Jónída Stefánsdóttir fæddist á Skútustöðum í Mývatnssveit 6. mars 1914. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík 24. janúar 2011. Foreldrar hennar voru hjónin Stefán Jón Benediktsson bóndi f. 27. 1. 1891, í Reykjahlíð, d. 6.7. 1971, og Sigríður Jónsdóttir f. á Stöng 3. 2. 1891, d. 15.12. 1969. Jónída var elst þriggja systkina sem voru, auk hennar, Brynhildur f. 6.9. 1915 á Skútustöðum, d. 22.3. 2006, og Sigurður, bifvélavirki, f. 25.9. 1929 í Sandvík, búsettur á Akureyri. Jónída fluttist barn að aldri að Sandvík í Bárðardal þar sem foreldrar hennar bjuggu í 25 ár og þar ólst hún upp. Jónída giftist 1. júlí 1934 Sölva Steinari Jónssyni bónda og síðar hreppstjóra, f. 18. apríl 1904 á Sigurðarstöðum í Bárðardal, d. 10. maí 1978. Foreldrar hans voru hjónin á Sigurðarstöðum, Jón Jónsson, f. 22.2. 1875, d. 26.2. 1935, og Jónína Sölvadóttir, f. 22.4. 1874, d. 23.7. 1954. Börn Jónídu og Sölva eru: 1) Steinunn, f. 23.9. 1935. Maður hennar var Kristján Jónsson, kennari, f. 19.10. 1930, d. 31.5. 1992. Dætur þeirra eru: a) Inga Dóra, hjúkrunarfr. f. 30.1. 1967, maður hennar er Auðunn Kjartansson, múraram., f. 5.12. 1965. Synir þeirra eru: aa) Kjartan Sölvi, nemi í HR, f. 7.8. 1989, ab) Kristján Einar, nemi í VÍ, f. 1.10. 1993, og ac) Stefán Heiðar, f. 23.3. 1998. b) Ída Sigríður, bókasafns- og upplýsingafr., f. 8.6. 1977, maður hennar er Daði Kristjánsson, lögfr., f. 4.10. 1973, þeirra barn er Ása Melkorka, f. 22.3. 2008. 2) Ríkarður, var bóndi, nú bókhaldari á Sigurðarstöðum, f. 26.6. 1942. Þau Jónída og Sölvi hófu búskap 1934 á Sigurðarstöðum, fyrst í félagi við foreldra hans og frá 1936 í félagi við Sigurð bróður Sölva og Kristínu Skúladóttur konu hans. Sigurður lést um aldur fram 1939 og Kristín hætti búskap vorið 1943. Eftir það bjuggu þau Jónída og Sölvi á Sigurðarstöðum allt til að Sölvi lést 1978. Eftir það átti Jónída heima með Ríkarði syni sínum sem hafði tekið við á Sigurðarstöðum. Vann hún við bústörf og vélprjón með heimilisstörfum. Hún hélt andlegum styrk og heilsu alla tíð og var ávallt létt í lund, jákvæð og brosmild. Síðustu þrjú árin dvaldi hún á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Jarðarför Jónídu fer fram frá Lundarbrekkukirkju í Bárðardal í dag, 5. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 14.
Gömul vinkona hefur kvatt þetta jarðlíf, hvíldinni fegin. Árin hennar hefðu orðið 97 þann 6. mars n.k. Ída, eins og hún var oftast kölluð mundi tímana tvenna. Sex ára gömul flutti hún með foreldrum sínum og systur, Brynhildi, sem var ári yngri en hún, úr Mývatnssveit í Sandvík í Bárðardal. Foreldrar þeirra stóðu frammi fyrir vali um að flytjast milli sveita eða til Húsavíkur.
Stefán, sem var laghentur og mannblendinn, en ekki sérstaklega hneigður fyrir búskap, hefði ef til vill kosið þéttbýlið. En Sigríður óttaðist berklana og atvinnuleysi og skort á hollari fæðu fyrir börnin á mölinni. Sveitin varð ofan á. Það var fastur ásetningur Stefáns að kynnast sem fyrst og sem best nýjum sveitungum. Þau voru ekki rík af veraldargæðum, en þeim mun ríkari af samviskusemi, hjálpsemi og staðföstum vilja að standa alltaf í skilum með allt og við alla.
