Ingimar Ágúst Grétar Þiðrandason fæddist í Sæbóli í Ólafsfirði 24. júní 1937. Hann lést á heimili sínu, Hlíðarvegi 27, Ólafsfirði, 8. júní 2013. Foreldrar hans voru Þiðrandi Ingimarsson, fæddur í Ólafsfirði 30. ágúst 1903, d. 14. apríl 1967 og Guðrún Jónína Antonsdóttir, f. 29. júlí 1906, d. 10. október 1942. Alsystir Ingimars er Guðrún Steinunn Sigurbjörnsdóttir, f. 13. apríl 1942. Hálfsystkini hans eru S. Hulda Þiðrandadóttir, f. 18. febrúar 1945, Halldór Ævar Þiðrandason, f. 31. maí 1946 og Sveinbjörn Þóroddur Þiðrandason, f. 8. mars 1948, d. 5.júlí 1965. Uppeldisbróðir Ingimars er Gestur Heiðar Pálmason, f. 20. mars 1942. Fyrstu fimm árin ólst Ingimar upp í Sæbóli Ólafsfirði ásamt Guðrúnu móður sinni og Þiðranda föður sínum. Í október 1942 lést móðir hans og skildi þá leiðir þeirra systkina, Guðrúnar Steinunnar og Ingimars. Móðuramma Ingimars tók Guðrúnu í fóstur en Ingimar bjó áfram hjá föður sínum. Góð tengsl héldust þó á milli þeirra systkina. Árið 1946 giftist Þiðrandi Snjólaugu Jónsdóttur, f. 13. september 1913 í Brekkukoti í Óslandshlíð, d. 18. apríl 1996, og gekk hún Ingimari í móðurstað. Ingimar bjó í Sæbóli til ársins 1974 en þá flutti hann, ásamt Snjólaugu og Gesti, að Hlíðarvegi 27 í einbýlishús sem hann hafði byggt sjálfur. Ingimar byrjaði snemma að stunda sjóinn og varð sjómennskan starfsvettvangur hans. Fjórtán ára gamall byrjaði hann að róa á trillunni Gylfa ásamt föðurbróður sínum Ragnari Ingimarssyni. Reri hann síðan með Svavari Antonssyni og Magnúsi Jónssyni á trillum sem þeir áttu. Þegar Ingimar var 17 ára fór hann á vertíð til Reykjavíkur á Kára Sölmundarson ÓF og var á honum tvær vertíðir. Eftir þetta var hann um tíma á Stjörnunni með Kristjáni Ásgeirssyni og Stíganda ÓF 25 með Sigurfinni Ólafssyni. Eftir að bátarnir fóru að róa frá Ólafsfirði að vetri til fór hann á Þorleif Rögnvaldsson ÓF með Jóni Sigurpálssyni. Síðan fór hann á Sæþór með Óla Sæm. Einn vetur beitti hann á Arnari ÓF 3 og vorið 1973 fór hann yfir á Ólaf Bekk ÓF 2. Árið 1974 fór Ingimar til Frakklands til að sækja nýjan skuttogara, Sólberg ÓF 12. Ingimar var á Sólberginu, lengst af með Birni Kjartanssyni, til ársins 1997 er hann kom að mestu leyti í land. Í kringum 1984 keypti Ingimar sér trilluna Guðrúnu Óf 53 og reri á henni yfir sumartímann. Trillan, einbýlishúsið og fjölskyldan var honum allt. Útför Ingimars fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 25. júní 2013, kl. 14.

Í dag kveð ég yndislegan frænda minn Ingimar Ágúst Grétar. Mig setti hljóða og ég varð svo yfirmáta sorgmædd þegar eiginmaður minn tjáði mér skyndilegt fráfall hans þann 8. júní síðastliðinn.
Sumir fæðast stórmenni í huga manns og Ingi frændi var einn af þeim. Hann var dagfarsprúður maður, einstakt ljúfmenni sem mælti ekki styggðaryrði um nokkurn mann og mikil barnagæla. Margar af mínum fyrstu minningum tengjast honum og eru mér nú svo dýrmætar og hjartfólgnar.
Vinnusemi og natni var Inga í blóð borin. Hann var harðduglegur og kunni því illa að vera iðjulaus. Fjórtán ára að aldri steig hann sín fyrstu spor í sjómennskunni sem varð hans ævistarf. Lengst af var hann á Sólberginu ÓF 12 eða frá árinu 1974 til ársins 1997, er hann lét af störfum. Þær voru margar siglingarnar sem hann fór í og alltaf nutum við systurnar, sem og aðrir í stórfjölskyldunni, góðs af þeim. Það voru spenntar systur sem gengu um borð þegar búið var að tolla skipið, haldandi í styrka hönd Inga sem leiddi þær ljúflega til káetu sinnar þar sem ýmislegt framandi sælgæti og dýrgripi bar fyrir augu. Eins og hans var von og vísa gerði hann lítið úr þessum gjöfum þó ég viti að sumar þeirra kostuðu tugi þúsunda. Hann var ætíð einstaklega gjafmildur og lagði mikið upp úr því að gjafirnar væru af bestu gæðum. Þeir eru margir dýrgripirnir sem okkur áskotnuðust, suma eigum við enn og munum varðveita um ókomin ár.
