var að hefja unglingsárin. Þá breyttist ýmislegt því hann gat ekki lengur unnið sömu vinnu og áður. Á sjöunda áratugnum var pabbi mikill sjúklingur vegna baksins og Þórunn næstelsta systir mín veiktist líka vegna þessa arfgenga lélega baks. Þó þröngt hafi verið í búi á þessum tíma varð ég aldrei var við að við liðum skort, mamma hélt utan um heimilið af skörungsskap, saumaði og prjónaði auk þess að vinna í sláturhúsinu á haustin.
Ég byrjaði að búa á meðan ég var í enn í menntaskóla og alltaf átti pabbi tíma fyrir okkur ef á þurfti að halda og mætti þá með verkfæratöskuna, hann var eiginlega ómögulegur maður ef ég gerði eitthvað sjálfur og bað ekki um aðstoð. Hann var óeigingjarn á tíma sinn og var alltaf til staðar fyrir okkur systkinin. Mér er minnisstætt að hann skóf bílinn á morgnana fyrir eiginkonu mína en ég var þá í burtu að vinna.
Fjölskyldan okkar stundaði ferðalög mikið, fyrstu árin í botnlausu tjaldi að þess tíma sið. Það var mikil framför þegar við eignuðumst tjald með botni og útskoti, að ekki sé talað um vindsængur sem mátti svo breyta í fínasta sófa að deginum. Iðulega var ferðast um í stórum hópum, margar fjölskyldur saman og voru þessar ferðir mikil skemmtun fyrir okkur börnin. Þjórsárdalurinn var aðalstaðurinn og margar ferðir farnar þangað. Stundum var farið lengra, í Húsafell eða Landmannalaugar og má sjá hvaðan áhugi minn á ferðalögum er kominn.
Ég fékk tækifæri síðar til að endurgjalda pabba þegar ég gat boðið honum í annarskonar ferðamennsku en við fórum í fyrstu jeppaferðina hans 1996, þá í Svínárnes á Hrunamannaafrétti í febrúarmánuði. Þá höfðu orðið miklar tækniframfarir með tilurð gps tækja sem sá gamli hafði aldrei kynnst. Leist honum ekkert á þegar jeppamennirnir ákváðu að færa sig af stikuðum veginum, sem var erfiður sökum krapa, upp í meiri hæð og var sannfærður um að hópurinn myndi villast í myrkrinu og snjónum og verða úti í þokkabót. Hann hafi ekki trú á því að hægt væri að rata svo nákvæmlega eftir þessu gps tæki sem sonurinn hafði smellt svo kyrfilega í mælaborðið. Þegar við svo keyrðum beint í hlað við skálann sá ég hvar yfir andlitið á honum breiddist þessi kostulegasti undrunarsvipur sem ég hef nokkurn tíma séð, ég get enn skemmt mér við þá minningu.
Síðar kom hann með í lengri ferð í Setrið, skála Ferðaklúbbsins 4x4 við Hofsjökul, þaðan hringuðum við jökulinn og ókum inn að Hveravöllum. Eftir að hafa gist þar skyldi aka Langjökul langsum og koma niður hjá Skjaldbreið á heimleið. Það tók nokkurn tíma að sannfæra pabba um að þetta væri gjörlegt og óhætt, hvað þá að það væri besta og einfaldasta leiðin heim. En jökullinn reyndist hátoppurinn á ferðinni, veðrið yndislegt og frábært færi á jöklinum.
Eftir þetta hafði pabbi engar áhyggjur af jeppaferðum mínum og annarra í fjölskyldunni en sýndi þeim brennandi áhuga og hafði gaman af því að spjalla um ferðirnar mínar og sjá myndir af þeim.
Ég er ósegjanlega glaður og þakklátur fyrir að hafa komist í sumar með pabba og mömmu inn í Þórsmörk, aðeins fáeinum dögum áður en hann veiktist og lagðist inn á spítala. Þá varð ljóst að aðeins tveimur til þremur dögum munaði á því að hann kæmist í þannig ferð. Við fórum í dagstúr inn í Bása og í Húsadal yfir Krossá á vondu vaði þar sem jeppinn flaut augnablik upp en allt fór þó vel og pabbi var alsæll með ferðina.
Þegar pabbi var ungur drengur þótti honum erfitt að bera nafnið Engilbert og hafði liðið fyrir það enda verið strítt með því. Hann hafði því haft á orði að ekki væri eftirsóknarvert að nefna í höfuðið á sér. En tímarnir breytast og má nú sjá ýmis mannanöfn sem ekki hefði verið gjörlegt að bera áður fyrr. Yngsta dóttir mín eignaðist dreng í apríl í fyrra, frumburð sinn og ákvað að nefna hann í höfuðið á langafa sínum. Við Barbara, konan mín fengum að bera honum fréttina. Þar sem við sátum yfir kaffisopa í eldhúsinu í Austurmýrinni læddi ég því að honum að drengurinn ætti að heita Engilbert. Pabba setti hljóðan og ég er ekki frá því að honum hafi vöknað um augun í svolitla stund. Kvöldið leið svo hljóðlega þar sem honum var algjörlega orðavant, aðeins mátti heyra stöku jahhá eða ég er svo aldeilis. En hann var stoltur og glaður yfir þessari gjöf.
Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að hafa hann pabba minn svona lengi hjá mér, pabbi var góður maður sem aldrei mátti aumt sjá og var okkur krökkunum ósegjanlega góður.
Ég er viss um að vel verður tekið á móti honum hinu megin af Þórunni systur, systkinum og mömmu hans sem hann saknaði svo sárt.
Hvíl í friði pabbi minn, við sjáumst svo seinna.

Heiðar Snær.