Þau voru bæði söngvin sem kallað var og strax gekk Stefán til liðs við kirkjusönginn ótilkvaddur og mig minnir að fljótlega væri Sigríður komin þangað líka og þau farin að taka þátt í öðrum kór sem þá var æfður í sveitinni. Söngurinn göfgar og gleður og gegnum hann var auðvelt að kynnast og þau urðu fljótt vel kynnt. Litlu systurnar áttu bernskusporin í Sandvík, léttar í lund og léttar á fæti og fannst ekki tiltökumál að labba eða hlaupa að hitta vinkonurnar á næstu bæjum 5-10 km leið. Heyskapurinn enginn leikur samt, þurfti að sækja langar leiðir upp í heiði, bera upp hey og aka því heim að vetrinum og fljótt gerðar kröfur til þeirra að standa sig við verkin bæði úti og inni. Ída var pabbastelpa og það fylgdi henni alla ævi að því fylgdu sérstakar kröfur um heiðarleika og lífsgildi að vera dóttir Stefáns í Sandvík. Sigurður bróðir þeirra fæddist svo 1929. Árið 1927 var samkomuhús sveitarinnar byggt í Sandvík. Íbúð ábúenda var kjallarinn undir samkomuhúsinu og því fylgdi margskyns umstang og átroðningur, en líka líf og fjör fyrir ungdóminn. Í tíu ár eftir að Ída var gift og farin að heiman var Binna, systir hennar eftirsóttasta daman á dansleikjum þess tíma og ég ætla að Ída hafi staðið henni jafnfætis meðan sú tíð varaði. En 1. júlí 1934 giftist hún bóndasyni á næsta bæ, Sölva Jónssyni á Sigurðarstöðum. Hann var 10 árum eldri en hún, f. 18. apríl 1904. En brúðkaupið var í skugga sorgar. Veturinn áður dóu bæði Jón, faðir Sölva, sextugur að aldri, og systir hans, Anna Steinunn, 22 ára gömul og nýlega gift frænda sínum, Sigurði Baldurssyni á Lundarbrekku, bónda þar. Gunnlaugur, bróðir Sölva hafði þá byggt sér nýbýlið Sunnuhvol í landi Sigurðarstaða. Ídu og Sölva fæddist dóttirin Anna Steinunn 1935. Árið 1936 kom Sigurður bróðir Sölva til búskapar á Sigurðarstöðum, ásamt Kristínu Skúladóttur konu sinni. Hann dó úr botnlangabólgu eftir uppskurð í heimahúsi haustið 1939. Kristín Skúladóttir bjó með ráðsmanni á Sigurðarstöðum til 1943, að hún flutti til foreldra sinna á Keldum á Rangárvöllum með tvo unga syni. Á Sigurðarstöðum voru þá eftir Sölvi og Jónída með börn sín tvö, en sonurinn Ríkarður, fæddist vorið 1942. Tvær gamlar konur, Jónína Sölvadóttir móðir Sölva og Þuríður Jónsdóttir, föðursystir hans voru líka á heimilinu. Jónína hafði alltaf haft gaman af ferðalögum og nú brá hún á það ráð að ferðast milli barna og vina og var minna heima. Þuríður var ógift og barnlaus og hafði alltaf átt heima á Sigurðarstöðum, fékk sér snemma prjónavél og hafði atvinnu af prjónaskap, en gekk að heyskap á sumrin og átti einhverjar kindur. Þessi fyrstu búskaparár voru Ídu ekki auðveld. Óróleiki og kvíði sóttu að henni í kjölfar áfallanna og henni fannst hún innilokuð og bæld. Á þeim árum þótti ekki við hæfi að giftar konur væru að sækja skemmtanir og mannamót. Sjálfsagt þótti að bændurnir sæktu fundi og ferðuðust eins og þarfir og vilji stóð til. En konur skyldu vera heima og gæta bús og barna.
Ída átti vænan mann og góð börn, en það breytti því ekki að hún saknaði æsku sinnar. En með henni og Þuru frænku tókst einlæg og traust vinátta sem varð báðum dýrmæt og varði meðan ævi Þuru entist. Þegar hún lést 1956 sagðist Ída hafa upplifað meiri sorg og söknuð en okkur óraði fyrir. Ída var löngu áður farin að aðstoða hana við prjónaskapinn og eftir lát hennar hélt hún áfram að sitja við prjónavélina og varð í reynd arftaki Þuríðar. Á efri árum var Ída virkilega skemmtileg. Hún hafði gott skopskyn og gat gert sér mat úr broslegum hlutum í hversdagslífinu
Henni var létt um að segja frá og settist stundum niður og skrifaði upp minningabrot sem geymast. Hún var beinskeytt og hreinskilin í tali svo mönnum gat þótt nóg um en það beindist ekkert síður að hennar nánasta fólki og hún var fyrirmyndar húsmóðir, þótt matargerð höfðaði ekki til hennar eftir því sem hún sagði sjálf. Margt væri hægt að segja fleira en hér skal látið staðar numið.
Ríkarður, Steinunn og aðrir afkomendur. Við hjónin þökkum fyrir að hafa haft hana Ídu meðal okkar sem þátttakanda í lífinu í gleði og sorg svo lengi sem við munum, og vonum að nú sé hún frjáls eins og fuglinn.
Hjördís Kristjánsdóttir.