Ungur að árum missti Ingi móður sína. Þiðrandi afi minn var þá skyndilega orðinn einstæður faðir með tvö börn, fimm ára son og nokkurra mánaða dóttur. Örlögin höguðu því þannig að leiðir þeirra systkina skildi, Ingi ólst upp hjá föður sínum í Ólafsfirði en systir hans hjá móðurömmu sinni í Skagafirði. Ég veit að afi minn var aldrei sáttur við þessa tilhögun en henni varð ekki breytt. Afi giftist ömmu minni Snjólaugu og gekk hún Inga í móðurstað. Fyrir átti amma einn son en svo fæddust þeim hjónum tveir synir og dóttir og saman bjuggu þau öll í Sæbóli.
Með þungu og harkalegu höggi knúði sorgin dyra hjá þessari fjölskyldu árið 1965 þegar Sveini, yngsti bróðirinn, lést í hörmulegu slysi. Tveimur árum síðar lést Þiðrandi afi minn úr krabbameini og þar með hafði Ingi misst báða foreldra sína og kæran bróður, aðeins þrítugur að aldri.
Með barnsaugum mínum séð var Sæból gríðarstórt hús með ýmsum ævintýralegum krókum og kimum og þar átti ég góðar stundir. Herbergi Inga bar vitni um snyrtimennsku hans og natni, þar voru fágætir munir, allir í röð og reglu og ilmurinn af Old Spice fyllti vitin. Litlar hendur mínar máttu alltaf skoða og handleika þessa fágætu hluti og oftar en ekki var einhverju góðgæti laumað að mér í leiðinni, hvort sem það var rottuskott, jórturgúmmí, karamella eða Prins póló.
Árið 1974 flutti Ingi, ásamt Snjólaugu ömmu og Gesti uppeldisbróður sínum, í nýtt einbýlishús að Hlíðarvegi 27. Ingi sá til þess að ekkert skorti og hann var ömmu minni og Gesti stoð og stytta. Í Ingahús, eins og við systurnar kölluðum það, var alltaf gott að koma. Móttökurnar voru höfðinglegar, viðmótið blítt og einlægt ásamt svolítilli stríðni og veitingarnar sælgæti, harðfiskur að hætti Inga frænda og nýbakað bakkelsi að hætti ömmu. Þarna gátum við unað okkur margar stundirnar og stundum var okkur boðið niður í bæ með Inga og var þá komið við í Mummabúðinni þar sem Ingi bauð upp á Malta og ískaldan Valash gosdrykk. Aldrei byrsti Ingi sig við mig eða systur mínar þrátt fyrir óteljandi prakkarastrik okkar, heldur leiðbeindi með sínu ljúfa og brosmilda viðmóti og öðlaðist þannig ómælda virðingu af okkar hálfu. Við fundum fyrir væntumþykju hans og ég veit að hann fann hversu heitt við unnum honum, orð voru óþörf. Þegar börn okkar systra fóru að fara til hans fengu þau sömu blíðu móttökurnar og ýmsu góðgæti eða pening var laumað í litlar þakklátar hendur.
Eftir að Ingi hætti störfum var hann einstaklega iðinn við að dytta að húsinu sínu og hafði gaman af því. Þá var hann ötull að dytta að trillunni sinni, Guðrúnu ÓF 53 ásamt því að róa á henni af og til á sumrin. Hann fann sér alltaf eitthvað til dundurs og var sífellt að þó heilsan væri farin að bresta en hann greindist með krabbamein fyrir tveimur árum. Aldrei kvartaði hann heldur gerði lítið úr sínum vandamálum og bar ekki tilfinningar sínar á torg. Hann hafði yndi af því að hjálpa öðrum og mátti ekkert aumt sjá.
Ég hefði svo gjarnan viljað fá að halda í hendur hans síðasta spölinn, segja honum í síðasta sinn hversu vænt mér þótti um hann og hversu mikilvægur hann var mér og mínum alla tíð. Ég harma skyndilegt fráfall hans, syrgi yndislega manneskju og þakka fyrir þá góðmennsku sem sífellt streymdi frá honum og við sem þekktum hann nutum. Ég mun halda minningu hans á lofti og segja börnum mínum og barnabörnum sögur af manni sem bar harm sinn í hljóði, vann verk sín af alúð og hæversku og gaf með sinni mildu og óþrjótandi ljúfmennsku meira en orð fá lýst.
Hvíl í friði elsku Ingi frændi.

Lengi heilluðu hugann
heiðríkir dagar, alstirnd kvöld,
líf þeirra, ljóð og sögur,
sem lifðu á horfinni öld.
Kynslóðir koma og fara,
köllun þeirra er mikil og glæst .
Bak við móðuna miklu
rís mannlegur andi hæst.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Þyrí Stefánsdóttir.